Andvari - 01.01.2010, Page 122
120
ÞÓRA SIGRÍÐUR INGÓLFSDÓTTIR
ANDVARI
Sögumaður er tvískiptur. Aðalpersónan Páll Jónsson kemur fram hvort
tveggja í senn sem ungur og eldri, ungur í sögutímanum, eldri sögumaður sem
skrifar í endurliti. Páll Jónsson yngri er afskaplega ómótaður og blindur á
hvers konar undirferli og baktjaldamakk lungann úr sögutímanum en sögu-
maður, Páll eldri, bætir það upp með því að benda á ýmislegt sem Páli
yngra er hulið. Þannig tekst orðræða sakleysingjans á við stílfærslu róandi
lífsreynslutóns sögumanns, gróf og óhefluð orðræða vegst á við hógværa og
vandaða, í stuttu máli varpar tungumálið markvissu ljósi á aðalpersónur og
aukapersónur, og samskipti þeirra á milli varpa skýrara ljósi á aðalpersónuna
og víkka hana.
Persónusköpun í þríleiknum er afar litrík og margslungin og komið er
við víða í þjóðfélagsstiganum. Persónur bókarinnar gegna flestar eða allar
ákveðnu hlutverki, þær lýsa sjónarmiðum ólíkum Páls og upplýsa lesandann
jafnframt um ýmislegt sem Páll yngri áttar sig ekki á. Samankomnar skapa
þær margbreytilega en þó heildstæða mynd sem knýr söguna áfram. Höfundur
notar skop eða íróníu til að lyfta sögunni upp og halda lesandanum við efnið.
Þetta eru gildir þættir í verkinu sem koma meðal annars fram í þeirri tvíræðu
notkun talmáls sem fyrr er nefnt.
II
Ólafur Jóhann hefur almennt verið talinn alvarlegur höfundur með þungan
undirtón en síður verið lögð áhersla á glettni hans né bent á hvernig hann
stingur upp kollinum sem kímniskáld á tímum stjórnmálalegra og samfélags-
legra átaka. Hér er þó ekki ætlunin að ræða þríleikinn fyrst og fremst út frá
stjórnmálum eða sögu tímabilsins heldur að fjalla um sagnabálkinn með hlið-
sjón af verki úr ólíklegustu átt, sögunni af spýtusnáðanum Gosa, sem flestum
er kunnur í einni eða annarri mynd.
Ólafur Jóhann svaraði í viðtali í jólablaði Samvinnunnar árið 1978 þegar
Valgeir Sigurðsson spurði höfundinn um þær bækur sem höfðu hvað mest
áhrif á hann:
Fyrsta lestrarefni mitt á eftir stafrófskveri voru þrjár bækur: Barnasögur og Daglæti
eftir Hallgrím Jónsson rithöfund og skólastjóra og Gosi í þýðingu hans. Ég vil taka
það fram að ýmsar þýðingar á Gosa, þessari snilldarlegu barnasögu eru að mínum
dómi eins og hismi og vatnsbland hjá þýðingu Hallgríms [...] Þessar bækur las ég
margsinnis, en Gosa þó oftast og tel ég mig hafa dregið af honum nokkurn lærdóm um
gervimennsku ýmiskonar.
Á þetta minnist höfundur aðeins í þessu eina viðtali þótt hann sé þráspurður
sömu spurningar eftir þetta. Sú þýðing á Pinocchio eða Gosa sem höfundur
nefnir er gerð úr ensku og segir í formála að Steingrímur Arason kennari