Andvari - 01.01.2010, Page 39
ANDVARI
BJÖRN ÓLAFSSON
37
tveir voru sýknaðir, enda viðurkenndi Hæstiréttur, að fyrirtækið hefði
fylgt fastri venju til margra áratuga um verðlagninguna.90
Verksmiðjan Vífilfell bar höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki
Björns Olafssonar. Árið 1962 var þar enn bætt við nýjum vélum, og
var afkastagetan eftir það 58 þúsund flöskur á dag. Á aldarfjórðungs-
afmæli verksmiðjunnar sumarið 1967 hafði samtals verið fyllt þar
á 146.605.584 flöskur.91 Á meðan Björn Ólafsson gegndi trúnaðar-
störfum heima og erlendis, annaðist hálfbróðir hans, Guðmundur Elís-
son, rekstur verksmiðjunnar, en hann lést 1963. Sonur Björns, Pétur, hóf
störf í fyrirtækinu 1956 og varð forstjóri 1970. Hélt kók hlut sínum og
vel það undir stjórn Péturs, um 70% af gosdrykkjamarkaðnum. Nýtt
hús var reist fyrir verksmiðjuna við Stuðlaháls 1974, skömmu áður en
Björn Ólafsson lést, og fluttist skrifstofa fyrirtækisins einnig þangað
upp eftir úr Haga 1992. Um það leyti gat verksmiðjan framleitt 24
þúsund litlar kókflöskur á klukkutíma og aðrar 24 þúsund dósir auk
annarra stærða92 Hið gamla verksmiðju- og skrifstofuhús, Hagi, var
2.058 fermetrar að stærð, en auk þess átti Vífilfell nýtt hús skammt frá,
við Neshaga 16, sem var 941 fermetrar að stærð, og var hluti þess lengi
leigður Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna undir bókasafn. Bæði húsin
voru síðan seld Háskóla íslands. Fyrirtækin Verksmiðjan Vífilfell hf. og
Þórður Sveinsson & Co. voru sameinuð móðurfélaginu Birni Ólafssyni
hf. 1994, en nafn hins sameinaða félags var Vífilfell hf.93
7.
Mikil þensla varð á vinnumarkaði eftir hernám Breta og síðar hervernd
Bandaríkjamanna, sem skilaði sér út í almennt verðlag. Þjóðstjórnin
reyndi því með ýmsum aðgerðum að halda launahækkunum í skefjum,
en í mótmælaskyni við það hætti Alþýðuflokkurinn þátttöku í stjórn-
inni í janúar 1942, og sátu eftir tveir framsóknarmenn og tveir sjálf-
stæðismenn. Vorið 1942 sprakk sú stjórn, þegar framsóknarmenn töldu
Olaf Thors, formann Sjálfstæðisflokksins, rjúfa fyrirheit um að breyta
ekki kjördæmaskipan, sem þótti orðin úrelt. Ólafur myndaði minni-
hlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, sem naut stuðnings Alþýðuflokks
og Sósíalistaflokks til að breyta kjördæmaskipaninni, og sátu þar
með honum þeir Jakob Möller og dr. Magnús Jónsson prófessor. Hóf
stjórnin einnig undirbúning að sambandsslitum við Dani strax þetta