Saga - 2005, Side 39
um ófrjósemisaðgerðir vegna greindarskorts án slíkra mælinga.
Þegar um ungar konur væri að ræða ætti fyrst og fremst að fá þær
til að nota getnaðarvarnir, t.d. lykkju, í stað þess að gera þær ófrjó-
ar.73 Þrátt fyrir þessi varnaðarorð voru gerðar ófrjósemisaðgerðir
vegna „andlegs vanþroska“ á einstaklingum innan við tvítugt út
allan gildistíma laganna, þ.e. frá 1938 fram á mitt ár 1975.74
Spyrja má hvort einhverjir þeirra sem gerðir voru ófrjóir á unga
aldri samkvæmt lögum nr. 16/1938, hafi í krafti sérfræðiúrskurðar
um „andlegan vanþroska“ átt um sárt að binda eftir að frá þeim var
tekið að geta eignast börn. Mál þeirra systkina, sem minnst var á í
upphafi þessarar greinar, nægir til að svara þessari spurningu ját-
andi. Hins vegar er ekki hægt að svara því eingöngu með því að
rannsaka umsóknir um aðgerðir hvort fleiri en áðurnefnd systkini
hafi upplifað að brotið hafi verið á þeim.75
Vanvit, siðvit og lauslæti
Eins og sjá mátti í þeim skrifum íslenskra manna um mannkynbæt-
ur, sem rætt var um fyrr í þessari grein, var vændiskonan eða hin
siðlausa, lausláta kona gjarnan talin upp á listanum yfir þá úrkynj-
uðu og var það tekið upp úr skrifum erlendra arfbótasinna, líkt og
átti við um önnur atriði í umræðunni um kynbætur manna. Í er-
lendum arfbótaskrifum varð mönnum tíðrætt bæði um vændiskon-
una og hina illa gefnu lauslátu konu fátækrahverfanna, sem breiddi
út úrkynjun með lausaleiksbörnum. Kynbótasinnar vildu að fólk,
einkum þó konur, lifði grandvöru lífi og þeir litu lauslætið horn-
auga þar sem barneignir í lausaleik stuðluðu að úrkynjun. Það fór
saman, sögðu arfbótamenn, vitið og siðferðið. Greind manneskja
hefði vit til að stjórna hvötum sínum og vanda makaval sitt. Sú
treggáfaða eða vanvitinn hefði það á hinn bóginn ekki og þar sækti
líkur líkan heim.76
„V Ö N U N A N D L E G R A F Á R Á Ð L I N G A …“ 39
73 „Fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir,“ Rit Heilbrigðis- og tryggingamálaráðu-
neytisins 4 (Reykjavík 1973), bls. 24–25.
74 Byggt á úrvinnslu á gögnum úr skjalaflokknum: ÞÍ. Landlæknir. Afkynjanir
og vananir. — ÞÍ. Landlæknir 1999-D4/233–240.
75 Til að nálgast svör við slíkri spurningu þarf eftirfylgnirannsókn og er óvíst
um árangur af henni, þar sem margt af því fólki sem gert var ófrjótt er orðið
mjög roskið eða fallið frá.
76 Daniel J. Kevles, In the Name of Eugenics, bls. 53, 71, 107–108.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:09 Page 39