Saga - 2005, Page 51
sem verið hefur með öðru móti en Vatnsdæla sú sem útdrættir voru
úr í Sturlubók eins og bent var á hér að framan. Þannig er Vatns-
dæla ekki yngri en frá því um 1270, en hún er varla mjög miklu
eldri en svo. Einar Ól. Sveinsson telur hana frá því um 1270 með
ýmsum rökum, auðvitað misjafnlega mikilvægum. Mikilvægust
aldursraka hans eru þau sem dregin eru af afstöðu sögunnar til
konungsvalds og goðorða, og hliðstæðna frá 13. öld við atburði í
sögunni. Með þeim rökum er sagan að nokkru leyti sett inn í sam-
félagslegt og sögulegt samhengi, henni fenginn staður í raunveru-
legri sögu sem sögulegu fyrirbæri. Sagan verður heimild til ís-
lenskrar sögu.
Einar Ól. bendir á það hve mikla rækt höfundur Vatnsdælu
leggur við að sýna hvílíkrar konungsvináttu Ingimundur gamli,
landnámsmaður og ein helsta hetja sögunnar, hafi notið og telur
höfundinn hafa verið hlynntan norska konungsvaldinu. Þetta er án
efa rétt og bendir til konungsvalds á Íslandi þegar sagan er skrifuð.
Enn þyngra vega þessi ummæli í sögunni sem Einar Ól. bendir
einnig á: „En það voru lög í þann tíma meðan erfingjar voru í
ómegð, að sá skyldi af þingmönnum varðveita goðorðið, sem best
þætti til fallinn.“10 Þessi ummæli benda eindregið til þess að hin
fornu lög um goðorð gildi ekki á ritunartíma sögunnar. Má af þessu
álykta að goðorð á Íslandi hafi þá verið framseld konungi. Konung-
ur mun hafa eignast Vatnsdælagoðorð ekki síðar en 1262 en þá eru
staddir á Alþingi bæði Ásgrímur Þorsteinsson og Sigurður Þor-
steinsson í Hvammi, synir Þorsteins Jónssonar í Hvammi í Vatnsdal,
að sverja konungi land. Þorsteinn var höfðingi Vatnsdæla um miðja
13. öld. Hann var vinur Kolbeins unga og Ásbirninga sem raunar
áttu þá flest goðorð um Húnaþing, þó á móti Sturlungum vestast.
Eins og Einar Ól. bendir á hafa þeir Hvammverjar talið sig eftirmenn
hinna fornu Vatnsdæla. Á þeirra dögum og væntanlega undir hand-
arjaðri þeirra hefur Vatnsdæla að öllum líkindum verið rituð.11
Loks má líta á þau rök sem Einar Ól. leggur raunar minnsta
áherslu á til aldursgreiningar en bendir þó á, þ.e. sögulegar hlið-
stæður frá 13. öld. Samkvæmt Þórðar sögu kakala reið Þórður með
flokk manna í Vatnsdal sumarið 1243 til föðurhefnda. Hann kom í
Hvamm þar sem þeir tóku Þorstein höndum:
VAT N S D Æ L A S Ö G U R O G K R I S T N I S Ö G U R 51
10 Vatnsdæla saga. Íslenzk fornrit VIII. Einar Ól. Sveinsson gaf út (Reykjavík 1939),
bls. 109.
11 Vatnsdæla saga, bls. xiii.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:09 Page 51