SunnudagsMogginn - 24.01.2010, Page 15
24. janúar 2010 15
er einfaldlega að athuga hvort allt sé
eins og það á að vera. „Fyrir ein-
staklinga eins og son minn jafnast
heimsókn til kvensjúkdómalæknis á
við að láta leiða sig til aftöku. Hann
getur ekki einu sinn horft sjálfur á
kynfæri sín og tekur ekki í mál að ein-
hver ókunnugur geri það. Hann fór þá
til kvensjúkdómalæknis í viðtal en ekki
skoðun og ég stóð með honum í því.
Þá átti líka að athuga hvort hægt væri
að stöðva blæðingar en sökum þess að
hann er með svo mikið af karlhorm-
ónum fær hann ekki blæðingar nema á
nokkurra mánaða fresti þannig að
þetta hefur ekki verið neitt mikið
vandamál. Brjóstin hafa verið miklu
verri,“ segir móðirin.
Eldri kynslóðin kemur á óvart
Þó að greiningin á barninu hafi ekki
komið foreldrunum algjörlega í opna
skjöldu hafa þau kviðið því að ræða
þetta við fjölskyldu og vini. „Það var
kannski helst að maður hugsaði að
eldri kynslóð karla ætti erfiðast með
þetta, eins og pabbi minn og tengda-
pabbi og afinn, það er að segja langafi
stráksins míns. Kvenfólk virðist alltaf
eiga auðveldara með svona breytingar
og tekur einstaklingi bara sem ein-
staklingi og skilgreinir hann ekki endi-
lega út frá kyni. En svo koma karl-
mennirnir manni á óvart og pabbi
minn sagði bara: „Þetta er ekkert
mál.“ Sú yngsta er hvort sem er nógu
bleik fyrir öll þrjú börnin og ég held að
hann hafi verið fyrstur til að taka upp
karlmannsnafnið. Þegar við töluðum
við tengdapabba þá sagði hann strax:
„Já, ég var nú alveg búinn að láta mér
detta þetta í hug.“ Þá hafði sonur okk-
ar verið hjá afa sínum í sveit í mánuð
að sumri og þegar hann fylgdist með
honum þar sá hann ekkert stelpulegt
við hann,“ segir móðirin.
Skólafélagarnir hafa alla jafna ekki
verið barninu erfiðir og flestir kenn-
ararnir hafa reynst fjölskyldunni vel.
„Hann er mjög félagslega sterkur og á
mikið af vinum og einn besta vin sem
er árinu eldri en hann. Sá strákur hef-
ur alltaf litið á son minn sem strák og
finnst þetta engu máli skipta. En þegar
það fór að verða vinsælt að gista hjá
vinum sínum lentum við foreldrarnir í
voðalegu basli. Sérstaklega þegar hann
komst á unglingsár og varð kynþroska.
Við foreldrarnir hugsuðum með okkur
að við værum kannski ekki tilbúin að
láta fjórtán ára dóttur okkar gista hjá
vini sínum sem er einu ári eldri. Svo
þegar við ræddum þetta við hann þá
sagði hann bara: „Oj mamma þú ert
ógeðsleg, af hverju ertu að hugsa
svona?“ Þessi hugsun kemst ekki einu
sinni að hjá þeim því þeir eru bara
tveir strákar og í dag gista þeir alveg
hvor hjá öðrum,“ segir hún.
Barnið hefur ætíð búið yfir lík-
amlegum og andlegum styrk. Viðbrögð
við áreiti hafa samt stundum verið
vandamál og hefur honum reynst erfitt
að halda aftur af sér að beita hnef-
unum. „Þótt það séu auðvitað kolröng
viðbrögð hjá honum hefur þetta líka
stundum hjálpað honum því hann
verður ekki undir og getur alltaf svar-
að fyrir sig, ef ekki með orði þá með
hnefanum. Hann er svolítið eins og
Lína langsokkur, sterkasta stelpa í
heimi. Kannski er Lína langsokkur
bara strákur og Emil í Kattholti ofvirk-
ur,“ segir móðirin og hlær.
Einfaldir hlutir eins og að geta farið í
skólann í strákafötum, að geta átt
kærustu og geta farið í sund ber að of-
an skipta öllu máli hjá barninu og allar
ákvarðanir er varða framtíðina hvíla á
herðum foreldranna. „Hann lifir bara í
núinu eins og aðrir unglingar gera. Ef
ég spyr hann til dæmis hvort hann
langi ekki til að eignast börn, þá svarar
hann bara: „Ha, jújú, kannski seinna.
En mig langar ekki til að verða
mamma, mig langar bara til að verða
pabbi.“ Þá lendir maður í því að spyrja
spurninga sem eldri einstaklingur sem
gengur í gegnum sama ferli og sonur
minn getur sjálfur spurt,“ segir móð-
irin.
Ruglast enn á nöfnunum
Um nafnabreytinguna og kynjabreyt-
ingu í fornafnanotkun segir móðirin:
„Það er svo stutt síðan við skiptum yf-
ir en erum búin að nota kvenmanns-
nafn í 15 ár. Við ruglumst því mjög oft.
Þessi breyting er örugglega miklu erf-
iðari fyrir foreldrana og eldri kynslóð-
ina en börnin. Þegar við tölum við
hann reynum við að minna okkur á að
nota karlkynsfornöfn og nýja nafnið.
En við vorum einmitt í Smáralindinni
um daginn og pabbi hans sagði óvart:
„Æ, getur hún ekki ákveðið sig.“ Þá
fengum við ansi grimmt augnaráð svo
ég reyndi að koma til bjargar og sagði
hátt: „Nei hann á eitthvað erfitt með
það.“ Við vorum líka í verslun nú ný-
lega þegar yngri bróðirinn kallaði
ítrekað á þann eldri með kvenmanns-
nafninu. Hann svaraði hvorki né leit á
þann yngri fyrr en hann notaði karl-
mannsnafnið svo þetta fer smám sam-
an að síast inn. Sá yngri sagði reyndar
um daginn: „Fyrst hann má skipta um
nafn, hvers vegna má ég þá ekki heita
Spiderman?“ Ég sagði síðan við eldri
son minn: „Hvernig heldurðu að þér
myndi ganga að kalla mig pabba? Þú
myndir örugglega ruglast einhvern
tímann.“ Þá fór hann bara að hlæja og
hann skilur alveg að þetta tekur smá-
tíma.“
Móðirin er þakklát svo mörgum sem
hafa lagt henni og fjölskyldunni lið;
læknum, sálfræðingum, fjölskyldu og
vinum, og segist enn ekki hafa fengið
neikvæð viðbrögð hjá þeim sem hún
hefur rætt þetta við. Eins er hún þakk-
lát fyrir það hversu barn hennar er
karlmannlegt. „Hann er svo stráksleg-
ur í útliti, vexti og fasi og það hjálpar
auðvitað mjög mikið. Þetta er örugg-
lega hræðilega erfitt fyrir þá sem glíma
við sömu tilfinningar og sonur minn
en eru mjög kvenlegir. Mér finnst líka
eins og margir hafi áhyggjur af því að
ég upplifi að ég sé að missa dóttur
mína. Svo er alls ekki en mögulega er
þetta auðveldara fyrir mig af því að ég
á eina sem er svo svakalega bleik. Ég
vonast til að þessi leiðrétting á kyni
verði til þess að hann verði sáttur við
tilveru sína og það nægir mér.“
’
Fyrir einstak-
linga eins og son
minn jafnast
heimsókn til kven-
sjúkdómalæknis á við
að láta leiða sig til af-
töku. Hann getur ekki
einu sinn horft sjálfur
á kynfæri sín og tekur
ekki í mál að einhver
ókunnugur geri það.“
Morgunblaðið/Golli