Saga - 2005, Page 10
hefði dáið án þess að eignast afkomendur. Þeir hvöttu stjórnvöld til
að stuðla að barneignum hæfra þegna, þ.e. þeirra sem sýndu með
þjóðfélagsstöðu sinni, velgengni og hegðun, að þeir byggju að
æskilegum erfðaeiginleikum. Kallaðist þetta markmið jákvæð
mannkynbótastefna (positive eugenics). Stjórnvöldum bar ekki síður
að berjast gegn úrkynjun með því að sinna neikvæðri mannkyn-
bótastefnu (negative eugenics) með því að draga úr eða hindra alfar-
ið barneignir fólks með óæskilegt erfðaupplag. Slíkt fólk var andfé-
lagslegt og óhæft til undaneldis, sögðu arfbótasinnar, og í þágu
samfélagsins að það yrði gert ófrjótt til að vinna gegn úrkynjun af
þess völdum. Í þeim hópi voru helst taldir þroskaheftir, geðsjúkir,
áfengissjúklingar, afbrotamenn, vandræðaunglingar, vændiskonur
og þurfalingar. Í sumum löndum fékk sú skoðun hljómgrunn hjá
stjórnvöldum og sett voru lög sem heimiluðu ófrjósemisaðgerðir í
þessum tilgangi. Lögin byggðust á ríkri forsjárhyggju sem réttlætt
var með því að þar sem velferðarkerfi nútímans væri ætlað að
hlynna að þeim ósjálfbjarga og bágstöddu þá hefði það rétt til að
koma í veg fyrir að sá hópur eignaðist úrkynjuð börn sem yrðu
byrði á samfélaginu. Áherslan á sparnað samfélagsins sem hlytist
af takmörkun barneigna þeirra sem ekki gátu séð fyrir börnum sín-
um án hjálpar velferðarkerfisins var samofin áherslunni á gagn-
semi ófrjósemisaðgerða til erfðabóta. Ákvæði laganna voru breyti-
leg eftir löndum en til að gera langa sögu stutta má segja að þau
hafi fyrst og fremst miðað að því að heimila ófrjósemisaðgerðir á
þroskaheftum og geðsjúkum.8 Sé aðeins horft til Norðurlandanna
þá teygðu lögin sig lengra eða til þeirra sem töldust vera á mörkum
U N N U R B I R N A K A R L S D Ó T T I R10
8 Um sögu arfbótastefnu austan hafs og vestan, sjá t.d.: Daniel J. Kevles, In the
Name of Eugenics. Genetics and the Uses of Human Heredity (New York 1985). —
The Wellborne Science. Eugenics in Germany, France, Brazil, and Russia, ritstj. Mark
B. Adams (Oxford 1990). — Eugenics and the Welfare State. Sterilisation Policy in
Denmark, Sweden, Norway, and Finland, ritstj. Gunnar Broberg og Nils Roll-Han-
sen (Michican 1996). — Fræðimenn hafa greint arfbótastefnuna í „mainline eu-
genics“ og „reform eugenics“. Fyrrnefnda afbrigðið ruddi brautina og ein-
kenndist af rasisma og grófri eða einfaldri mynd af erfðum eiginleikum sem
mikilvægir væru í samfélagslegu tilliti. Hið síðarnefnda hafnaði rasisma og
gekk út frá því að erfðir lytu mun flóknari lögmálum en frumherjar arfbóta-
fræðanna höfðu gefið sér. Þessar áherslur innan stefnunnar sköruðust í tíma.
Sú fyrrnefnda einkenndi hana frá um 1900 en hin síðari kom fram á 4. og 5. ára-
tugnum. Sjá t.d.: Nils Roll-Hansen, „Conclusion: Scandinavian Eugenics in the
International Context,“ Eugenics and the Welfare State (Michigan 1996), bls. 259.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:09 Page 10