Saga - 2005, Síða 120
landi.80 Snorri Sturluson var gerður að skutilsveini og síðar lendum
manni þegar hann var í Noregi 1218–1220.81 Jón murtur, sonur
hans, og Gissur Þorvaldsson gerðust skutilsveinar sumarið 1229.82
Jón Jóhannesson segir að Snorri, Jón murtur og Gissur hafi verið
„einu Íslendingarnir, sem fengu skutilsveinsnafnbót á dögum Há-
konar konungs, svo að vitað sé“.83 Væntanlega hafa þeir þó verið
fleiri þótt ekki séu nefndir í heimildum. Síðar urðu þeir hirðmenn
konungs, Aron Hjörleifsson og Þórður kakali Sighvatsson, að því er
segir í Arons sögu, en ekki er nánar tiltekið hver staða þeirra var
innan hirðarinnar.84 Þorgils skarði Böðvarsson gerðist hirðmaður
konungs í æsku. „Gaf konungur þá Þorgilsi skjöld og brynju því að
þau vopn skorti hann áður.“85 Finnbjörn Helgason, sem konungur
skipaði „ríki fyrir norðan Vaðlaheiði og ætlaði honum bústað á
Grenjaðarstöðum“ vorið 1252, hefur einnig verið hirðmaður þar
sem hann kallar Þorgils skarða lögunaut sinn.86
Fór svo að lokum að tveir hirðmanna konungs, Gissur Þorvalds-
son og Þórður Sighvatsson, reyndu að útkljá deilur sínar á Íslandi
að hirðlögum.87 Liðu þá ekki mörg ár þar til að íslenskir bændur
voru orðnir sammála um að láta konung vera æðsta yfirvald á Ís-
landi.
Hirðmenn Noregskonungs eru mikilvæg stétt á Íslandi í um 100
ár (1220–1320), á stuttu en miðlægu tímabili. Þeir einkenndu sig
með ýmsum hætti. Einn af upphafsmönnum hirðmennskunnar,
Snorri Sturluson, hefur „jóladrykki eftir norrænum sið“ veturinn
1226–1227.88 Töluvert er gert úr því í sögum að bræðrungar hans,
Þórður Sighvatsson og Þorgils skarði Böðvarsson, hafi hlíft konum
og kirkjum í ófriði Sturlungaaldar, en þar fylgdu þeir fordæmi Nor-
egskonunga.89 Íslenskir höfðingjar hafa verið í góðu sambandi við
S V E R R I R J A K O B S S O N120
80 Um það hef ég áður ritað, sbr.: Sverrir Jakobsson, „Upphefð að utan“, Sæmd-
armenn. Um heiður á þjóðveldisöld (Reykjavík 2001), bls. 23–39.
81 Sturlunga saga I, bls. 277–278.
82 Sama heimild, bls. 342.
83 Jón Jóhannesson, Íslendinga saga II, bls. 211.
84 Sturlunga saga II, bls. 270, 275.
85 Sama heimild, bls. 113.
86 Sturlunga saga II, bls. 88, 119. Sbr.: Jón Jóhannesson, Íslendinga saga II, bls. 219.
87 Sturlunga saga II, bls. 81–82.
88 Sama heimild, bls. 315.
89 Sbr.: Sverrir Jakobsson, „Friðarviðleitni kirkjunnar á 13. öld,“ Saga XXXVI
(1998), bls. 7–46 (bls. 38).
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:10 Page 120