Bændablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | fimmtudagur 15. mars 2012 Velferð búfjár í lífrænum og hefðbundnum landbúnaði Neytendur rökstyðja val á lífræn- um afurðum einkum á þrennan hátt. Í fyrsta lagi telja þeir sig vera að vernda eigin heilsu með því að velja lífrænar afurðir þar sem strangari reglur gilda um notkun ýmissa aðfanga í lífrænum land- búnaði, enda þótt fagleg rök liggi ekki alltaf þar að baki. Í öðru lagi telja neytendur lífrænna afurða sig vera að stuðla að betri umgengni við umhverfið. Þetta er að stórum hluta byggt á misskilningi þar sem umhverfisáhrif lífrænnar framleiðslu eru í flestum tilfellum mun meiri á framleidda einingu en í hefðbundnum landbúnaði. Í þriðja lagi telja neytendur sig vera að velja afurðir dýra sem hafi notið betra atlætis. En er það svo í raun? Aðbúnaður Abúnaður og meðferð dýra er mjög breytileg, bæði milli landa og innan landa. Opinberar reglur um hefð- bundið búfjárhald eru einnig breyti- legar milli landa. Það sama gildir um lífræna búfjárrækt en staðlarnir eru settir af Túni, sem er faggild eftir- lits- og vottunarstofa fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu. Á Íslandi eru opinberar aðbúnaðarreglugerðir, sem taka mið af reglum í nágrannalönd- unum, fyrir hverja búgrein. Miklar viðhorfsbreytingar hafa orðið í sam- félaginu varðandi aðbúnað og velferð dýra og kallar það á tíða endurskoðun reglugerða. Krafa íslensks samfélags líkt og alls staðar annars staðar er um stöðugt lægra matvælaverð og hefur það leitt til stærri framleiðslueininga. Þessi þróun hefur gengið hraðast og lengst í alifugla- og svínarækt, þar sem nær öll framleiðslan er komin á hendur örfárra fyrirtækja. Enn er að mestu hægt að tala um fjölskyldubú í nautgripa- og sauðfjárrækt enda þótt búum hafi fækkað og þau stækkað síðustu áratugi. Matvælastofnun veitir búum í alifugla-, svína- og nautgriparækt starfsleyfi að undangenginni úttekt. Um sauðfjárbúskap gilda aðrar regl- ur. Þar er um opinbera gæðastýringu að ræða sem Bændasamtök Íslands, Matvælastofnun og Landgræðslan hafa eftirlit með og aðeins að upp- fylltum skilyrðum gæðastýringar fá bændur fullan opinberan stuðning. Mikill munur er á reglum Túns um lífræna framleiðslu og opinberum aðbúnaðarreglugerðum eftir dýrateg- undum. Reglur Túns um alifugla- og svínarækt eru t.d. þess eðlis að hægt er að færa rök fyrir því að ógerlegt sé að stunda lífræna framleiðslu í þessum greinum hérlendis. Ákvæði um útivist er sérstaklega erfitt að uppfylla, ekki bara vegna veður- farslegra þátta heldur einnig vegna aukins smitálags eins og Salmonella og Campylobacter en óheimilt er að setja á markað afurðir mengaðar af þessum bakteríum. Minni munur er á aðbúnaðarreglum fyrir nautgripi og sauðfé og í raun er þessi munur nánast enginn þegar tekið er tillit til rúmra ákvæða um undanþágur í reglum um lífræna framleiðslu. Fóðrun og meðferð Fleiri þættir hafa áhrif á velferð dýra en aðbúnaðurinn. Þar vega fóðrun og meðferð við sjúkdómum þungt. Ræktun búfjár á Íslandi líkt og annars staðar hefur miðað að því að auka afköst gripanna hvort sem það eru fleiri egg, aukin nyt eða meira kjöt. En erfðaframfarir kalla á bætta fóðrun. Að öðrum kosti gengur skepnan á eigin forða og þegar hann er uppurinn taka veikindi við. Þarna er búfé ólíkt bensínhreyflinum sem afkastar í samræmi við bensíngjöf. Í reglum um lífræna framleiðslu eru ákvæði um veikari fóðrun en getur talist viðunandi miðað við þarfir kynbættra gripa. Búfé á Íslandi er erfðfræðilega einsleitt og því ekki raunhæft að hægt sé að velja kyn eða stofna sem hæfa þessu ákvæði. Hætta er á að ákvæðið leiði til vanfóðrunar. Heilbrigði Í reglum Túns um heilbrigði búfjár segir að „varðveita eigi heilbrigði með fagmannlegri búfjárrækt og fyrirbyggjandi aðgerðum í stað þess að treysta hefðbundnum dýralækn- ingum“. Þrátt fyrir þetta ákvæði er ekki gert að skilyrði að þeir sem stunda lífræna framleiðslu hafi búfræðimenntun að baki. Í áratugi hafa dýralæknar lagt áherslu á fyrir- byggjandi aðgerðir og því kemur tor- tryggni í garð dýralækna í reglum Túns á óvart. Þegar kemur að með- ferð sjúkra dýra er gert ráð fyrir því að fyrst sé byrjað að gefa náttúruleg lyf, smáskammtalyf eða bætiefni. Ef það dugar ekki má nota tilbúin „gagnvirkandi“ lyf eða sýklalyf. Þetta ákvæði um að byrja á því að nota náttúruleg lyf hefur oft í för með sér auknar þjáningar fyrir skepnurnar og lækning verður jafnan erfiðari því seinna sem byrjað er að meðhöndla með viðurkenndum lyfjum. Dýr undir framleiðsluálagi þurfa skjóta og markvissa meðhöndlun dýralækn- is ef ekki á að fara á mis við reglur um dýravernd. Spurt var í upphafi greinarinnar hvort búfé í lífrænni framleiðslu nyti betra atlætis. Því miður er svarið neitandi. Þessi niðurstaða kallar á endurskoðun reglna Túns um lífræna framleiðsluhætti. Grétar Hrafn Harðarson, Landbúnaðarháskóla Íslands Abúnaður og meðferð dýra eru mjög breytileg, bæði milli landa og innan landa. Opinberar reglur um hefðbundið búfjárhald eru einnig breytilegar milli landa. Það sama gildir um lífræna búfjárrækt en staðlarnir eru settir af Túni, sem er faggild eftirlits- og vottunarstofa fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu. Vegleg ráðstefna haldin um Kvískerjasjóð á Smyrlabjörgum í Suðursveit: Drifkraftur rannsókna í Austur-Skaftafellssýslu Í gær, miðvikudaginn 14. mars, var haldin mikil ráðstefna um Kvískerjasjóð á Smyrlabjörgum í Suðursveit. Þar voru kynntar niðurstöður allmargra verkefna sem Kvískerjasjóður hefur styrkt í gegnum tíðina. Voru m.a. flutt níu athyglisverð erindi af ólíkum toga sem öll fjölluðu þó um viðburði, rannsóknir og verkefni sem tengd eru Austur-Skaftafellssýslu á einn eða annan hátt. Kvískerjasjóður var stofnaður 15. janúar 2003 af Umhverfisráðuneytinu, til heiðurs Kvískerjasystkinum fyrir framlag þeirra til þekkingaröflunar og rannsókna á náttúru og sögu Austur-Skaftafellssýslu. Systkinin á Kvískerjum voru og eru einstök í sinni röð. Á fræðasviðinu urðu þau sín eigin „akademía“, svo að annálað þykir. Björg Erlingsdóttir hjá Menn- ingarmiðstöð Hornafjarðar segir að stofnun og tilurð þessa sjóðs hafi án efa leitt til rannsókna og dregið að vísindamenn sem að öðrum kosti hefði ekki verið sjálfgefið. Kvísker voru með afskekktari bæjum á landinu, en með bættum samgöngum og fjarskiptum hefur sú einangrun verið rofin. Kvískerjasjóði er ætlað að stuðla að því að framhald verði á því umfangsmikla fræða- og rannsóknastarfi sem stundað hefur verið á Kvískerjum undanfarna áratugi, eins og segir á heimasíðu sjóðsins, www.kviskerjasjodur.is. „Kvískerjasjóður hefur skipt máli“ Sigurlaug Gissurardóttir á Brunnhóli hefur verið formaður stjórnar Kvískerjasjóðs frá stofnun hans 2003. Hún segir athyglisvert hvað líf heimilisfólksins á Kvískerjum hafi snúist mikið um vísindalega hugsun, sem síðan hafi smitað út frá sér. Þarna hafi því verið stórmerkilegt heimili. Það hafi án efa ekki bara verið bræðurnir á Kvískerjum, sem oftast sé vitnað til, sem hafi þar átt hlut að máli, heldur ekki síður systur þeirra og móðir sem hafi stutt þá dyggilega til góðra verka. Að sögn Sigurlaugar fékk sjóð- urinn í upphafi 25 milljónir króna í stofnfé. Síðan hafi alltaf verið ein- hver framlög frá ríkinu en mismikil þó. Aftur á móti hafi verið passað upp á að ávaxta stofnsjóðinn þannig að verðgildi hans héldist og gott betur en það. Í styrki hefur því einungis verið veitt vöxtum, ásamt fjárveit- ingum og gjafafé sem til sjóðsins hefur runnið. „Sjóðurinn hefur án efa skipt miklu máli og ýtt undir rannsóknir á þessu svæði. Þeir sem þarna hafa unnið að rannsóknum hafa einnig átt kost á viðbótarfjármagni, sem er skilyrt því að rannsóknirnar séu unnar á svæðinu. Því hafa styrkþegar trúlega frekar miðað sínar rannsóknir við svæðið sjálft en þeir hefðu annars gert. Inn á milli hafa síðan flotið minni verkefni sem innt hafa verið af hendi af heimamönnum, eins og við skráningu á gömlum munum og fleira.“ Sigurlaug segir að það sé svo heimamanna að hagnýta sér þann aragrúa upplýsinga sem fást úr rann- sóknum með tilstyrk Kvískerjasjóðs. Þær mætti t.d. nýta til að efla fræða- tengda ferðaþjónustu. Fjöldi athyglisverðra erinda Svandís Svavarsdóttir umhverf- isráðherra setti ráðstefnuna, sem hófst klukkan 10 að morgni en að setningu lokinni flutti Hrafnhildur Hannesdóttir erindi undir yfir- skriftinni „Tengsl loftslags og jökulbreytinga á SA-Vatnajökul“. Þá flutti Bjarni Diðrik Sigurðsson erindi um fjallaplöntur, jökulsker og loftslag. Landnám smádýra í jökul- skerjum var umfjöllunarefni erindis Maríu Ingimarsdóttur. Síðan fjallaði Hálfdán Ágústsson um staðbundin óveður í Kvískerjum. Eftir matarhlé var komið að Bergi Einarssyni sem flutti erindi um jökul- hlaup úr Skaftárkötlum. Þar á eftir var komið að mjög athyglisverðri umfjöllun Ármanns Höskuldssonar, sem á uppruna að rekja á þessar slóð- ir. Fjallaði erindi hans um eldgos í Öræfajökli árið 1362. Landslag undir jöklum í Öræfum var síðan umfjöll- unarefni Helga Björnssonar. Jöklar hafa verið að hopa á liðnum áratug- um og hafa menn þá getað fylgst með þróun gróðurs á nýju landi. Um þetta fjölluðu þær Kristín Svavarsdóttir og Þóra Ellen Þórhallsdóttir í erindi sem þær nefndu „Gróðurframvinda við hörfandi jökla“. Lokaerindið á ráðstefnunni var síðan erindi Gísla Sverris Árnasonar og Sigurbjörns Kjartanssonar undir heitinu „Eyðibýlið“. Ráðstefnunni lauk svo með pallborðsumræðum. /HKr. Kvísker. Mynd / Björn Gísli Arnarson.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.