Bændablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 36

Bændablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 36
36 Bændablaðið | fimmtudagur 15. mars 2012 Bændasamtök Íslands hafa skilað inn umsögn um tillögu til þings- ályktunar um fjögurra og tólf ára fjarskiptaáætlun stjórnvalda. Ég hef fjallað um helstu áherslur sem koma fram í þessum þýð- ingarmiklu áætlunum sem leggja grunninn fyrir uppbyggingu á fjarskiptum í þétt- og dreifbýli. Meginumsögn samtakanna er svo- hljóðandi: Bændasamtök Íslands fagna fram- lagningu fjarskiptaáætlana til fjög- urra ára og tólf ára. Þær eru afar mikilvægar varðandi stefnumótun fyrir fjarskipti í dreifbýli. Fjarskipti, netsamband, sjónvarpssamband og útvarpssamband eru mjög mikilvæg fyrir nútíma samfélag í sveitum. Bændasamtök Íslands telja mikil- vægt að dreifbýli og sveitir fái notið sömu uppbyggingar á fjarskiptakerf- um og þéttbýlið þannig að jafnræðis verði gætt. Bændasamtökin hafa áhyggjur af svæðum sem skilgreind voru sem markaðssvæði í tengslum við háhraðaverkefni Fjarskiptasjóðs og leggja áherslu á að fjallað verði um vandamál tengd þessum svæðum, hvað varðar háhraðatengingar, í nýrri fjarskiptaáætlun. Bændur reiða sig mikið á fjarskipti í störfum sínum sem og daglegu lífi og mikilvægt að unnið verði að og séð til þess að fjarskipti í dreifbýli uppfylli nútímakröfur. Uppbygging fjar- skipta í dreifbýli er nauðsynleg fyrir samkeppnishæfni landbún- aðar og Bændasamtök Íslands telja mikilvægt að stjórnvöld tryggi jafnt aðgengi íbúa í dreifbýli að upplýs- ingasamfélaginu. Fjarskiptaáætlun er afar mikilvægur þáttur í að tryggja að framangreindum markmiðum verði náð. Í tengslum við fjarskiptaáætlun fagna Bændasamtök Íslands nýjum lögum um Fjarskiptasjóð sem fram- lengja starfstíma hans í fimm ár, enda ljóst að stjórnvöld þurfa að koma að uppbyggingu á fjarskiptum þar sem er markaðsbrestur. Bændasamtökin gera síðan athugasemdir við einstaka liði í þingsályktunartillögunum en þær verða ekki raktar hér frekar. Allar umsagnir um fjarskiptaáætlunina má nálgast á vef Alþingis. Hugbúnaðarþróun í landbúnaði Hugbúnaðarþróun í landbúnaði kom til umræðu á Búnaðarþingi 2012 í tengslum við ályktun með sama heiti frá Landssamtökum sauðfjárbænda. Óhætt er að segja að tölvudeildin hafi sætt harkalegri gagnrýni frá ákveðn- um búnaðarþingsfulltrúum. Að gefnu tilefni finnst mér full ástæða til að halda eftirfarandi til haga. Bændasamtök Íslands hafa þurft að glíma við sársaukafullan niður- skurð á fjármunum frá hruninu 2008. Framlag til tölvudeildar hefur orðið fyrir mestum niðurskurði í starfsemi samtakanna, eða sem nemur um 45 af hundraði frá árinu 2008 miðað við rekstrarniðurstöðu ársins 2011. Það munar um minna. Fulltrúum á Búnaðarþingi ætti þetta að vera best kunnugt enda samþykkir Búnaðarþing reikninga og fjárhags- áætlun Bændasamtaka Íslands. Til að mæta miklum niðurskurði varð að ganga hratt til verks og taka erfiðar ákvarðanir. Strax á árinu 2009 var sett á yfirvinnubann, fjárfestingum í vél- og hugbúnaði var slegið á frest og samningar um kaup á þjónustu voru endurskoðaðir til að ná fram hagræðingu. Meira þurfti þó til að ná endum saman. Það var gert með því að afla tekna með nýjum verk- efnum. Einnig var sú ákvörðun tekin í tengslum við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2011 að taka upp árgjöld af vefforritunum HUPPU, FJARVIS. IS og Jörð.is. Tekjur af árgjöldum áttu að bæta upp að hluta niðurskurð á framlögum til hugbúnaðarþró- unar frá hruni. Ekki bætti úr skák að Fagráð í sauðfjárrækt synjaði styrkumsókn í apríl á síðasta ári um að standa straum af notendagjöldum í FJARVIS.IS, en fagráðið hefur veitt þennan styrk árlega í nokkur ár. Endanleg ákvörðun um útfærslu á árgjöldum náðist þó ekki fyrr en síðastliðið haust að höfðu samráði við ráðgjafarsvið og stjórnir LK og LS. Starfsmannabreytingar hafa síðan óneitanlega haft áhrif á þró- unarvinnuna. Undirrituðum finnst tölvudeildin hafa orðið fyrir ómak- legri gagnrýni á hugbúnaðarþróun í ljósi þess árangurs sem náðst hefur í að draga úr útgjöldum frá árinu 2008, eins og að var stefnt. Það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessum málum. Á fundum sem undirritaður og landsráðunautur í sauðfjárrækt áttu með notendum FJARVIS.IS kom fram almenn ánægja með forritið hjá notendum, þó vissulega kæmu fram óskir um nýjungar og endurbætur. Sömu sögu er að segja frá þeim sem sinna þjónustu við notendur. Engu að síður er brýnt að ráðast af krafti í nauðsynlega hugbúnaðarþróun eftir nokkur mögur ár. Þróunarfé hefur verið tryggt með árgjöldum, þróunarvinna er komin í fullan gang og hófst á síðasta ári. Vísa ég í umfjöllun í síðasta dálki mínum hér í Bændablaðinu um þróunarvinnu vegna nýrrar kynslóðar af hugbúnaði. Að síðustu fagna ég eftirfarandi ályktun Búnaðarþings 2012: Búnaðarþing leggur áherslu á að öll vefforrit Bændasamtakanna verði þróuð áfram í takt við kröfur notenda hverju sinni. Þróunarvinnan byggist á sam- vinnu ráðgjafarsviðs, tölvu- deildar og bænda um forgangs- röðun verkefna. Strax verði ráð- ist í nauðsynlegar uppfærslur á FJARVIS.IS í samráði við fagráð jafnhliða þróun á nýrri kynslóð af vefforriti fyrir sauðfjárbændur þar sem tekið verði mið af tækni- framförum í hug- og vélbúnaði, þ.m.t. spjaldtölvu- og snjall- símalausnum. Þá verði haldið áfram að þróa vefforrit fyrir lands- markaskrá, sem verði hluti af hug- búnaðarflóru Bændasamtakanna. Tryggt verði fjármagn til þess að Bændasamtökin geti áfram verið í fremstu röð í hugbúnaðargerð fyrir landbúnað. Mikilvægt að fjarskipti í dreifbýli uppfylli nútímakröfur sviðsstjóri tölvudeildar Bændasamtaka Íslands jbl@bondi.is Jón Baldur Lorange Upplýsingatækni og fjarskipti Lífrænir bændur og upplýsingar Í þessari grein er fjallað um upp- lýsingahegðun bænda sem stunda lífrænan búskap. Hugtakið upplýsingahegðun hefur verið skilgreint af Wilson (2000) sem öll samskipti eða hegðun í tengslum við upplýsingalindir, af hvaða tagi sem er. Savolainen (2007) skilgreinir upplýsingahegðun á sambærilegan hátt, þ.e. hvernig fólk þarfnast upp- lýsinga, leitar þeirra, stjórnar þeim, miðlar og notar þær við mismunandi aðstæður. Rannsóknin sem hér fer á eftir er eigindleg rannsókn og byggist á gögnum sem aflað var með viðtölum við níu bændur sem stunda lífrænan búskap á Íslandi. Rannsóknin var unnin í meistaranámi í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands 2009. Markmiðið með rannsókninni var að skoða upplýsingahegðun bændanna og var leitast við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: Hverjar eru upplýsingaþarfir bændanna? Með hvaða hætti afla bændurnir sér upplýsinga? Hvaða þættir tengjast upplýsinga- öflun bændanna? Hverjar eru upplýsingaþarfir bænda í lífrænum búskap? Áberandi er að bændurna vantar margskonar upplýsingar um lífrænan búskap og má þar nefna þekkingu á áburðargjöf, næringarefnabúskap, fræi, jarðvinnslu, yrkjum grænmetis, belgjurtum og fóðri. Varðandi ylræktina töluðu bænd- urnir um að þeir hefðu þörf fyrir aukna þekkingu. Einkum töldu þeir þörf á upplýsingum ræktunarlegs eðlis um yrki, lífrænar varnir og áburð en einnig tæknilegs eðlis um lýsingu. Í ljós kom að mikil þörf er fyrir það að efla upplýsingar og þjónustu frá landbúnaðarráðunauti. Einnig kom fram ósk um aðgang að bókasafni og lífrænni miðstöð þar sem upplýs- ingum væri miðlað til bænda. Sumir bændurnir töldu sig ekki geta nýtt sér ráðunautaþjónustuna nema að litlu leyti, vegna þess að hún er að mestu sniðin fyrir hefðbundinn búskap. Fram kom að rannsóknir og þekkingu skorti í lífrænum landbúnaði, enn- fremur sú skoðun að íslenska ráðu- nauta vanti í greininni og að bændur ættu að sækja sér erlenda ráðunauta til að bæta fyrir litla ráðunautaþjónustu hér á landi. Einnig kom fram að þörf er fyrir upplýsingar varðandi rekstur á búun- um og kalla bændur eftir hagfræði- legum leiðbeiningum í þeim efnum. Með hvaða hætti afla bændur í lífrænum búskap sér upplýsinga? Bændurnir hafa margar leiðir við upplýsingaöflun. Þeir telja upplýs- ingar sem þeir fá frá öðrum bændum skipta miklu máli. Mikið er hringt á milli bæja og þá í reyndari bændur og þeir spurðir ráða. Má þar sjá hliðstæðu við svokallaða hliðverði, sem Lu (2007) talar um og gegna mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga innan hópa. Viðkomandi aðilar gerast hliðverðir vegna félags- legrar stöðu sinnar, þeir hafa meiri upplýsingar en aðrir í hópnum (Lu 2007). Bændur þurfa að reka bú sín og má því líta á þá sem stjórnendur. Samkvæmt Alwis, Majid og Chaudry (2006) hafa helstu upplýsingalindir stjórnenda ekki breyst mikið í gegn- um tíðina og eru þær helst annað fólk og óformleg félagsleg tengsl. Hjá Solano og félögum (2003) er talað um „significant others“ og „inform- ation digestors“ sem mikilvæga uppsprettu upplýsinga og þekkingar og eru þar í hópi fjölskylda, aðrir bændur, starfsmenn og ráðgjafar. Hjá Silgo og Massey (2007) kom fram að hjá nýsjálenskum kúabændum væri óskaupplýsingalindin aðrir bændur sem gengið hefur vel í búskapn- um. Internetið virðist gegna mikil- vægu hlutverki fyrir suma bændur, sem sækja upplýsingar á ákveðnar síður sem þeir treysta. Bændurnir fá upplýsingar frá útlöndum, fara á ráðstefnur erlendis og heimsækja erlenda bændur með jöfnu millibili. Þetta er í samræmi við niðurstöður Mackenzie (2002). Einnig eru þeir áskrifendur að erlend- um tímaritum um lífrænan búskap. Sumir bændur hafa tekið þátt í rannsóknum og nýtt sér niðurstöður þeirra í ylræktinni. Innlendir sérfræð- ingar hafa líka hjálpað bændunum og gegna ráðunautur í lífrænum búskap og ylræktarráðunautur þar mikilvægu hlutverki. Þátttaka í námskeiðum er mikil- væg fyrir bændurna, sérstaklega sér- sniðnum námskeiðum fyrir bændur í lífrænum búskap. Fram kom að ekki er nóg framboð af slíkum nám- skeiðum. Bændurnir eru duglegir að sækja námskeið fyrir bændur í hefð- bundnum búskap og reyna síðan að laga þekkinguna að lífrænum búskap. Hvaða þættir tengjast upplýsingaöflun bændanna? Bændurnir hafa upplifað hindranir við upplýsingaöflun - erfitt hefur verið að ná sambandi við ráðunaut og stofnanir gefið loðin svör. Ekki töldu þó allir bændurnir að um hindranir væri að ræða og töldu reynslu sína yfirvinna allar hindranir við öflun upplýsinga. Bændurnir bera mismikið traust til upplýsinga eftir því hvaðan þær koma. Þeir virðast þekkja upplýs- ingalindir sínar vel og vita hverjum má treysta og hvað þarf að varast. Ráðunautum virðist vel treyst, einnig rannsóknarstofnunum og samtökum bænda. Ákveðnum bændum er treyst en fram kom að ekki sé alltaf hægt að treysta því sem kemur frá bændum. Sumum upplýsingum beri að taka með vara, eins og frá sölumönnum. Nefnd voru dæmi um hvernig góðar upplýsingar skiptu sköpum í búskapnum, dýrkeypt sé að þurfa að prófa sig áfram með alla hluti og mistök séu skammt undan ef ekki eru fyrir hendi góðar upplýsingar. Lokaorð Ljóst er að bændur í lífrænum búskap vantar margskonar upplýsingar um búskapinn. Þeir styðjast mikið við sér reyndari bændur til upplýsingaöflun- ar og fara fjölbreyttar leiðir við upp- lýsingaöflun. Því er þörf á auknum rannsóknum og ráðgjöf í lífrænum landbúnaði fyrir þessa bændur. Hrafnlaug Guðlaugsdóttir, M.Sc. í landbúnaðarvistfræði (e. agroecology), MLIS í bókasafns- og upplýsingafræði Heimildir. Alwis, G., Majid, S. og Chaudhry, A. S. 2006. „Transformation in managers information seeking behaviour: A review of the literature“. Journal of Information Science, 32:362-377. Hrafnlaug Guðlaugsdóttir, 2009. „Upplýsingahegðun bænda sem stunda lífrænan búskap á Íslandi“. Óbirt MLIS ritgerð: Háskóli Íslands, Félags- og mann- vísindadeild. Lu, Y. 2007. „The human in human inform- ation acquisition: Understanding gatekeeping and proposing new direction in scholarship“. Library and Information Science Research, 29(1):103-123. Mackenzie M. L. 2002. „Information gat- hering: The information behaviours of linemanagers within a business environment“. Proceeding of the 65th ASIST Annual Meeting, vol.39:164-170. Savolainen, R. 2007. „Information behav- iour and information practice: Reviewing the “umbrella concepts”of information-seeking studies“. Library Quarterly, 77(2):109-132. Sligo, F. X., Massey, C. 2007. „Risk, trust and knowledge networks in farmers learning“. Journal of Rural Studies, 23(2):170-182. Solano, C., Leon, H., Perez, E., Herrero, M. 2003. „The role of personal information sources on the decision-making process of Costa Rican dairy farmers“. Agricultural Systems, 76(1):3-18. Wilson, T. D. 2000. „Human information behaviour“. Informing Science,3(2):49-55. Upplýsingatækni

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.