Andvari - 01.01.2010, Side 75
ANDVARI
AÐKOMUMAÐUR í ÍSLANDSSÖGUNNI
73
Jörundur og valdatíð hans á Islandi
Jörundur fæddist árið 1780. Hann komst ungur að árum í siglingar á bresk-
um kaupskipum og öðlaðist þar verðmæta siglingareynslu og sigldi m.a. alla
leið til Ástralíu. Jörundur dvaldi í Kaupmannahöfn þegar Bretar gerðu árás á
borgina í september 1807 og í kjölfarið var hann gerður að skipherra á danska
víkingaskipinu Admiral Juul. Hann var tekinn höndum af Bretum í mars 1808
og var þá fluttur til London þar sem hann komst í kynni við enska kaupmann-
inn Samuel Phelps. Phelps hugðist sigla til íslands með viðskipti í huga og réð
Jörund sem túlk í ferðinni. Þeir komu til landsins í júní 1809 (Jörundur hafði
áður komið til landsins í janúar sama ár). Stiftamtmaður, Trampe greifi, bann-
aði íslendingum hins vegar að versla við Phelps svo Phelps ákvað að handtaka
Trampe og lét Jörund um að stjórna landinu í staðinn. Jörundur reyndist vera
afar áhugasamur stjórnandi og vildi ná fram ýmsum umbótum í landsmálum
og lýsti því meðal annars yfir að ísland væri „laust og liðugt frá Danmerkur
ríkisráðum.“ Jörundur skipaði nýja embættismenn, náðaði fanga, réð menn í
lífvarðasveit sína, lét gera virki við höfnina, reið norður í land til að kanna
fylgi sitt og dró upp nýjan fána fyrir landið.12 Eftir nokkurra vikna valdatíð
kom enskur skipherra til landsins sem furðaði sig á þessu uppátæki Jörundar
og Phelps, sem var í engu samkvæmt boðum breskra yfirvalda, handtók þá og
endurreisti stjórn Danakonungs.13 Jörundur átti síðar ævintýralegan feril sem
njósnari, landkönnuður, afbrotamaður, fangi og lögregluþjónn og bjó lengst af
á Tasmaníu þar sem hann lést árið 1841.
Samtímaheimildir sumarið 1809
Strax og atburðirnir sumarið 1809 áttu sér stað var ljóst að menn höfðu mis-
jafnar skoðanir á Jörundi og aðgerðum hans, enda kom valdatakan eins og
þruma úr heiðskíru lofti og menn voru ekki vissir hvort Jörundur væri einn
á ferð eða hvort hann hefði stuðning breskra stjórnvalda. Þessi óvissa um
stöðu Jörundar sést ef til vill einna best á því hvað honum gekk illa að fá
Islendinga til að taka að sér embætti í hinu nýja stjórnkerfi landsins enda ótt-
uðust menn viðbrögð danskra stjórnvalda ef allt færi á versta veg.14 Jörundur
kemur við sögu í ýmsum samtímaheimildum frá sumrinu 1809, til dæmis í
ítarlegri ritgerð sem Gunnlaugur Briem sýslumaður skrifaði í lok júlí 1809,
en Gunnlaugur ákvað að segja af sér frekar en að styðja Jörund og rökstyður
hann það ítarlega í ritgerðinni, þar sem hann talar um „hinn afar kynlega
herra Jörgen Jörgensen“ og telur það ósiðlegt, óviturlegt og ósæmilegt að
taka að sér starf sem stríddi gegn vilja Danakonungs.15 Þá er í handritadeild
Landsbókasafns varðveitt dagbók Gunnars Gunnarssonar biskupssveins frá