Saga - 2005, Síða 91
hagsástand landsins á þeim árum sem jarðirnar voru boðnar upp.
En, eins og áður kom fram, var yfirlýst markmið stjórnvalda í sjálfu
sér ekki að afla sem mests fjár í ríkiskassann, heldur fremur að færa
fjárhag biskupsstólsins á tryggari og nútímalegri grundvöll en ver-
ið hafði, um leið og ætlunin var að auka sjálfsábúð í landinu, ís-
lenskum bændum til hagsbóta. Rétt er því að huga nánar að því
hvort stjórninni varð að þessum óskum sínum.
Hvað fyrra atriðið varðar er ljóst að fyrirheit stjórnvalda gengu
illa eftir, a.m.k. fyrst eftir flutning skóla og biskupsembættis til
Reykjavíkur. Nokkuð öruggt má telja að stjórnin hafi staðið mjög
slælega við skuldbindingar sínar gagnvart síðustu biskupum Skál-
holtsbiskupsdæmis, þeim Hannesi Finnssyni og Geir Vídalín, þótt
það séu örugglega verulegar ýkjur að þeirra hafi beðið hin „aumasta
tómthúsmennska, við takmarkaðan fjárkost“, eins og Þorkell Jó-
hannesson segir í Sögu Íslendinga.57 Í það minnsta er ekki annað að
sjá en að Hannes Finnsson hafi látið ekkju sinni eftir ágætan arf við
dauða sinn árið 1796. Vandræði Hólavallaskóla á fyrstu árum 19.
aldar eru einnig alkunn, en hann hefur hlotið hin hraklegustu eftir-
mæli hjá flestum sem um hann hafa fjallað. Skólahúsið, sem byggt
var á árunum 1785–1786, hélt hvorki vatni né vindi og var skóla-
haldi því hætt í Reykjavík árið 1804 og starfsemin flutt til Bessa-
staða árið eftir.58 Þessi vandræðagangur í rekstri biskupsembættis
og skóla stafaði sjálfsagt ekki síst af því að síðustu ár Napóleons-
stríðanna voru Dönum einkar erfið. Endaði sú sorgarsaga með rík-
isgjaldþroti árið 1813 og ári síðar tapaðist Noregur til Svía með Kíl-
arfriðnum.59 Tímasetning sölu stólsjarðanna var því afar óheppileg
fyrir þá sem áttu að njóta teknanna af uppboðunum, því að fallvalt
var að treysta á fjárveitingar frá fjarlægu ríkisvaldi á slíkum óvissu-
tímum.
Erfitt er að meta hversu vel tókst að uppfylla síðara markmið
stjórnarinnar með jarðasölunni, eins og áður var sagt, því að ekki er
vitað að hverju stjórnvöld stefndu. Ljóst er að salan jók sjálfsábúð á
S A L A S K Á L H O LT S J A R Ð A 91
57 Þorkell Jóhannesson, Saga Íslands VII, bls. 149.
58 Árni Helgason, „Skólahættir í Skálholti og í Reykjavíkurskóla hinum forna“,
Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu og nýju IV (Kaupmannahöfn
og Reykjavík 1907–1915), bls. 74–88. — Árni Óla, Gamla Reykjavík. Sögukaflar
(Reykjavík 1954), bls. 206–228. — Jón Helgason, Hannes Finnsson, bls. 169–183.
— Klemens Jónsson, Saga Reykjavíkur I (Reykjavík 1944, 2. útg.), bls. 146–150.
59 Claus Bjørn, Danmarks historie X. Fra reaktion til grundlov (Kaupmannahöfn
1990), bls. 107–129.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:10 Page 91