Saga - 2005, Side 56
kristni á Íslandi. Leifarnar af Vatnsdælu frá 13. öld úr Melabók og
Kristni saga sýna upprunalegri texta.
Fleiri ástæður kunna þó að vera til breytinganna sem koma fram
í Vatnsdælu á 14. öld. Þær varða þá hneigð (tendens) sem sjá má í
lokaorðum Vatnsdæluútdráttarins frá 13. öld um kristnitöku Þor-
kels og allra Vatnsdæla: „Hann lét kirkju gjöra að Hofi og veitti þar
gröft öllum þingmönnum sínum.“ Þetta hefur líklega farið fyrir
brjóstið á kirkjunnar mönnum, veraldlegur goði veitir þingmönn-
um sínum gröft að kirkju sinni. Þarna kemur fram pólitísk hneigð
sem snertir staðamáladeilur 13. aldar, forræði í samfélaginu og stolt
veraldlegrar yfirstéttar sem taldi sig arftaka hinna fornu goða. Sam-
kvæmt söguskoðun þessara höfðingja, sem réttlætti völd þeirra og
yfirráð yfir samfélaginu og kristninni á 13. öld, voru þeir komnir af
landnámsmönnum sem hér höfðu numið land fyrir guðlega for-
sjón. Þeir höfðu skipað hér málum, siðsemdum og trúarbrögðum,
m.a. með því að byggja hof, og haft forystu í samfélags- og trúmál-
um frá upphafi byggðar. Þeir höfðu einnig hlutast til um kristni-
töku samfélagsins, byggt kirkjur og stýrt kristninni. Um þetta má
lesa m.a. í Vatnsdæluútdrættinum frá 13. öld. Vatnsdæla saga hefur
upphaflega verið rituð um þær mundir sem staðamál voru í upp-
siglingu, um 1260–1270, og sýnir pólitísk viðhorf veraldlegrar höfð-
ingjastéttar á þeim tíma.
Sama hneigð kemur raunar víðar fram í Íslendinga sögum. Í
Eyrbyggja sögu er þessi pólitíska hneigð um uppruna höfðingskap-
ar glögg, um forystu höfðingja í heiðni og hlutdeild þeirra í kristni-
töku. „Flutti Snorri goði mest við Vestfirðinga að við kristni væri
tekið.“21 Eyrbyggja mun rituð um líkt leyti og Vatnsdæla saga.
S V E I N B J Ö R N R A F N S S O N56
21 Eyrbyggja saga. Íslenzk fornrit IV. Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson
gáfu út (Reykjavík 1935), bls. 136. Sbr. Sveinbjörn Rafnsson, Sögugerð Landnáma-
bókar, bls. 145. Tilkall veraldlegra íslenskra höfðingja á 13. öld til eldri og upp-
runalegri valda en kristni og kirkja, valda sem næðu aftur á landnámstíma, á
sér hliðstæðu suður á Frakklandi í lok 13. aldar þar sem Frakkakonungar töldu
sig í árdaga hafa komið til Gallíu, sem flóttamenn eftir Trójubardaga, löngu fyr-
ir alla kristni og kirkju. Viðbrögð veraldlegs valds gegn kröfum kirkju og páfa
á 13. öld koma þannig fram með keimlíkum hætti í sagnaritun bæði á Íslandi
og í Frakklandi, eins og raunar víðar í álfunni. Sjá: G. Melville, „Kompilation,
Fiktion und Diskurs. Aspekte zur heuristischen Methode der mittelalterlichen
Geschichtsschreiber“, Theorie der Geschichte. Beiträge zur Historik, Band 5. Histori-
sche Methode, herausgeg. v. C. Meier und J Rüsen (München 1988), bls. 133–153,
einkum bls. 141. Munurinn er sá að Íslendingar telja einungis aftur til land-
námstíma, en margar aðrar evrópskar þjóðir til Trójubardaga.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:09 Page 56