Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 115
ANDVARI
DRAUMSILKI DEGINUM FEGRA
113
*
Hér að framan lýsti ég efasemdum um greiningu Matthíasar Viðars Sæmunds-
sonar á atriði sem varðar miklu um skilning á ljóðum Jóhanns Sigurjónssonar.
Hann kvaðst vilja skoða þróun skáldskapar hans í samhengi við breytta lífs-
skoðun Jóhanns og „hugmyndaleg einkenni“ þess módernisma sem hann hafi
aðhyllst. En hvaða módernisma aðhylltist Jóhann? Það skiptir meginmáli, og
niðurstaða mín er sú að kynni Jóhanns af symbólisma fremur en hugmynda-
fræðileg sinnaskipti séu undirrót þeirra miklu breytinga sem skáldskapur
hans tók á síðari hluta fyrsta áratugar aldarinnar.
Þegar rætt hefur verið um módernisma í ljóðagerð hér á landi hefur athygli
manna beinst mjög að tveimur stefnum: expressjónisma og súrrealisma. Það
gegnir nokkurri furðu því fullyrða má að hér sem annarstaðar í Evrópu voru
áhrif symbólismans mun meiri, bæði fyrr á ferð og afdrifaríkari. Að ein-
hverju leyti stafar þetta af óhóflega þröngri skilgreiningu á módernisma,42 en
einnig er orsökin að líkindum sú að symbólisminn var mjög fjarri því að vera
einsleit stefna. Franskur fræðimaður hefur líkt henni við dreka einn sem frá
segir í skáldsögu eftir Anatole France. Margir þóttust hafa séð hann en eng-
inn treysti sér til að lýsa honum.43 Þá er sjálft heitið óljóst og jafnvel villandi,
og þýðingin táknsœisstefna enn frekar. Tákn eru að vísu algeng í skáldskap
symbólista en þau eru ekki það sem úrslitum ræður. Höfuðeinkenni symból-
ismans felst í breyttri afstöðu til ,raunheimsins‘, enda spratt stefnan í upphafi
af andófi við raunsæislegar lýsingar á ytri veruleika. Verkefni skálda verður
ekki einkum að lýsa eða endurskapa veruleika sem áður var til heldur að
skapa nýjan veruleika og vekja hughrif. Áhersla er lögð á hljómræn og mynd-
ræn skynhrif og blöndun skynhrifa og á þann galdur sem með tungumálinu
má fremja. Annars er ekki staður hér til að fjalla rækilega um stefnuna sem
upprunnin var í Frakklandi á seinnihluta nítjándu aldar og breiddist út um
Evrópu og Ameríku, en óhætt er að segja að til hennar má rekja afar margt í
ljóðlist tuttugustu aldar.
Þetta yfirlit er ekki hugsað sem heildarúttekt á ljóðagerð Jóhanns Sigur-
jónssonar og kvæðin átta sem ég hef einkum staldrað við eru ekki einu kvæði
hans sem vert er að skoða; markmiðið var einungis að fjalla um þau Ijóð
hans sem mestu máli skipta fyrir sögu íslenskrar ljóðlistar og að sýna fram á
í hverju hið nýja í skáldskap hans væri fólgið. Ég ætla að leyfa mér að lokum
að bæta við nokkrum fullyrðingum. Jóhann Sigurjónsson var einhver mesti
völundur íslenskrar skáldskaparsögu. Hann veitti mörgu af því besta í symból-
ismanum inn í Ijóðagerð okkar og sjaldan hefur betur verið ort á íslensku en
í ljóðum hans „Heimþrá“, „Odysseifur hinn nýi“ og „Bikarinn“, sem prentuð
voru í Skírni 1910. Ásamt með „Sorg“ eru þau fyrstu nútímaljóðin sem ort
voru á íslensku. Staðhæfingin verður að standa án rökstuðnings því skýlaus
og óumdeilanleg skilgreining á fyrirbærinu nútímaljóð er tálsýn. Yfirleitt