Saga - 2005, Síða 81
helzt í landinu“, eins og segir í söluskilmálunum.33 Helmingur sölu-
verðs kúgildanna skyldi aftur á móti greiðast strax við söluna, en af-
gangur þess lagðist síðan við eftirstöðvar jarðarverðsins og var með-
höndlaður á sama hátt og þær. Leiguliðar nutu í öllum aðalatriðum
sömu greiðslukjara og aðrir kaupendur. Undantekning frá þeirri
reglu var þó sú að þeir fengu þriggja ára greiðslufrest á fyrsta sjötta-
hluta kaupverðsins, en urðu að greiða þriðjung þess innan sex ára frá
kaupdegi eins og aðrir. Að auki var leiguliðum ekki gert að greiða
helming kúgildaverðs í upphafi eins og öðrum kaupendum, heldur
lagðist verð kúgildanna við jarðarverðið strax frá kaupdegi.34
Þótt leiguliðar nytu ekki verulegra ívilnana við kaup á jörðum
Skálholtsstóls var ýmislegt í söluskilmálum stjórnvalda sem átti að
stuðla að bættum kjörum leiguliða á þessum jörðum í framtíðinni
ef þær héldust áfram í leiguábúð. Í fyrsta lagi var leiguliðum, sem
bjuggu á jörðum við söluna, tryggður festarréttur, eða lífstíðarábúð,
og því mátti ekki byggja leiguliðanum út nema honum væri útveg-
uð önnur jörð jafngóð til að búa á. Þetta gekk beinlínis gegn þeirri
venju í íslensku samfélagi að leiguliðum væru aðeins leigðar jarðir
til eins árs í senn, en óljóst er hvort þessu ákvæði var nokkurn tíma
fylgt eftir eða hvort það taldist gilda fyrir aðra leiguliða en þá sem
sátu jarðirnar þegar þær voru seldar. Í öðru lagi var bannað um alla
framtíð að heimta kvaðir (svo sem mannslán, hestalán og dagsverk)
af leiguliðum á fyrrverandi Skálholtsjörðum. Að síðustu voru föst
leigukúgildi aftekin af þessum jörðum þótt leiguliðum og landeig-
endum væri heimilt að semja um leigu þeirra ef þess var óskað.35
Af skilmálum við jarðasöluna sést því að stjórnvöld ætluðu sér
ekki aðeins að auka sjálfsábúð á Íslandi heldur einnig að draga úr
þeim mun sem var á milli jarða í leigu- og sjálfsábúð á Íslandi. Þetta
var í samræmi við viðhorf ýmissa danskra embættismanna, en þeir
höfðu það stundum á orði að íslenskir starfsbræður þeirra, sem
voru gjarnan landeigendur, fylgdu slælega eftir reglugerðum sem
stjórnin setti til að verja réttindi leiguliða á Íslandi.36 Þegar á reyndi
S A L A S K Á L H O LT S J A R Ð A 81
33 „Rentekammer-Plakat“, bls. 148.
34 Sama rit, bls. 150–151.
35 Sama rit, bls. 149–152.
36 Sjá: Guðmundur Jónsson, „Sambúð landsdrottna og leiguliða. Yfirvöld skrifa
um leiguábúð 1829–35“, Saga XXVI (1988), bls. 65–67. Í slíkri gagnrýni var oft
vísað til tilskipunar frá 15. maí 1705, þar sem reynt var að koma í veg fyrir
meintan yfirgang landeigenda gagnvart leiguliðum, sjá: „Forordning om ad-
skillige Misbrugers Afskaffelse udi Island“, Lovsamling for Island, bls. 623–624.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:10 Page 81