Saga - 2005, Síða 9
Arfbætur og ófrjósemisaðgerðir
Rannsóknir á sögu ófrjósemisaðgerða á Vesturlöndum á fyrri hluta
20. aldar hafa vakið upp ýmsar spurningar, t.d. um fylgi við kyn-
þáttahyggju og mannkynbótastefnu, þátt menntamanna og stjórn-
málamanna í þeirri sögu, uppbyggingu velferðarþjóðfélags, vald
sérfræðinga, hlutverk heilbrigðisþjónustu og síðast en ekki síst um
mannréttindi. Á Norðurlöndum var framkvæmd slíkra aðgerða
hluti af stefnu stjórnvalda í velferðar- og heilbrigðismálum frá því
á 4. áratugnum og fram á 8. áratuginn.6
Fylgjendur mannkynbótastefnu (eugenics), eða arfbótastefnu
eins og hún kallaðist líka hér á landi, voru helstu talsmenn þess að
ófrjósemisaðgerðir yrðu lögleiddar í Bandaríkjunum og Evrópu á
fyrri hluta 20. aldar.7 Stefnan fól í sér ýmis tilbrigði í útfærslu og
hugmyndafræði eftir löndum og áhangendum, t.d. hvað snerti
kenningar um erfðir (mendelismi/lamarckismi) og hugmyndir um
mikilvægi erfðanna andspænis áhrifum atlætis á eiginleika manna
(nature vs. nurture). Til að gera langa sögu stutta byggðist hún í að-
alatriðum á þeirri trú að flest ef ekki allt í fari manna, skapgerð,
hæfileikar, hugsun og hegðun, ákvarðaðist af erfðum rétt eins og
útlit og líkamsbygging. Fylgismenn stefnunnar boðuðu að rækta
bæri æskilega eiginleika hjá mönnum ekki síður en hjá nytjajurtum
og húsdýrum til að byggja upp gott samfélag með hæfum þegnum
í stað þess að leyfa ringulreið að ráða í tímgun mannsins. Þeir bentu
á að sú ringulreið og úrkynjun af hennar völdum færðist í aukana
þar sem læknavísindi og velferðarstefna héldi lífi í fólki sem áður
„V Ö N U N A N D L E G R A F Á R Á Ð L I N G A …“ 9
6 Paul Weindling, „International Eugenics: Swedish Sterilization in Context,“
Scandinavian Journal of History 24:2 (1999), bls. 179–197. — Maciej Zaremba, De
rena och de andra. Om tvångssteriliseringar, rashygien och arvsynd (Falkenberg
1999).
7 Fyrst til að lögleiða ófrjósemisaðgerðir var Indianafylki í Bandaríkjunum árið
1907. Tuttugu og sex önnur fylki sigldu í kjölfarið á árunum 1909–1935. Sviss
bættist í hópinn 1929 (kantónan Vaud), Þýskaland 1933, Kanada 1933 (Alberta-
fylki og British Colombia), Eistland og Lettland 1937. Sé horft til Norðurlanda,
þá heimiluðu Danir ófrjósemisaðgerðir með lögum 1929, Norðmenn og Svíar
árið 1934 og Finnar 1935. Þessi lög giltu fram á 8. áratuginn þegar þau voru
endurskoðuð (aðeins fyrr í Danmörku eða 1967). Sjá: Paul Weindling,
„International Eugenics“, bls. 187. — Aðgerðir voru heimilar í fleiri löndum
auk þess sem þær voru sums staðar gerðar áður en lög komu til, og annars
staðar án þess að vera löglegar, en ekki er hægt að tíunda þá sögu hér.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:09 Page 9