Saga - 2005, Page 182
í raun málsvörn fyrir aðferð einsögunnar eins og hann þýðir enska
hugtakið microhistory. En ævisögur höfunda á borð við Jóhann og
Laxness verða aldrei einungis ævisögur þeirra, heldur má ef til vill
skilgreina þær að hluta sem sjálfsævisögur þjóðar.3 Þetta skýrir
kannski að hluta til þau átök sem orðið hafa um ævisögu Halldórs
Laxness þar sem augljóst er að persónuleg stjórnmálaafstaða hans
leikur stórt hlutverk.4 Auk þess er ljóst af lestri ævisagnanna beggja
að höfundar þeirra hafa nýtt sér flestar þær einsögulegu heimildir
sem Sigurður Gylfi leggur svo mikla áherslu á. Það er því heppileg-
ast að líta fyrst á Fortíðardrauma hans en sú bók inniheldur skelegga
skilgreiningu á helstu flokkum sjálfsævisögulegra texta, prentaðra
og óprentaðra.
Frá hinu almenna til hins sérstaka og til baka
Bók Sigurðar Gylfa fæst í Bóksölu stúdenta eins og vera ber og það
er kannski einkennandi fyrir þetta verk, sem fjallar um aðferða-
fræði í sagnfræði, að henni er stillt upp með ritum í bókmennta-
fræði, en ekki sagnfræði. Þetta er líkast til engin handvömm, aðeins
kalt mat starfsmanna á innihaldi bókarinnar og sýnir vel hversu
þverfagleg hún er. Þetta er bók sem nýtist án nokkurs vafa á báðum
fræðasviðum og vekur upp spurningar um sannleiksgildi ritaðra
texta yfirleitt. Vangaveltur um hversu áreiðanlegar heimildir felist í
sjálfsævisögum, endurminningarritum, samtalsbókum, skáldævi-
sögum og ævisögum, eins og Sigurður Gylfi flokkar hinar prentuðu
heimildir, snúast að sumu leyti um það hvernig textinn skapar við-
fang sitt, hvernig textaflokkurinn er samofinn viðfangsefninu, set-
ur því bæði ramma og stýrir meðferð þess. Þannig skoðar hann
áhrifavalda sjálfsævisögunnar, hvatann að útgáfu og stöðu þess
einstaklings sem staðfestir sjálf sitt með svo opinberum hætti. Sig-
urður Gylfi bendir á að heimildagildi slíkra frásagna hafi oft verið
talið vafasamt, en hann hafnar því eindregið og bendir einnig á að
G A U T I K R I S T M A N N S S O N182
3 Hér er ekki verið að vísa til þjóðarsögu í sagnfræðilegum og empírískum skiln-
ingi, heldur miklu fremur smíða á sjálfsmynd(um) sem fram fara í gegnum
skrif um aðra menn, mikilmenni. Þannig mynda dýrlingasögur að hluta til
sjálfsmynd kristninnar og áfram mætti lengi telja.
4 Sú saga verður ekki sögð hér en Sigurður Gylfi rekur ýtarlega upphaf þess
þáttar hennar í Fortíðardraumum er snýr að tilraun Hannesar Hólmsteins Giss-
urarsonar til að rita ævisögu Laxness; sjá bls. 153–155 og 237–298.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:11 Page 182