Saga - 2005, Blaðsíða 194
Í inngangi segir að ritgerðin fjalli um „hvernig Íslendingar skynjuðu
stöðu sína í umheiminum og mátu tengsl sín við aðrar þjóðir.“2 Ritgerðin
er könnun á þessari skynjun eins og hún birtist í textum sem voru tiltækir
íslenskum lesendum á móðurmáli þeirra á miðöldum, fyrir 1400. Í megin-
hluta hennar er unnið með andstæðupör, annars vegar það sem telst til
„okkar“, hins vegar það sem telst til „hinna“ og afmarkar „okkur“ þannig
utan frá. Þetta er meðvituð aðferð höfundar, eins og hann bendir jafnvel
óþarflega oft á og segir til dæmis á bls. 39: „Sérhver hópur kallar á annan
eða fleiri gagnhópa, fyrirbærið „við“ er ekki til nema fyrirbærið „hinir“ sé
það líka.“ Þetta er auðvitað hárrétt, og þessi samræmda aðför að efninu gef-
ur ritverkinu þægilegan heildarsvip, sem er mikilvægt vegna þess að þar er
óneitanlega farið nokkuð víða.
II.
Að loknum stuttum inngangi fjallar I. hluti ritgerðarinnar, Útlínur heimsmynd-
ar (1.–3. kafli), um rannsóknarefnið og heimildir um það. Niðurstaða af
vangaveltum um skilgreiningu er á bls. 45, þar sem höfundur segist hafa fært
rök að því að „heimsmynd megi skilgreina sem hugmyndir afmarkaðs hóps
um efnisheiminn, lönd og legu þeirra og ekki síst þá sem heiminn byggja.“ Í
þessum hluta skipa mikið rúm vangaveltur um hvaða stétt(ir) manna eigi þá
heimsmynd sem birtist í heimildum, og er niðurstaða höfundar sú að hafi
alþýða átt heimsmynd sem var ólík eða andstæð heimsmynd skrifandi
yfirstéttar þá hafi naumast varðveist heimildir um hana (bls. 71). Hins veg-
ar þurfi (bls. 72) „ekki að örvænta um að þessir karlar [sem skrifuðu heim-
ildirnar] geti talist dæmigerðir hvað varðar viðhorf til umheimsins.“
Hér er líka fjallað um það sem höfundur kallar „víddir heimsmyndar“,
um skynjun miðaldamanna, einkum íslenskra, á rúmi, tíma og sögu. Hér er
farið víða, en lokaorðin eru þau (bls. 98) að „lóðrétt rúmvitund og
týpólógísk söguvitund“ miðaldamanna hafi meðal annars valdið því „að
fátt var framandi, óþekkta staði og tíma hlaut að vera hægt að tengja við
helga staði og stundir. Þannig varð heimurinn að þéttriðnu neti, heild þar
sem allt var í samhengi.“ Þetta er ekki laust við að vera flókið, en ég vona
að mér haldist uppi að einfalda það með því að segja að menn hafi metið
fyrirbæri í rúmi og tíma einkum eftir því gildi sem þau höfðu, fremur en eft-
ir stærð og röð.
Ætli það sé ekki óhætt að segja að næstu þrír hlutar ritgerðarinnar
myndi kjarna hennar? Þar slær höfundur æ þrengri hringi um viðfangsefni
sitt, byrjar á að umlykja hinn kristna heim í II. hluta, fer svo inn í heim nor-
rænna manna í III. hluta og til Íslendinga sérstaklega í IV. hluta.
G U N N A R K A R L S S O N194
2 Sverrir Jakobsson, Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100–1400 (Reykjavík
2005), bls. 13. Framvegis verður vísað í bókina með því að tiltaka blaðsíðutal í
meginmáli, oftast innan sviga.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:11 Page 194