Saga - 2005, Page 66
hundrað árum fyrr með atbeina heimildarmanna sinna. Enginn
þeirra hafði sjálfur lifað þá atburði og höfðu þeir einungis spurnir af
þeim. Síðar á 12. öldinni rituðu Þingeyramunkarnir Oddur Snorra-
son og Gunnlaugur Leifsson enn frekar um kristniboð og kristnitöku
á Íslandi í sögum sínum af kristniboðskonunginum Ólafi Tryggva-
syni. Þá var auðvitað enn lengra liðið frá þeim atburðum en í tíð Ara
fróða. Staðan er því sú að því lengra sem líður frá kristniboði og
kristnitöku á Íslandi þeim mun meiri og blómlegri sagnaritun verð-
ur til um það fram eftir 12. og 13. öld. Þetta var eftirlætisviðfangsefni
kirkju- og klaustramanna sem skrifuðu bækur í skjóli biskupa og
ábóta. Á fyrri hluta 13. aldar virðist Kristni saga hafa verið rituð sem
eins konar samantekt á fyrri sagnaritun um þessi viðfangsefni.
En nú bregður svo við í upphafi 21. aldar, í hinni nýju útgáfu
Kristni sögu og Kristni þátta, að fram koma önnur viðhorf og verð-
ur mörgum almennum lesanda eflaust erfitt að átta sig á uppruna
og tilurð þessara sagnarita. Útgefendurnir, Sigurgeir Steingrímsson
og Ólafur Halldórsson, eru mjög ósammála um margt í þeim efn-
um. Sigurgeir telur að Kristni saga sé heimild Ólafs sögu Tryggva-
sonar hinnar mestu.53 Ólafur bendir hins vegar á að þó að Kristni
saga sé eldri en Ólafs sagan mikla verði ekki séð að texti Ólafs sög-
unnar sé tekinn eftir henni. Sýnir Ólafur síðan með textadæmum að
handan þeirra sé sameiginleg heimild.54
Sigurgeir telur höfund Kristni sögu vera höfund Þorvalds þátt-
ar og Stefnis þáttar.55 Ólafur bendir hins vegar á að í Þorvalds þætti
hafi höfundur Kristni sögu stuðst við sömu heimild og varðveittar
gerðir Þorvalds þáttar, þ.e. að sameiginleg heimild sé að baki.56 Enn
fremur bendir Ólafur á að í Stefnis þætti sé „augljóst að höfundur
Kristni sögu hefur stuðst við sömu heimild og sögusmiður Ólafs
sögu Tryggvasonar.“57
S V E I N B J Ö R N R A F N S S O N66
53 Biskupa sögur I, bls. cxvii og cxxix.
54 Sama heimild, bls. ccvii–ccix. Sama skoðun kemur fram í: Sveinbjörn Rafns-
son, Sögugerð Landnámabókar, bls. 138.
55 Biskupa sögur I, bls. cxxix.
56 Sama heimild, bls. clxxvii, sbr. bls. clxxix þar sem varpað er fram þeirri spurn-
ingu hvort hin sameiginlega heimild kunni að vera Gunnlaugur Leifsson.
Ólafur er þarna sömu skoðunar og fjölmargir fyrri fræðimenn, sjá: Sveinbjörn
Rafnsson, Sögugerð Landnámabókar, bls. 79.
57 Biskupa sögur I, bls. clxxxi. Sama skoðun kemur fram í: Sveinbjörn Rafnsson,
Sögugerð Landnámabókar, bls. 102.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:09 Page 66