Saga - 2005, Síða 18
Frumvarp það, er ég hefi samið um að heimila í viðeigandi til-
fellum aðgerðir á fólki til að koma í veg fyrir, að það auki kyn
sitt, á ekki rót sína að rekja til neinna draumóra um víðtækar
„kynbætur“ þjóðarinnar og sízt á grundvelli hinna óvísinda-
legu kenninga um mat á fólki eftir því, hver kynflokkaein-
kenni það kann að bera. Er nú hátt látið um slíkt af ýmsum og
eins og vita mátti allra hæst af þeim, sem á hinum óljósu hug-
myndum um kyn og kyngæði og flóknu fræðum um erfðalög-
mál og arfgengi kunna sízt skynsamlega grein.33
Ekki kemur fram hvort landlæknir var aðeins að senda íslenskum
nasistum skilaboð eða hvort hann ætlaði einhverjum meðal lækna
að taka þetta til sín, nema hvort tveggja væri, en í greinargerð sinni
gagnrýndi hann grein sem birst hafði í Læknablaðinu árið 1935, þar
sem vitnað var með velþóknun í þýskt tímarit og m.a. hrifist af því
sem þar stóð um ágæti laga Grágásar um að gelda mætti göngu-
menn hvar og hvenær sem væri. Íslendingum til forna hefði verið
ljóst hversu mikilvægt var að kynstofninn væri góður, og þeir vildu
því losna við landeyður, sagði sá er ritaði, en hann lét ekki nafns
síns getið, og bætti við: „Þeir stóðu oss framar að þessu leyti“.34 Að
sögn Vilmundar urðu þessi skrif til þess að honum féllust nærri því
hendur við að semja frumvarp sitt og þótti jafnvel vafasamt að fela
læknum ábyrgðina á framkvæmd laganna ef slík viðhorf væru uppi
meðal þeirra.35
Í greinargerð með frumvarpinu fjallaði landlæknir aðeins um
arfbótastefnu og tók undir þau sjónarmið arfbótasinna að hinir
miður gerðu hrúguðu um of niður börnum og hinu best gerða fólki
hætti til að vilja eignast of fá börn.36 Hins vegar hafnaði hann því
að hægt væri að bera saman kynbætur dýra og manna:
[E]r það fjarstætt að jafna saman kynbótum manna og kynbót-
um búpenings. Með slíkum kynbótum er stefnt að því, að dýr-
in svari vel einhverri ákveðinni kröfu, sem eigendurnir gera til
U N N U R B I R N A K A R L S D Ó T T I R18
33 Vilmundur Jónsson, Afkynjanir og vananir, bls. 5.
34 Læknablaðið 21:4 (1935), bls. 65. — Í Grágás segir: „Það er ómennska ef maður
gengur með húsum fyrir sakir nenningarleysis eða ókosta annarra, þeirra er
góðir menn vili fyrir þeim sökum eigi við þeim taka. Rétt er að gelda göngu-
menn, og varðar eigi við lög þótt þeir fái örkumbl af eða bana.“ Sjá: Grágás.
Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Um útgáfu sáu Gunnar Karlsson, Kristján
Sveinsson og Mörður Árnason (Reykjavík 1992), bls. 108.
35 Vilmundur Jónsson, Afkynjanir og vananir, bls. 17–18.
36 Sama heimild, bls. 9–10.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:09 Page 18