Morgunblaðið - 06.01.2010, Page 26

Morgunblaðið - 06.01.2010, Page 26
26 Minningar MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 6. JANÚAR 2010 ✝ Ómar Logi Gísla-son fæddist á Sauðárkróki 1. júlí 1958. Hann lést á Líknardeild Landspít- alans 22. desember síðastliðinn. Foreldrar hans eru Gísli Felixson, f. 12.6. 1930, og Erla Ein- arsdóttir, f. 4.3. 1930, d. 11.9. 2008. Systkini Loga eru: Einar, f. 13.12. 1952, og Efemía, f. 14.12. 1953. Eftirlifandi maki er Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 12.12. 1965. Sonur þeirra er Þorgeir, f. 16.6. 1991, og fósturdóttir hans er Kolbrún Ýrr, f. 12.3. 1987. Börn Loga af fyrra hjóna- bandi eru Thelma Sylvía, f. 10.1. 1986, og Gísli Logi, f. 9.2. 1988. Logi ólst upp á Sauðárkróki til 16 ára aldurs en flutti þá til Reykjavíkur og lauk námi í matvælafræði við Háskóla Íslands. Hann vann við kennslu og hjá Heil- brigðiseftirliti Kópa- vogs og Reykjavík- urborgar. Einnig stundaði hann sjómennsku um tíma. Útför Loga fer fram frá Digra- neskirkju í dag miðvikudaginn 6. janúar og hefst athöfnin kl 15. Elsku pabbi. Það er heldur tómlegt að hafa þig ekki hér með okkur. Stundum finnst mér samt eins og þú sért með okkur í anda. Ég á alltaf eftir að sakna tónlistarinnar sem þú spilaðir alla daga sem mér fannst ekki alltaf sú besta. En ég vandist henni og það leið ekki á löngu þangað til ég var sjálfur byrjaður að spila hana. Það á eftir að vera skrýtið að horfa á okkar lið keppa hvort á móti öðru og hafa þig ekki með mér. Við höfum horft á ófáa Arsenal-Manchester leiki þar sem við gátum endalaust deilt um leik- inn sem gerði það líka svo skemmtilegt. Ferðirnar norður eiga líka eftir að verða öðruvísi – að fara á þínar æskuslóðir án þess að hafa þig talandi um allskonar snilld um höfuðborg Evrópu eins og þú kallaðir Sauðárkrók alltaf. Eftir að hafa kvatt þig þá þykir mér vænna um hluti eða siði sem fóru kannski í taugarnar á mér áð- ur fyrr og græt yfir hlutum sem við hlógum að. Takk fyrir allt, elsku pabbi minn, þú varst besti pabbi sem hægt var að hugsa sér. Ég mun aldrei gleyma Arsenal-manninum, tónlistinni, húmornum og síðast en ekki síst Napóleon sjálfum. Nú kveð ég þig með orðunum sem þú sagðir alltaf við mig fyrir svefninn: Guð geymi þig. Þinn sonur, Þorgeir. Það er svo skrýtið að skrifa minningargrein um þig, pabbi minn. Það er eins og þú sért enn hjá okkur. Ég finn fyrir þér í hjartanu mínu. Ég finn hvað ég hef lært mikið af þér. Þú varst alltaf að kenna mér svo góð ráð. Þú varst einstaklega vanafastur og fórst í sund á hverjum degi. Ég skil það svo vel. Mér líður sjaldan jafnvel og þegar ég er búin í sundi. Þú varst algjör „princip“-maður eins og mamma kallaði þig og þeg- ar ég varð eldri fór ég að skilja hvað hún meinti með því. Þú varst svo ótrúlega skipulagður. Meira að segja þegar ég og Þorgeir vorum lítil og fengum Alfræði unga fólks- ins ætlaðir þú aldeilis að leggjast yfir fróðleikinn með okkur en byrj- aðir á Afríku. Það var engin til- viljun, þetta var einfaldlega fyrsta blaðsíðan í bókinni. Þú varst svo góð fyrirmynd, pabbi. Ég er svo þakklát fyrir að hafa alist upp við svona dugnað. Ég ætla að halda áfram að vera dugleg í skólanum, pabbi. Þú varst svo duglegur að láta mig vita hvað þú værir stoltur af mér. Góðu stundirnar og minn- ingarnar sem ég hef í huganum þegar ég hugsa um þig eru eins og óteljandi. Ég man sumafríin og sérstaklega ferðirnar í Skagafjörð- inn, ég man messurnar á aðfanga- dag og þegar þú fékkst gæsahúð við Ó, helga nótt. Ég man sög- urnar sem þú sagðir okkur Þor- geiri fyrir svefninn þegar við vor- um lítil, flestar af þeim voru sannar og af þér þegar þú varst lítill drengur hjá ömmu þinni og afa í Vík. Ég man að þú kallaðir okkur gullin þín og mér þótti svo vænt um það. Takk fyrir pabbi, fyrir húmor og skemmtilega lífs- sýn og fjölbreyttu tónlistina sem við Þorgeir ólumst upp við og takk fyrir að hafa verið svona frábær pabbi umfram allt. Mér finnst líka svo gott og mikilvægt hvað þú varst ánægður með Kára. Þér leist strax svo vel á tilvonandi tengda- soninn þinn. Ég er líka þakklát fyrir hvað ég náði að kveðja þig vel á spítalanum. Við vorum svo sérstaklega náin þegar við hlust- uðum á Hjálma og pældum í hvað þeir eru miklir snillingar. Þú tókst á við veikindin eins og hetja, pabbi, og varst án efa ein lífsgla- ðasta manneskja sem fólk á eftir að muna alltaf eftir. Eftir hetjunni kenndan við Bónaparte. Ég kveð þig með þessu ljóði. Mér tregt er um orð til að þakka þér, hvað þú hefur alla tíð verið mér. Í munann fram myndir streyma. Hver einasta minning er björt og blíð, og bros þitt mun fylgja mér alla tíð, unz hittumst við aftur heima. Ó, elsku pabbi, ég enn þá er aðeins barn, sem vill fylgja þér. Þú heldur í höndina mína. Til starfanna gekkstu með glaðri lund, þú gleymdir ei skyldunum eina stund, að annast um ástvini þína. Þú farinn ert þangað á undan inn. Á eftir komum við, pabbi minn. Það huggar á harmastundum. Þótt hjörtun titri af trega og þrá, við trúum, að þig við hittum þá í alsælu á grónum grundum. Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt, um þrautir og baráttu ræddir fátt og kveiðst ekki komandi degi. (Hugrún.) Þín dóttir, Kolbrún Ýrr. Nú er baráttunni við illvígan sjúkdóm lokið og þú kominn á ann- að tilverustig og við vitum að vel hefur verið tekið á móti þér. Eins og einn vinur þinn sagði, þá hefur þú lokið þinni síðustu skák á taflborði lífsins, en þínar skákir voru ekki allar auðveldar. Hetjuleg barátta, stundum með húmorinn að vopni í gervi Napo- leons Bonaparte, var þín leið til að takast á við erfiðan sjúkdóm. Stutt var í hnyttin tilsvör alveg fram undir það síðasta. Það var aðdáun- arvert hversu vel þú tókst á við veikindin og gerðir okkur lífið létt- ara með glensi og gleði. Þú varst sá sem komst með hugmyndir fyr- ir okkur fjölskylduna að samveru- stundum eins og Víkurferðina ógleymanlegu þar sem rifjaðar voru upp margar skemmtilegar minningar. Á þínum yngri árum dvaldir þú á sumrin hjá Einari afa og Þor- gerði ömmu í Vík í Mýrdal. Þótti þér alltaf gott að koma í Víkina og var haldið í hefðir ömmu í Vík alla tíð og búið til gulrótarmarmelaði sem er það besta í heimi. Þótti þér líka gott að heimsækja æskustöðv- arnar í Skagafirðinum, dvelja í sumarbústað fjölskyldunnar og njóta útiveru. Íþróttir og allskonar hreyfing var stór hluti af lífi þínu og voru hlaupin, gönguferðir og sund stunduð af kappi meðan þrekið leyfði. Hlaupnar voru hinar ýmsu leiðir í Kópavogi og ekki gef- ist upp fyrr en í fulla hnefana. Í þessum ferðum var oft mikið rætt um lífið og tilveruna eins og í einni ferðinni, þegar leiðin lá fram hjá kirkjugarði, þá spáðir þú mikið í hvernig það væri að vera undir krossunum. Eitt af því sem þú hafðir mikinn áhuga á í veikindunum var matur og þótti þér gott að borða og kunn- ir svo sannarlega að hrósa fyrir góða matargerð. Þú fékkst áhuga á lífrænt ræktuðum mat og hráfæði sem endaði með Svíþjóðarferð til að læra um hráfæði. Einkakennslan hjá Námsflokk- um Hafnarfjarðar var þitt líf og yndi síðustu árin og lagðir þú mik- inn metnað í að nemendur þínir næðu árangri. Nú ertu kominn yfir móðuna miklu og ert búinn að fá svör við spurningu þinni um hvernig mót- tökurnar yrðu og hver tæki á móti þér. Við fáum vonandi að frétta það frá þér síðar eins og þú lofaðir Skúla. Aðdáunarvert var að fylgjast með hvernig Inga, Kolbrún og Þorgeir studdu þig í veikindum þínum. Mikill er söknuður okkar allra og ljúf minning lifir. Einar og Soffía, Efemía og Skúli. Elsku besti frændi minn er horf- inn frá okkur, allt of snemma, allt of ungur. Það er erfitt að þurfa að sætta sig við að fá ekki fleiri góðar stundir með honum, manni finnst lífsins spil vera ósanngjarnt og stundum eins og það sé vitlaust gefið. En þannig er lífið og það sem við eigum þó eftir eru góðar minningar. Logi háði hetjulega baráttu í tvö ár við illvígan sjúkdóm sem lagði hann að velli að lokum. Það var hans gæfa í lífinu að eiga yndislega fjölskyldu sem studdi hann og styrkti í veikindunum. Þau eru hetjur og eiga alla mína aðdáun og samúð. Ég man ekki mikið eftir Loga frá því ég var barn, hann var yngri bróðir pabba og 14 árum eldri en ég. Ég man óljóst eftir ungum manni sem teiknaði flottar myndir, var alltaf að læra og ég bar mikla virðingu fyrir og þótti vænt um. Þegar ég varð fullorðin og sér- staklega eftir að ég flutti suður um tíma varð til vinátta og trúnaður milli okkar Loga sem var mér mjög dýrmætt. Við áttum ýmis áhugamál sameiginleg, einnig sjúkdóm sem við höfðum bæði þurft að berjast við frá unga aldri og gátum rætt alla hluti opinskátt okkar á milli með djúpum gagn- kvæmum skilningi. Stundirnar okkar saman, hvort sem við vorum tvö ein eða með mökum eða fjöl- skyldum, þar sem við ræddum allt frá bókmenntum og listum til erf- iðra og sárra hluta í lífinu voru ómetanlegar. Það eru þessar stundir sem ég á eftir að sakna mest. Það eru líka þessar stundir sem geyma bestu minningarnar. Elsku Logi, sorg okkar og sökn- uður eru mikil. Það er þó huggun í því að trúa og vita að þú ert nú á góðum stað í faðmi framliðinna ættingja og vina. Ég bið Guð að geyma þig og vernda ástvini þína sem eftir lifa með sorg og trega í hjörtum, þerra tárin þeirra og gefa þeim ljós og frið í sálum sínum. Kæri frændi, kveð þig nú, koss af fingrum sendi yfir hæstu himnabrú, með heita von og ósk og trú hann finni þig, í hjarta þínu lendi. Erla Einarsdóttir og fjölskylda. Ég ætla mér út að halda, örlögin valda því, mörgum á ég greiða að gjalda, það er gömul saga og ný guð einn veit hvert leið mín liggur, lífið svo flókið er, oft ég er í hjarta hryggur en harka samt af mér eitt lítið knús, elsku mamma, áður en ég fer, nú er ég kominn til að kveðja, ég kem aldrei framar hér er mánaljósið fegrar fjöllin, ég feta veginn minn, dyrnar opnar draumahöllin og dregur mig þar inn ég þakkir sendi, sendi öllum, þetta er kveðjan mín, ég mun ganga á þessum vegi uns lífsins dagur dvín (Einar Georg Einarsson.) Svo hljómar lagið hans Loga. Við hugsum til þín á sólarströnd- inni á himnum, með reggí-tónlist Hjálmanna á fullum styrk. Þú stendur þar eins og við munum þig best. Berð þig vel og ljómar þínu fegursta brosi. Þín smitandi hlýja umvefur allt og alla. Þér líður vel og yfir þér er mikill friður. Það er sú minning sem er greypt í hjörtu okkar að eilífu. Það er kominn tími til að kveðja, kæri vinur, þetta er okkar síðasta lag. Kæri Napóleon okkar, sem lif- ir áfram í sinni frábæru fjölskyldu. Þín verður sárlega saknað með- an líf þitt er margfaldlega þakkað. Jens Sigurðsson og fjölskylda. Ég vil minnast Ómars Loga vin- ar míns með nokkrum fátæklegum orðum. Vinátta okkar hófst fyrir um tveimur áratugum er ég var svo heppinn að kynnast honum sem vinnufélaga hjá Heilbrigðis- eftirliti Reykjavíkur og sem sam- kennara hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Ómar Logi var ein- staklega duglegur og samvisku- samur maður. Hjá Heilbrigðiseft- irlitinu vann hann sín störf af vandvirkni, var ákveðinn ef því var að skipta, en sanngjarn og ávann sér þannig virðingu sem heilbrigð- isfulltrúi. Ómar var glæsilegur maður og hafði góða nærveru. Hann var hreinskilinn og kom til dyra eins og hann var klæddur, drengur góður og vinur vina sinna. Ómar Logi vann um langt árabil hjá Námsflokkunum í Reykjavík, samhliða starfi sínu hjá Heilbrigð- iseftirliti Reykjavíkur. Námsflokk- arnir voru þá staðsettir í gamla Miðbæjarskólanum. Byggingin nötraði öll af krafti og lífi, kennslu- stofur fullar af nemendum og ið- andi mannlíf í skólanum. Kennarar og nemendur unnu og hlógu þar saman og dúndrandi stemmning til staðar. Krafturinn í starfseminni var leiddur áfram af hugsjónakon- unni Guðrúnu Halldórsdóttur, sem lét aldrei deigan síga í þeirri hug- sjón sinni, að efla alþýðumenntun og hjálpa þeim er áttu undir högg að sækja. Sem kennari í Námsflokkunum var Ómar Logi á heimavelli, því kennarastarfið var honum í blóð borið. Ómar var sérstaklega dug- legur og skipulagður kennari, full- ur af ástríðu til starfsins, enda far- sæll kennari og mér er minnisstætt hversu fallega rithönd hann hafði. Guðrún Halldórsdóttir mat hann líka mjög mikils, enda vissi hún að Ómar Logi var einn af hennar bestu kennurum. Við Ómar Logi tefldum mikið og spiluðum bridge með félögum okk- ar í heilbrigðiseftirlitinu. Í slíku ati kom skýrt í ljós hversu mikill keppnismaður Ómar Logi var, hann gaf sig allan í leikinn og þoldi illa að tapa. Þetta mikla keppn- isskap reyndist honum síðan vel í hans miklu og langvinnu veikind- um. Hann gafst aldrei upp og þótt útlitið væri dökkt hélt baráttan áfram og var kímnin aldrei langt undan. Ómar Logi bar höfuðið hátt til síðustu stundar og sýndi þar með sannan hetjuskap. Ég bið góðan guð að blessa ást- vini hans í þessari miklu sorg. Ágúst Thorstensen. Í dag kveðjum við kæran og mikilsmetinn samstarfsmann okk- ar, Ómar Loga Gíslason, heilbrigð- isfulltrúa og matvælafræðing, sem lést langt um aldur fram skömmu fyrir jól eftir tveggja ára baráttu við alvarleg veikindi. Í þeirri bar- áttu kom vel í ljós sá persónuleiki sem hann var. Kjarkmikill, já- kvæður, hafði óbilandi trú á að hann myndi sigrast á erfiðleikun- um og alltaf var stutt í húmorinn þó að útlitið væri ekki gott. Hann ætlaði sér að vera sá sem sigraði, ná upp fyrri styrk og koma aftur til vinnu. Ómar Logi sýndi mikið baráttuþrek í veikindum sínum, las sér til um sjúkdóminn og var op- inskár um stöðuna. Ómar Logi var glæsilegur maður á velli hugsaði vel um matarræði sitt, hreyfingu og fleira sem auðveldaði honum baráttuna. Ómar Logi starfaði sem heil- brigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftir- liti Reykjavíkur frá 1989 með nokkrum hléum sem hann tók og starfaði þá bæði hjá öðrum heil- brigðiseftirlitssvæðum eða sem kennari, en kennsla stóð hug hans nærri. Ómar Logi gekk einbeittur að hverju verkefni, hlífði sér hvergi og gekk ekki frá hálfklár- uðu verki. Það var engin lognmolla þar sem Ómar Logi fór. Hann hafði sterkar skoðanir á ýmsum málum og var tilbúinn til að deila þeim og rökræða. Léttlyndi og húmor einkenndi framkomu hans og hann dreif vinnufélagana áfram hvort sem það var að koma á fót spilaklúbbi, badmintonhópi eða öðru sem styrkti félagsandann á vinnustaðnum. Í starfi heilbrigðisfulltrúa skipt- Ómar Logi Gíslason ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, KRISTÍN BJARNADÓTTIR, Hrafnistu í Reykjavík, áður til heimilis að Óðinsgötu 15, Reykjavík, lést sunnudaginn 3. janúar. Gunnar Þór Geirsson, Anna Guðrún Hafsteinsdóttir, Bjarni Geirsson, Þuríður Björnsdóttir, Jón Hróbjartsson, Margrét Dan Jónsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Bróðir okkar, SKÚLI BJÖRNSSON, hjúkrunar- og dvalarheimilinu Fellsenda í Dölum, lést á heimili sínu miðvikudaginn 16. desember. Útförin fór fram í kyrrþey. Fyrir hönd systkinanna, Guðmundur Björnsson.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.