Bændablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 18
18 Bændablaðið | fimmtudagur 15. mars 2012 Veruleg aukning í aðsókn Íslendinga að mjólkurfræðinámi síðustu ár: Mjólkurfræðikennari framleiddi eiturlyf – Heiða hjálpar íslenskum nemum, sem sagðir eru harðduglegir Á dögunum útskrifuðust þrír ungir Íslendingar sem mjólkurfræðingar frá Kold College í Óðinsvéum í Danmörku. Þar með bætast þeir í hóp 158 Íslendinga sem útskrifast hafa sem mjólkurfræðingar frá skólanum frá því á fjórða áratug síðustu aldar. Kold, sem áður hét Dalum Landbrugs- og Mejeriskole og síðar Dalum Tekniske Skole, er eini skólinn á Norðurlöndunum sem menntar mjólkurfræðinga og frá því á níunda áratugnum hafa allir íslenskir mjólkurfræðingar numið við skólann. Við skólann kennir íslenski mjólk- urtæknifræðingurinn Aðalheiður Lilja Úlfarsdóttir, en í daglegu tali er hún aldrei kölluð annað en Heiða. Heiða er Íslendingunum sem sótt hafa nám í Óðinsvéum að góðu kunn en hún hefur veitt þeim góðan stuðning við námið. Strandaði á Selfossi Heiða segir að upphaf þess að hún hóf störf við mjólkurvinnslu sé nokkuð skondið. „Ég fór sem sagt á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 1999 og komst eiginlega ekki lengra til baka heldur en á Selfoss. Ég flutti þangað og hóf störf við mjólkurbúið. Eftir þriggja mánaða vinnu var mér boðinn samningur um mjólkurfræðinám. Ég kláraði mitt verknám hér heima og fór svo til náms í Danmörku árið 2002 en ég hafði farið í barneignar- leyfi í millitíðinni. Þá hóf ég nám við Dalum sem nú heitir Kold College.“ Framleiddi eiturlyf Heiða kláraði sitt nám sumarið 2004 en á þessum tíma var námið eilítið öðruvísi en er núna. Þá kláruðu nemar allt verknámið heima á Íslandi og tóku svo bóklega hlutann í einni lotu. „Reyndar var það svo, eins og er nú, að þar fyrir utan byrjuðu nemar á þriggja mánaða verknámi á dönsku mjólkurbúi. Ég gerði það hins vegar ekki heldur fékk undanþágu, vegna þess að ég átti ungbarn á þessum tíma. Ég kláraði sem sagt sumarið 2004 og fór þá beint í barneignarfrí aftur. Síðan byrjaði ég í mjólkurtæknifræði í sama skóla árið 2006 og kláraði það nám 2008. Að náminu loknu fékk ég vinnu hjá ríkisreknu lyfjafyrirtæki í Kaupmannahöfn. Þar starfaði ég á lokaðri eiturlyfjadeild þar sem var verið að framleiða amfetamín, heróín og allan fjandann. Þetta var mjög fróðlegt. Ætli það muni ekki rjúka upp aðsókn að mjólkurfræðinámi hjá aðilum úr undirheimunum eftir að þetta viðtal birtist! Þegar nemendur mínir spyrja mig hvað ég hafi starfað við eftir námið, þá kemur gjarnan athyglisverður svipur á þá þegar ég segi frá því að ég hafi ekki unnið á mjólkurbúi heldur við framleiðslu eiturlyfja.“ Ráðin nánast fyrir tilviljun Heiða var sem sagt búin að koma sér vel fyrir í Kaupmannahöfn, vann við að framleiða eiturlyf og var hin rólegasta í tíðinni. En skjótt skipast veður í lofti. „Það vildi svo til að einn fyrr- verandi kennarinn minn sendi mér póst þar sem hann sagði mér að verið væri að auglýsa eftir kennurum og spurði hvort ég hefði ekki hugsað mér að sækja um. Ég svaraði því til að ég væri reyndar nýflutt til Kaupmannahafnar en fór engu að síður í viðtal vegna starfsins. Ég hélt reyndar að það væri bara hefðbundið atvinnuviðtal en síðan kom á daginn að það hafði verið ráðningarviðtal. Ég var sem sagt ráðin frá 1. janúar 2009 og er því búin að vera við Kold í rúm þrjú ár núna.“ Hógværðin uppmáluð Heiða segir að á árunum áður en hún var ráðin hafi tiltölulega fáir Íslendingar verið við nám við skól- ann. Undanfarin þrjú ár hafi orðið mikil breyting þar á. Hún segir að það hafi mögulega spilað inn í þegar hún var ráðin að íslenskir nemar stunduðu nám við skólann, en það hafi ekki verið afgerandi þáttur. Námið fari allt fram á dönsku. Hins vegar hafi hún reynt að liðsinna Íslendingunum sem hafa komið þarna út eftir megni. Blaðamaður hefur fyrir satt að Heiða sé nokkuð hógvær í frásögn sinni þar um, enda hafi hún verið íslenskum nemum síðustu ára við Kold til ómældrar aðstoðar. Mjólkurfræðingar eldast líka Líklegasta skýringin á fjölgun þeirra sem hefja nám við mjólkurfræði nú telur Heiða að sé aldur stéttarinnar. „Ég held að stærsta skýringin sé sú að stétt mjólkurfræðinga á Íslandi sé að eldast og því hafi samlögin heima verið að taka fleiri í verknám með það í huga að fylla í skörðin þegar mjólkurfræðingar komast á aldur. Það koma alls ekki allir til baka til starfa í mjókurbúin. Þetta nám býður upp á marga möguleika. Hér úti í Danmörku starfa ekki nema á milli 30 til 40 prósent mjólkurfræðinga við mjólkuriðnað að loknu námi. Hinir starfa hjá ýmsum fyrirtækjum, þeir geta í raun starfað hjá öllum fyrirtækjum sem blanda saman efnum eða matvælum. Það geta verið lyfjafyrirtæki, matvælafyrirtæki, safa- eða gosdrykkjagerðir auk ýmislegs annars.“ Alvöru verðmæti, ekki rafmagnspeningar Heiða vill líka meina að viðhorf til starfsins sé að breytast. Það hafi kannski ekki þótt mjög töff að segjast vera að læra mjólkurfræði þegar hún hóf nám á sínum tíma. „Ég var stundum spurð að því hvað ég gerði við þetta nám þegar ég sagði frá því að ég væri að læra mjólkurfræði, hvort ég væri að læra að mjólka kýr. Það voru nú ekki kýr heima hjá mömmu og pabba þannig að ég held ég hafi þrisvar á ævinni klappað kú! Þetta er líka mikil karlastétt og þar af leiðandi er aðeins erfiðara fyrir stelpur að koma inn í fagið, eins og gengur. Ég held hins vegar að önnur ástæða fyrir fjölgun Íslendinga í náminu sé sú að hugarfarið hafi breyst. Eftir efnahagshrunið jókst kannski virðing fyrir störfum af þessu tagi, þar sem verið er að vinna með og búa til handföst verðmæti en ekki bara einhverja rafmagnspeninga. Það er mun jákvæðara hugarfar gagnvart náminu en var og þetta er líka nám sem hægt er að nýta í svo margt. Ef fólk setur sér ekki hömlur sjálft eru möguleikarnir óteljandi. Fólk getur nýtt þessa menntun í svo margs konar framhaldi, hvort sem það er beint framhald í mjólkurtæknifræði eða mjólkurverkfræði eða eitthvað laustengdara eins og bruggmeistarar.“ Íslendingarnir sagðir ofsalega duglegir Heiða segir að í flestum tilfellum hafi þeir Íslendingar sem hafa verið við nám í Kold staðið sig mjög vel. „Í langflestum tilfellum hafa þessir krakkar verið að standa sig mjög vel. Þau búa að því að verknámið heima á Íslandi er mun öflugra en hér í Danmörku. Heima er nemunum kennt frá fyrsta degi að gera og vinna en það er mun minna um það hér úti. Íslensku nemarnir hafa það orð á sér að vera ofsalega duglegir og það er gaman að geta verið stolt af slíkum vitnisburði.“ /fr Mjólkur- fræðinám Námið er þriggja ára iðnnám, verklegt og bóklegt. Verklega námið fer fram í mjólkursamlögum hér á landi en bóklega námið í Kold College í Óðinsvéum í Danmörku. Nemar starfa einnig í þrjá mánuði í dönsku mjólkursamlagi, áður en þeir hefja bóknám, til að ná tökum á tungumálinu. Námið eru uppbyggt af fimm lotum sem eru frá fjórum vikum til fjórtán vikna. Námið er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna en vin- nuveitendur hér á landi greiða að mestu kostnað við ferðir og uppihald. Námið hentar öllum, konum og körlum, á hvaða aldri sem er. Hreykinn kennari. Heiða ásamt Stefáni við útskrift frá Kold. Stoltir mjólkurfræðingar. Félagarnir þrír sem útskrifuðust frá Kold College á dögunum. Frá vinstri: Gunnlaugur Lárusson, Stefán Lárusson og Sindri Rögnvaldsson. Hress í vinnunni. Heiða er hress og kát. Samkvæmt öruggum heimildum Bændablaðsins var hún ekki á neinum eiturlyfjum þegar þessi mynd var tekin.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.