Saga - 1962, Blaðsíða 116
456
ÞORLEIFUR EINARSSON
öld. En þó ber þess að geta, að hvergi munu viðskipti við
útlönd hafa verið jafn greið og þar, svo að vel getur verið,
að landsetar hafi goldið Skálholtsstað, Viðeyjarklaustri
eða fógetum á Bessastöðum með innfluttu korni.
Við fornleifagröft hafa kornleifar fundizt á tveim stöð-
um sunnanlands, að Bergþórshvoli og Gröf í öræfum.
Kornleifarnar frá Bergþórshvoli fundust í brunarústum
og eru frá fyrri hluta 11. aldar. Kornleifarnar að Gröf
fundust í sofnhúsi og eru frá 1362, en sá bær fór í eyði í
Öræfajökulsgosinu það ár. Rannsóknir, sem Sturla Frið-
riksson (1959, 1960) hefur gert á kornleifunum frá þess-
um stöðum, benda eindregið til kornræktar þar. Var hér
um 4 hliða bygg (Hordeum vulgare) að ræða. Af þessu
má ráða, að bygg hafi verið ræktað á 11. öld á Bergþórs-
hvoli og fram á síðari hluta 14. aldar í Litlahéraði.
Um orsakir að hnignun og endalokum kornyrkju hér á
landi hefur margt verið ritað og margar getgátur komið
fram. Helztu getgáturnar eru þessar: Hallæri, t. d. svarti-
dauði; óáran, svo að útsæði skorti; breyttir þjóðfélags-
hættir, þ. e. skipting jarða og þar af leiðandi vinnuafls-
skortur; hrakandi verkmennt; breyttir verzlunarhættir og
síðast en ekki sízt versnandi loftslag. Af þessum getgát-
um virðast versnandi loftslag og breyttir verzlunarhættir
vera líklegastar orsakir.
Lítið er vitað um loftslagsbreytingar á fyrstu öldum
Islandsbyggðar og fram til siðaskipta. Hafís mun hafa
lagzt að landinu nokkrum sinnum, en þó ekki að ráði fyrr
en á 16. öld og síðan margoft næstu aldirnar. Jöklar munu
þegar á miðöldum hafa verið teknir að ganga fram, þótt
lítið sé vitað um breytingar þeirra fyrr en undir lok 17.
aldar, er bæina Breiðá og Fjall tók af vegna framrásar
Breiðamerkurjökuls. Frjógreiningin veitir enga vitneskju
um loftlagsbreytingar á sögulegum tíma vegna áhrifa
mannsins á gróðurfarið. En þó má ætla, að skógurinn hafi
í fyrstu veitt kornyrkjunni skjól fyrir vindi, en vart mun
hitastig hafa breytzt að nokkru ráði, þótt skógurinn hyrfi.