Saga - 2005, Page 112
leiguliða hefði komið úr röðum leysingja og því séu bein tengsl á
milli fjölgunar leiguliða og fækkunar þræla.52 Í Landnámu og Ís-
lendingasögum eru mörg dæmi um leysingja sem veitt hafði verið
frelsi og gefnar jarðir og gæti slíkt vísað til félagslegs veruleika 12.
aldar, trúlega ekki síður en landnámsaldar.
Ekki þarf að taka fullyrðingu Íslendingabókar um að Ísland hafi
orðið „albyggt“ á 60 árum hátíðlega, samfélagsbreytingar taka oft
lengri tíma en síðari tíma menn gera sér grein fyrir. E.t.v. náði mann-
fjöldi á Íslandi ekki hámarki fyrr en um 1100 þótt erfitt sé að færa
sönnur á slíkt. Ef aukin mannfjölgun hefur valdið jarðnæðisskorti
um 1100 gæti það hafa verið ástæða fyrir minnkandi þrælahaldi og
vaxandi leiguliðabúskap. Þar hljóta þó fleiri þættir að hafa komið til.
Hitt er ljóst að á þessum tíma hefur aukinn hluti framleiðslunn-
ar horfið úr höndum bænda til stétta og stofnana sem gátu lifað á
umframframleiðslunni. Slíkar breytingar á efnahagslegum tengsl-
um eru forsenda þess að til verði stéttasamfélag í efnahagslegum
skilningi.53 Eitthvað þessu líkt átti sér stað á Íslandi á síðari hluta
11. aldar og á 12. öld. Þar má sérstaklega líta til tíundargreiðslna og
annarra tolla sem komu nú í hlut kirkjubænda.
Tíundin veitti bændum sem áttu kirkju eða höfðu staðaforráð
möguleika á að innheimta fé af öðrum í sókninni enda þótt þeim
hafi jafnframt verið lagðar á hendur skyldur um hvernig ráðstafa
skyldi fénu. Því má ætla að upptaka tíundar árið 1097 hafi haft í för
með sér vissar þjóðfélagsbreytingar. Ef gert er ráð fyrir að tíundin
hafi að einhverju marki raskað valdahlutföllum á milli bænda þá er
athyglisvert að það gerist á svipuðum tíma og þrælahald líður und-
ir lok. Slík fylgni í tíma er vissulega engin sönnun fyrir orsakasam-
hengi, en því verður ekki neitað að jafnframt því sem ein leið til að
gera upp á milli manna lokaðist þá opnuðust aðrar leiðir til þess.
Á síðari öldum hefur stéttarhugtakið verið notað til að aðgreina
þjóðfélagshópa. Hugtakið „stétt“ var einnig til á miðöldum og
merkti þá ástand eða tign.54 Í Þorláks sögu hinni yngri kemur fram
„að í sérhverjum stétt síns lífs, frá bernsku og til hins hæsta kenni-
S V E R R I R J A K O B S S O N112
52 Sveinbjörn Rafnsson, Studier i Landnámabók. Kritiska bidrag till den isländska
fristatstidens historia. Bibliotheca Historica Lundensis 31 (Lundi 1974), bls. 161.
— Sjá einnig: Iversen, Trelldommen, bls. 286.
53 Sbr. Lindkvist, Landborna i Norden under äldre medeltid, bls. 21.
54 Johan Fritzner, Ordbog over det gamle norske Sprog I–III (2. útgáfa; Christiania
1883–1896), III, bls. 541–542. Myndin „stéttur“ var einnig til yfir orðið í þess-
ari merkingu.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:10 Page 112