Morgunn - 01.06.1966, Side 18
12
MORGUNN
brögðin upp, eins og sjá má einmitt af þverrandi áhuga
efnisvísindanna á trúarbrögðum og einnig þeirra, sem af
rétttrúnaðarástæðum fordæma samband við annan heim.
Trúin verður aldrei slitin burt frá reynslu manna og
þekkingu. Hún getur ekki lifað á sögusögn einni og kenni-
setningum, sem ekki samsvara lengur þeirri heimsmynd, er
vér nú eigum. Það stafar að mínum dómi aðeins af hreinu
skilningsleysi og andlegri blindu að halda nokkru slíku fram.
Haraldur Níelsson.
Sáiarrannsóknirnar eiga annars vegar að berjast við
kreddublindu og vanþekkingu þröngtrúaðra manna, en hins
vegar við lærdómsbelging svo kallaðra efnisvísindamanna,
sem stimpla hana fúsk eitt og gervivísindi, án þess að kynna
sér málið nokkurn skapaðan hlut. Rétt á litið ættu sálarrann-
sóknirnar að styðja málstað kirkjunnar meira en nokkur
önnur vísindi nútímans, enda hafa sálræn vísindi ávallt verið
í nánum tengslum við trúarbrögð, eins og ég hef fært nokk-
ur rök að í þessu erindi.
Og hver, sem man kirkjusóknina hjá séra Haraldi Níels-
syni, prófessor, fyrir um það bil 40 árum, þegar hann prédik-
aði í Fríkirkjunni í Reykjavík, getur gert sér það í hugar-
lund, hvers konar kirkjulíf verður þar, sem gáfaður maður
og andríkur prédikari, sem þekkir þessi mál af eigin reynslu,
ræðir um eilífðarmálin. Ég ætla, að kirkjusóknin hjá þess-
um ástsæla kennara mínum hafi verið eins dæmi í íslenzkri
kirkjusögu.
Löngu áður en kirkjan var opnuð, tóku menn að skipa
sér í biðraðir, sem oft náðu langar leiðir út á götuna, og
enginn vildi verða af hinu minnsta orði sem hann sagði.
Það voru svo sem til nógir vandlætarar þá eins og nú, sem
óðir og uppvægir vildu hann út úr kirkjunni, og hann átti
við rótgróna hleypidóma að stríða úr öllum áttum, en brenn-
andi mælska hans og andagift fór eins og stormviðri um
hugina og kveikti lifandi trú og von í hjörtum þúsunda, því