Morgunn - 01.06.1966, Page 78
72
MORGUNN
að koma, hefði kveikt á týru frammi í eldhúsinu, en ljósið
slokknað, er hún var komin að baðstofustiganum.
„Sástu ljósið?“ segir mamma. „Hún Palla er sjálfsagt
að koma.“
Ég játti því. Og við hlustuðum bæði ofurlitla stund. Svo
fór ég aftur að spila á harmonikuna. Um það bil 10 mínút-
um seinna heyri ég að komið er inn í bæinn. Kallar Pálína
systir mín framan úr göngunum og biður mig að kveikja
ljós undireins, það sé gestur með sér, Sigríður Björnsdóttir,
sem ekki rati inn í þessu svarta myrkri. Ég flýtti mér að
kveikja á týrunni og fór með hana niður stigann og á móti
þeim, svo að þær sæu til að rata inn göngin. Ekki var meira
talað um ljósið, sem við mamma sáum á undan þeim. En við
vorum sannfærð um, að einhver ósýnilegur gestur hefði þá
verið að tilkynna okkur komu þeirra.
Þegar spilin týndust.
Þótt sjaldan sé spilað á heimilinu, eigum við þó venjulega
tvenn spil, önnur góð, sem notuð eru þegar gestir koma, hin
léleg, sem við hjónin leyfum barnabörnunum að leika sér að.
Nýju spilin geymi ég jafnan inn í læstum skáp, svo krakk-
arnir nái ekki í þau. En þegar þau taka að slitna, fá börnin
þau, en ný eru keypt í staðinn og læst inni í skápnum, þar
sem ekki ganga aðrir um en við hjónin.
Dag nokkurn, síðla vetrar, komu þrjár konur til þess að
spila við Sigríði konu mína. Var ég beðinn að ná í spilin úr
skápnum. Af einhverri rælni taldi ég spilin og kom þá í ljós,
að 7 spil vantaði. Þetta þótti okkur að vonum harla undar-
legt og óskiljanlegt. Varð það úr að lokum, að við fengum
önnur spil að láni. Ég leitaði vandlega í skápnum, en sú leit
bar engan árangur. Ég fletti spilunum enn á ný og athugaði
hvað vantaði, og voru það spil af öllum litum. Ekki fleygði
ég þó spilunum, heldur lét þau aftur í skápinn.
Nú líður af sumarið og fram á næsta vetur. Þá er það
einhverju sinni, að ég opna skápinn og rekst þar á spilin, sem