Saga - 2005, Page 224
og Egils Skalla-Grímssonar: Snorri hafði sjálfur átt í erjum við bróður sinn,
Sighvat, og lagt fæð á hann og að auki girnst eiginkonu annars manns, að
vísu ekki bróður síns heldur bróðursonar, Sturlu Sighvatssonar. Að máli
þessu loknu setur Torfi fram tilgátu: Höfundur Egils sögu samdi hana í
þeim tilgangi að réttlæta valdastöðu sína og annarra Sturlunga í ljósi hjálp-
ræðissögunnar og fylkja þeim á bak við sig á þrengingartíma ættarinnar. En
Egils saga er jafnframt og ekki síður játning og yfirbótarverk syndugs
manns, Snorra Sturlusonar. Ef þetta vefst eitthvað fyrir mönnum ættu þeir
að taka sér í hönd draumaráðningabók Sigmunds Freuds næst þegar þeir
lesa Egils sögu.
Skáldið í skriftinni er innblásið verk og hugmyndaríkt og samið af mik-
illi þekkingu á fornum og nýjum fræðum. En sumt af því sem Torfi heldur
fram er af þeim toga að erfitt er að koma við fullnægjandi rökum hvort
heldur með eða á móti. Því er samt ekki að neita að stundum er eins og
túlkunargleðin verði næsta hömlulítil. Það þarf frjótt ímyndunarafl til að
láta sér til hugar koma að Egill Skalla-Grímsson hafi íklæðst brjóstvörn
heilagrar kirkju gegn syndinni þegar hann festi á sig hellustein mikinn áður
en hann lagði til atlögu við Úlf og menn hans í Eiðaskógi. Ekki er síður örð-
ugt að sannfærast um að kappinn Egill Skalla-Grímsson, sem lét sér ekkert
fyrir brjósti brenna, hafi verið þrúgaður af samviskubiti yfir því að brjóta
gegn lögum kirkjunnar þegar hann sat hnípinn hjá Arinbirni vini sínum
með hugann bundinn við Ásgerði, ekkju bróður síns. Torfi gerir sér mat úr
því að Halldór Laxness taldi Sonatorrek vera kristilegt kvæði þegar hann
kom auga á orðasambandið „með góðan vilja“ í niðurlagi kvæðisins (sbr.
Lúkasarguðspjall 2:14 í kaþólskum útgáfum Biblíunnar). Sjálfur notaði
Halldór sama orðalag í ræðu sem hann hélt í tilefni af 35 ára afmæli rúss-
nesku byltingarinnar: Allir menn „sem fagna góðum vilja“ skyldu eiga
hlutdeild í því ríki sem grundvallast á friðarhugsjón sósíalismans (sbr.
Halldór Guðmundsson, Halldór Laxness. Ævisaga (Rv. 2004), bls. 564). Það
skyldi þó aldrei vera að kaþólskan frá klausturárunum brjótist þarna fram
hjá skáldinu, að í dýpri skilningi orðanna hafi friðarríkið fyrirheitna ekki
verið hér á jörðu heldur á himnum?
Ekki er ætlunin að láta lítils háttar aðfinnslur varpa skugga á þetta ný-
stárlega verk en þó verður ekki hjá því komist að staldra við fáeinar for-
sendur hér í lokin. Torfi virðist gera ráð fyrir að lesendur Egils sögu hafi
búið yfir nægilegri kunnáttu til að skilja kristilegt táknmál hennar. Vafa-
laust hafa þeir þurft að bera skynbragð á myndmál og bragfræði drótt-
kvæða til að geta notið sögunnar enda var slík þekking þáttur í virðingu
manna eins og Torfi tekur fram. Ekki er samt víst að þeir hafi verið að sama
skapi vel að sér í helgum fræðum þó svo að hér hafi verið til hómilíur á ís-
lensku, drög að Biblíuþýðingum og sitthvað úr fórum kirkjufeðra. Þar að
auki var guðsþjónustan ekki sú kennslustund í kristnum fræðum sem síð-
ar varð (ekki síst við jarðarfarir) því að allt helgihald fór fram á latínu nema
R I T D Ó M A R224
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:11 Page 224