Ritmennt - 01.01.1997, Side 138
EINAR SIGURÐSSON
RITMENNT
inn, og þegar hún er útseld verður ágóðinn nettó þrjú þúsund
krónur, en það má náttúrlega búast við að þurfa að bíða tvö, þrjú
ár, en það liggja þó altaf peningar í bókinni.
Þessi saga sem ég er að skrifa núna er alt öðru vísi. Ég ætla að
tileinka hana minningu föður míns.
Ég hugsa svo fjarslcalega oft um pabba heitinn, og mér finnst
ég finna það nú bezt, þegar hann er fallinn frá, hvað hann var
mikill og góður maður og hvað ég á honum mikið að þalclca. Því
altaf var það hann sem hvatti mig áfram og vakti altaf hjá mér
fallegar og göfugar hugsanir.
Ég man eftir því í vor meðan hann lá banaleguna, að ég gekk
stundum upp í Öskjuhlíð og sat þar og óskaði svo heitt og inni-
lega af öllu mínu hjarta að hann fengi að lifa og verða hraustur
og heilbrigður á ný, til þess að vera mér og okkur til góðs áfram.
Og svo þegar ég frétti að hann væri dáinn, þá var eins og ég
væri sleginn eldingu, en ég passaði mig að segja eltki neitt, og
láta ekkert á mér sjá.
Ég var reyndar altaf hálft í hvoru við því búinn að ég rnundi
heyra látið hans, frá því ég frétti að hann lagðist, því ég vissi altaf
hvað hann var veill.
Og ég hugsaði um það eftir að hann var dáinn, hvað það væri
heimslculegt að sýta og gráta og í alla staði skammarlegt. Því ég
var svo hjartans sannfærður um það að honum lfði vel og hann
héldi áfram að elska okkur, þó að hann væri ekki lengur í líkam-
anum.
Ég fann strax að það að syrgja og gráta var ekki gert vegna
hans, ég mundi ekki gráta yfir því að hann <hefði> hent nein
ógæfa, heldur yfir mínu eigin böli að hafa mist hann.
Og þá fann ég að það að syrgja, var ekkert annað en sjálfselska
og grátur yfir eigin óhamingju. Því að ég var svo hjartans sann-
færður um að honum liði vel. Og var ekki frekar að gleðjast yfir
því en að gráta?
Þess vegna gat ég ómögulega verið dapur þegar hann var jarð-
aður því það var bara líkami hans sem jarðaður var, en ekki hann
sjálfur. Góðmennskan, vináttan, og alt þetta fallega sem hafði
verið í fari hans, meðan hann var hjá okkur, var horfið, göfuga
sálin hans var komin inn á æðri brautir, og líkami hans var ekki
meira virði en klæðin hans.
132