Saga - 2005, Page 93
nema kaupendurnir vildu binda laust fé í fasteignum fremur en fela
það í hirslum sínum.
Tregða bænda við að kaupa ábýlisjarðir sínar stafaði þó ekki síð-
ur af því að hugmyndir um mikilvægi sjálfsábúðar miðuðust við allt
aðrar aðstæður en ríktu hér á landi við lok 18. aldar — og reyndar
löngu eftir það. Líta má á tilraunir stjórnarinnar til að bæta kjör
leiguliða og efla sjálfsábúð á Íslandi sem lið í hinum miklu umbót-
um sem settu mjög ákveðinn svip á danska ríkið á síðari hluta 18.
aldar, og þá sérstaklega eftir stjórnarskipti í Kaupmannahöfn árið
1784. Umbæturnar, sem flestar komu leiguliðum mjög vel, voru ekki
síst gerðar að frumkvæði danskra landeigenda og var ætlað að
styrkja markaðsbúskap í dönskum landbúnaði. Birtist umbótavið-
leitnin einkum í svokölluðum landbúnaðarumbótum á síðustu
árum 18. aldar (þ.e. landboreformerne), en í þeim fólust takmarkanir á
vinnukvöðum, afnám átthagafjötra, uppskipting sveitaþorpa í sjálf-
stæð býli og stuðningur við sjálfsábúð.64 Allar þessar aðgerðir mið-
uðu að því að auka frelsi bænda til að haga búskap sínum á þann
hátt sem þeim hugnaðist best, og gefa þeim þar með meiri mögu-
leika til að nýta sér hækkandi verð á framleiðsluvörum sínum. Allt
til ársins 1807, þegar breski flotinn réðst á Kaupmannahöfn og
hertók danska flotann, var mikill uppgangur í dönsku efnahagslífi.
Góðærið kom bændum mjög til góða, ekki síst þegar þeir gátu skipt
upp eignum sem þeir keyptu og selt frá sér til annarra, og því virð-
ast þeir hafa hagnast vel af því að kaupa ábýlisjarðir sínar.65
Í íslenskum landbúnaði var enginn markaðsbúskapur fyrir
hendi og lítill áhugi á að koma honum á. Þvert á móti vörðu flestir
áhrifamenn þessa tíma hefðir og siði landbúnaðarsamfélagsins með
S A L A S K Á L H O LT S J A R Ð A 93
64 Um helmingur danskra leiguliða mun hafa keypt jarðir sínar á þessum árum,
sjá: Ole Feldbæk, „Historikerne og landboreformerne. Traditioner og proble-
mer“, Historisk tidsskrift [danskt] 89 (1989), bls. 51. Um landbúnaðarumbæt-
urnar, sjá: Ole Feldbæk, Danmarks historie IV. Tiden 1730–1814 (Kaupmanna-
höfn 1982), bls. 146–194. — Frank E. Hugget, The Land Question in European
Society (London 1975), bls. 87–98. — Fridlev Skubbeltrang og Kamma Struwe,
„Storhandelens gennembrud og de store landboreformer“, Danmarks historie
II. Ritstj. J. Hvidtfeldt, A. Steensberg og Ib Koch-Olsen (Albertslund 1951), bls.
49–60. — Axel Steensberg, Den danske landsby gennem 6000 år (Kaupmannahöfn
1973), bls. 139–165. — Svend Aage Hansen, Økonomisk vækst i Danmark I
(Kaupmannahöfn 1976), bls. 58–69.
65 Lotte Dombernowsky, „Ca. 1720–1810“, Det danske landbrugs historie II,
1536–1810. Ritstj. Claus Bjørn (Kaupmannahöfn 1988) bls. 351–359.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:10 Page 93