Morgunn - 01.06.1966, Side 72
66
MORGUNN
undan bænum og talið, að hann hefði fengið krampa á sundi.
En Isfeld fórst, er Þingmúlabærinn brann árið 1832, og var
talið, að hann hefði ekki þolað reykinn.
Margt bendir til þess, að Isfeld hafi haft sterkt hugboð
um dauða sinn. Sagt er, að eitt sinn hafi hann verið um það
spurður, hvernig dauða hans mundi að höndum bera. Þá
svaraði Isfeld: „Vant mun þess að geta. Það er eins og þar
sé allt hulið móðu eða reyk. Skyldi ég annars ekki fá líkan
afgang og gamli Njáll?“
Þegar langt er komið kirkjusmíðinni í Þingmúla, virtist
Isfeld vera orðinn þreyttur og dapur. Og einhverju sinni
heyrðist hann tauta fyrir munni sér: ,,Hvað skyldi það vera,
sem vofir hér yfir mér? Eitthvað er það, en ég get ekki séð,
hvað það er, en eitthvað er það, eitthvað er það.“
Isfeld hafði lofað Sigurði bónda á Mýrum að fara þangað
til smíða, er kirkjubyggingunni væri lokið. Sama dag og
kirkjusmíðinni lauk, kom að Þingmúla Halli bóndi í Bessa-
staðagerði. Bað ísfeld hann að koma við á Mýrum og biðja
Sigurð að sækja sig án tafar, „hvað sem gilti, og ekki seinna
en í kvöld, því hér skeður eitthvað í nótt. Ég veit ekki hvað
það er, en eitthvað er það.“ Bóndinn á Mýrum var ekki
heima, er Halli kom þangað. Láðist honum að tala um boðin
frá Isfeld við heimamenn.
Um nóttina varð bruninn, er olli dauða Isfelds, eins og
áður er sagt.
ísfeld lýsti sýnum sínum svo í viðtali við Melsted sýslu-
mann, að allt í einu væri sem nýr sjóndeildarhringur opnað-
ist fyrir augum sér. En það sjónarsvið, sagði hann, að lok-
aðist jafn snögglega og það lykist upp, og stæði á sýninni
örstutta stund. Við Pál son sinn ungan sagði hann á þessa
leið, er hann bað föður sinn að kenna sér að sjá: „Það er
lánað, barnið mitt, en verður engum kennt. Mér er gefið
þetta.“