Bændablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 14
Bændablaðið | fimmtudagur 15. mars 201214 Það hristu margir hausinn yfir Torfa Sigurðssyni og Helga Einarssyni þegar þeir stofnuðu fiskvinnsluna Fiskás ehf. og hóf- ust handa við að byggja glænýtt, veglegt hús undir fiskverkun við Suðurlandsveginn austast í þorpinu á Hellu árið 2010. Fyrir utan að yfirleitt enginn færi út í framkvæmdir mitt í kreppunni þá töldu flestir það algjörlega út úr korti að reisa fiskverkun á Hellu, sem á enga tengingu við sjó nema Rangána sem rennur þar í gegn til sjávar. Hvað þá að setja þar upp fiskbúð. Það var þó einmitt tengingin við Rangárnar og lax- og silungsveiði- bændur í ám beggja vegna við Hellu sem kveikti hugmynd þeirra félaga um að reisa fiskverkun. Þar hugðust þeir bjóða bændum og veiðimönnum upp á vinnslu á afla úr vötnum og ám, flökun, reykingu og pökkun og jafnvel markaðssetningu. Þó hug- myndin væri djörf og óvíst um við- skipti var þeim félögum tekið opnum örmum með þetta framtak. Smám saman fóru viðskiptin að blómstra í fiskvinnslunni, sem stendur við Dynskála 50, rétt austan við kjúk- lingabú Reykjagarðs. Tengingin við bændur er sterk í viðskiptum þeirra félaga, enda bændur oftar en ekki eigendur lax- og silungsveiðiáa á Suðurlandi auk þess sem fiskrækt- arbúskapur hefur á ný verið að færast í vöxt í sveitum landsins á undan- förnum árum. Að sögn Torfa hófst starfsemin í ágúst 2010. Félagarnir settu upp reykofn og hafa erlendir veiðimenn mikið sótt til þeirra með sinn lax- og silungsveiðiafla. Kaupa líka fisk af markaði „Síðan höfum við verið að selja þorsk, ýsu og fleiri tegundir til mötuneyta hér á staðnum en fiskinn kaupum við þá af markaði. Þá er fólk mjög ánægt með að geta komið hér í fiskbúð og keypt nýjan fisk. Hefur aðsóknin stöðugt verið að aukast og mikil aukning síðan í fyrra.“ Segir Torfi að staðsetningin rétt við þjóðveginn geti vart verið betri. Flutningabílar aki þar um hlaðið alla daga og oft með fisk sem ekið er á milli fiskmarkaða og vinnslustöðva um allt land. „Við erum mikið að þjónusta útlendinga og aðra sem eru að veiða hér í Eystri- og Ytri-Rangá. Við reykjum mikið fyrir þá og pökkum. Sumir koma með sinn fisk og taka unninn skiptifisk í staðinn en aðrir vilja bara fá sinn fisk unninn. Þá sendum við hann jafnvel á eftir veiði- mönnunum úr landi. Við reykjum líka ýsu og fleiri tegundir og hefur það reynst vinsælt.“ Torfi segir misjafnt hvernig gangi að fá fisk á mörkuðum á skaplegu verði. Þar sitji þeir við sama borð og aðrir, en verðið ráðist aðallega af gæftum hverju sinni. „Við kaupum mikið frá Ólafsvík en annars víða af landinu og fer verslunin öll fram í gegnum tölvu. Þá erum við sjálfir með 6 tonna trillu í Ólafsvík sem heitir María og róum þá sjálfir á sumrin. Það fer að vísu ekki allur fiskurinn af henni hingað til Hellu, því hluti fer á markað.“ Vinna fyrir fiskeldið „Við höfum líka verið að vinna fyrir fiskeldisstöðvar, einkum Íslenska matorku í Fellsmúla. Fyrir þá stöð höfum við verið að vinna bleikju en einnig svokallaðan hekluborra, sem heitir reyndar telapía. Stöðin ætlar reyndar sjálf að fara að kaupa hús hér á Hellu undir slíka vinnslu, þar sem ekki hentar að vera með reykofn í sama húsi og telapían er unnin, eins og er hjá okkur.“ Og Vestmannaeyingar kaupa líka fisk á Hellu Helgi segir að mikil ánægja sé með reykingu þeirra félaga. Það sé mikil kúnst að reykja fisk svo vel fari og alls ekki sama hvernig það sé gert. Útlendingarnir séu t.d. sérlega kröfu- harðir varðandi það að fiskurinn sé ekki ofreyktur. Létt og mátuleg reyking sé lykilatriði. „Við fórum einnig að bjóða þeim grafinn lax í fyrra og hafa þeir komist á bragðið og tekið mjög vel í það. Þá er mjög skemmtilegt að segja frá því að íbúar í einum mesta fisk- veiðibæ landsins, Vestmannaeyjum, koma mikið til okkar að kaupa fisk. Margir þeirra eiga sumarbústaði hér í nágrenninu og finnst þægilegt að eiga hér aðgang að góðum fiski. Þá er farið að aukast að fólk kaupi fisk til að grilla á sumrin. Við vonumst því eftir verulega auknum viðskiptum við Vestmannaeyinga ef Landeyjahöfn kemst almennilega í gagnið,“ segir Helgi Einarsson. /HKr. Bjartsýnir athafnamenn í hinum þekkta slátrarabæ Hellu létu úrtöluraddir ekki aftra sér í kreppunni: Settu upp fiskbúð og fiskvinnslu í hafnlausu þorpi lengst inn í landi Myndir / HKr.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.