Saga - 2005, Page 241
póstmódernískrar söguspeki […] afneitun þess að sagnfræðileg skrif vísi til
raunverulegrar sögulegrar fortíðar“ (bls. 135). Þessa hugmynd tengir
Iggers náið við „the linguistic turn“. Sjálfsagt er ekki ofsagt hjá Iggers að
almennt fylgi við þessa hugmynd mundi marka endalok sagnfræði sem
vísindagreinar (sbr. bls. 135 o.áfr.). Ekki verður annað sagt en höfundur hafi
tekið póstmódernismann háalvarlega þegar hann lagði drög að verkinu,
enda var stefnan þá mjög ágeng í mörgum bandarískum háskólageirum. En
þegar Iggers skrifaði eftirmálann var bylgja póstmódernismans mjög tekin
að dala og setur það mark sitt á mat hans. Hér (bls. 170) telur Iggers að
„póstmódernísk afstæðishyggja í sinni róttækustu mynd [hafi] haft næsta
lítil áhrif í sagnfræðirannsóknum og söguritun.“ Hann bætir reyndar við að
hugmyndir náskyldar póstmódernisma hafi haft mjög mikil áhrif á stefnur
og strauma í sagnfræði. Þessi afstaða er nokkuð dæmigerð fyrir þá jafnvæg-
islist sem höfundur temur sér í þessu yfirlitsriti.
Iggers er ágætur rithöfundur sem setur hugsun sína fram í knöppu og
skýru máli og beitir lærðum hugtökum af íþrótt. (Textinn er þó ekki laus
við óþarfa endurtekningar, sbr. bls. 90/99 og 115/119). Að sumu leyti kann
stíllinn að hafa aukið þýðendunum þremur vandann; í stað þess að þýða
orðrétt hafa þeir á ýmsum stöðum ekki komist hjá því að „leysa“ hugtök
upp með umorðun. Oft hefur hér tekist vel til, en stundum miður; t.d. út-
leggst „… irrepressible process of ‘intellectualization’ and ‘rationalization’“
(Iggers 1997, bls. 40) sem „… ‘óstöðvandi framsókn til ‘meðvitaðrar hugs-
unar’ og ‘skynsemi’“ (bls. 53). Sú staðreynd að þrír einstaklingar lögðu
hönd að þýðingunni kann að eiga þátt í því að dæmi finnast um ósamræmi
í þýðingu hugtaka. Á bls. 14 ræðir um „tímann sem einþráða (unilinear)“ en
á bls. 68 er talað í svipaðri merkingu um „línulega, marksækna sögu“. Á
bls. 57 er „historical demography“ þýtt sem „söguleg lýðfræði“, en á öðr-
um stöðum í ritinu (bls. 70, 73, 91 og víðar) sem „söguleg fólksfjöldafræði“.
Atriðisorðaskrá birtir aðeins síðarnefnda heitið.
Um heppilegustu þýðingu einstakra hugtaka og heita má lengi deila.
Sjálfum hefði mér fundist ástæða til að þýða titil bókarinnar „Histori-
ography in the Twentieth Century“ bókstaflega sem „Sagnritun á tuttug-
ustu öld“; með því að nota í staðinn „sagnfræði“ er gefið í skyn að það sé
samheiti við „sagnritun“, en svo er vitaskuld ekki. Ég tala hér vísvitandi
um „sagnritun“, en ekki „sagnaritun“ eins og þýðendur hafa kosið að gera.
Á sínum tíma færði ég rök að því (sjá ritdóm minn, „Upplýsing og saga,“
Saga XXII (1984), bls. 347) að eðlilegast væri að nota „sagnritun“ yfir
„historiography“ enda löngu fast í málinu að tala um „sagnfræðinga“ frem-
ur en „sagnaritara“ (eða „sagnafræðinga“).
Eins má velta fyrir sér hversu heppilegar séu þýðingar í ritinu á ólíkum
tegundum sagnritunar. Þýðendur hafa tekið þann kost að þýða „macro-
history“ með „heildarsaga“ en „micro-history“ með „einsaga“. Hefði ekki
„eindarsaga“ verið heppilegra andheiti í þessu samhengi?
R I T D Ó M A R 241
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:11 Page 241