Dagblaðið Vísir - DV - 01.06.2007, Qupperneq 39
„30.9.71. (Þ.J.) Ástand hefur ekki tekið stór-
stígum breytingum nú undanfarna 3 mán-
uði, enda þótt auðsýnilega sé um hæga en
ákveðna hrörnun að ræða. Eins og áður
kom hér fram, hefur meistarinn ekki sýnt
neina tilburði til myndlistar, eftir að hann
kom hingað inn á deildina, jafnan hafn-
að því ef honum hefur verið boðin tæki til
þess. Hins vegar bar svo til í morgun er lit-
ið var inn til hans að hann lá í rúminu sínu
í djúpum svefni, h. framhandleggur reistur
upp til hálfs, en fram úr hægri sem er orð-
in grönn og sinaber, hékk gullleitur blýant-
ur oddbrotinn. Þetta var eftirminnileg sjón
þeim sem horfðu á. Lyf óbreytt.“
Ég er sannfærður um að beðið var með þessa
opinberun þangað til afi minn gat ekki mót-
mælt. Merkilegt að enginn þakkaði fyrir, eng-
ar fundagerðir né önnur skjöl hjá borginni frá
þessum degi, bara þessi frétt í Morgunblaðinu.
Einnig undarlegt að það voru engar fréttir um
þetta í öðrum blöðum og engin umfjöllun dag-
ana á eftir, heldur ekki í Morgunblaðinu nema
þrjár ljósmyndir af verkum úr meintri gjöf dag-
inn eftir, sagt að Kjarval hefði gefið þetta haust-
ið 1968, ljósmyndirnar af tveimur málverkum
(mannamyndir) og einni teikningu sem skiptir
máli. Meira um það seinna. Í þessu sambandi
má benda á að í skýrslu Baldurs Guðlaugsson-
ar frá 1982 er þetta:
„Í þessu sambandi er ljóst að einungis örfá-
ir aðilar hafa verið til staðar þegar afhend-
ingin átti sér stað og fáir því vitað frá fyrstu
hendi hvers eðlis afhendingargerningurinn
var. Hvorki Jón Þorsteinsson, Páll Líndal,
þáverandi borgarlögmaður, né Lárus Blön-
dal, þáverandi borgarskjalavörður, ræddu
t.d. um þetta við J. Kj.“
Hér á undan skrifaði ég um ástand föður míns
þetta haust, sem þarfnast skýringa. Fyrst ber
að nefna að efnahagsástandið var bágbor-
ið árið 1968, viðreisnin í vandræðum, verð-
bólga, gengisfellingar og verkföll. Faðir minn
var byrjaður að reyna að halda utan um mál
föður síns við vonlausar aðstæður. Til dæmis
hafði Sigurður Benediksson, þá listaverkasali,
náin samskipti við afa minn og hélt hvert lista-
verkauppboðið af öðru nærri mánaðarlega þar
sem myndir eftir Kjarval voru seldar í tugatali.
Ef ég veit rétt voru þetta meðal annars myndir
úr geymslum í Austurstræti 12 þar sem afi hafði
haft vinnustofu í áratugi en notaði ekki lengur.
Halldór Laxness minnist á þetta í skrifum sín-
um við opnun Kjarvalsstaða:
„Skömmu fyrir lát Kjarvals höfðu einhverjir
spaugarar komist yfir hátt í hundrað myndir
meistarans og settu þær á axjón í Reykjavík
þar sem þær fóru á verði sem aðeins þekkt-
ist á eldhúsdyralist.“
Eitt atvik skýrir þetta ástand kannski best.
Sumarið 1968 var haldin sýning á eldri verkum
afa í eigu fólks. Einn fjórði þjóðarinnar mætti,
eða um 50.000 manns; Íslendingar þá eitt-
hvað undir 200.000. Mætur maður sagði mér
um daginn á Landsbókasafninu að í rauninni
hefði þessi aðsókn verið ótrúlegri; hlutfalls-
lega fleiri bjuggu úti á landi þá og samgöngur
ekki sem í dag. Aðgangseyririnn var ókeypis en
ef sýningarskrá var keypt var hún happdrætt-
ismiði, vinningurinn mynd eftir Kjarval. Mikið
fjármagn safnaðist sem rann allt í tilvonandi
myndlistarhús við Miklatún. Áður, árið 1965,
var líka sýning á málverkum Kjarvals með sama
fyrirkomulagi. Þá safnaðist líka stórfé sem fór til
sama málstaðar. Lögmaður fjölskyldunnar átti
auðvelt með að reikna þá fjárhæð yfir í nútíma-
virði í huganum. Faðir hans hafði keypt nýjan
Land Rover um líkt leyti og þetta samsvaraði
átta nýjum jeppum. Hvort það er nákvæmt hef
ég ekki hugmynd um.
Og þá atvikið: Ung hjón fengu myndina og
ljósmynd af þeim brosandi við málverkið birt-
ist í blöðunum. Ég fann þessa ljósmynd fyrst
í Morgunblaðinu vegna þess að hægt er að
skoða gömul Morgunblöð allt frá 1913 á net-
inu, mikill fjársjóður. Á þeirri mynd 18. júlí
1968 er Alfreð Guðmundsson við hinn enda
málverksins. Ekkert merkilegt við það, Alfreð
Guðmundsson var jú eins og skuggi í lífi afa
míns þessi ár. Til þess að rannsaka önnur dag-
blöð frá þessum tíma verður að fara á Lands-
bókasafnið, teiknað af Þorvaldi S. Þorvaldssyni
arkitekti, stórskemmtilegt hús og líklega þess
vegna að það er alltaf fullt af fólki. Í Tímanum
fann ég svo aðra ljósmynd af sama atviki, nema
að þar er Alfreð ekki einn; faðir minn Sveinn
Kjarval stendur við hliðina á honum. Og hvers
vegna var hann klipptur í burtu á Morgunblað-
inu? Jú, vegna þess að valdið (Morgunblaðið)
vildi skapa „andrúmsloft dauðans“ í kringum
föður minn, vildi ekki að hann væri til, Kjar-
val átti að vera eign íslensku þjóðarinnar og
einkasonurinn passaði ekki inn í þá mynd. Ég
get nefnt mörg slík dæmi, sérstaklega í sam-
bandi við Kjarvalshúsið á Seltjarnarnesi, en
finnst þetta sláandi. Við vitum að óæskilegt
fólk var fjarlægt af ljósmyndum í gömlu Sovét,
Mogginn fræddi okkur um það, en að það væri
stundað í höfuðvígi vestræns frelsis voru mér
fréttir. Og svo að það sé enginn misskilningur:
báðar ljósmyndirnar teknar á sama augnabliki,
þrír haldandi eins í málverkið á báðum ljós-
myndunum. Í Tímanum er faðir minn auðsjá-
anlega með í athöfninni, varla handarbreidd
á milli hans og Alfreðs, faðir minn horfandi á
myndina og hjónin, enda nefndur með nafni
í Tímanum. Í Morgunblaðinu er Alfreð einn
nefndur, enda búið að klippa pabba í burtu. Við
vissum þetta í fjölskyldunni, ræddum um þetta
samsæri að halda föður mínum frá málum föð-
ur síns; það aðalástæðan að faðir minn flutti af
landinu. Sjá ekki allir níðingsverkið og heldur
einhver að þetta hafi verið fyrir slysni? Þetta
sumar var Jóhannes Kjarval dáðastur allra Ís-
lendinga, aðsóknin að sýningunni sannar það!
Ritstjóri Morgunblaðsins, Matthías Johann-
essen, var þá að vinna að bók um Kjarval sem
varð metsölubók þau jól. Ljósmyndirnar í bók-
inni eimmitt eftir son Alfreðs, mannsins sem í
dag ræður úrslitum í dómsmálinu sem er á leið
til Hæstaréttar. Ekki fyrir slysni að einkasonur
Kjarvals var klipptur úr myndinni. Þegar ég var
yngri reyndi ég að leiða þetta allt hjá mér, lifa
mínu lífi og gleyma þessum tíma. Ef eitthvað
þá ásakaði ég foreldra mína fyrir að hafa ekki
staðið uppi í hárinu á þessum dónum. En með
þroska hefur mér skilist að það var ekki hægt,
þessir dónar voru valdið á Íslandi.
Þetta „andrúmsloft dauðans“ kom fram í mörg-
um myndum og stundum undarlegum. Þetta
sumar hélt systir mín Kolbrún Kjarval sýn-
ingu í Unuhúsi. Hún hafði lært leirkerasmíði í
Edinborg og sýndi árangurinn. Sýningin vakti
athygli og fréttir af henni birtust í blöðunum. Í
Vísi varð Kolbrún Kjarval að Kolbrúnu í Unu-
húsi. Dagblaðið Tíminn var samt ekki feimið,
hafði langt samtal við Kolbrúnu Sveinsdóttur
Kjarval og spurði meðal annars um afa hennar,
hvaða áhrif það hefði á list hennar að vera son-
ardóttir hans. Kolla svaraði því eftir bestu getu,
kurteis eins og okkar barnanna var von og vísa,
vel uppalin og lítillát.
En aftur að Kjarvalshúsinu. Jóhannesi Kjarval
listmálara var gefið húsið á Seltjarnarnesi og
hann tók við því. Það er ennþá eign dánarbús
hans að mínu mati, sama hve oft það gengur
sölum eða kaupum. Upphaflega afsalið er gall-
að; eða hvernig getur ríkið selt eign sem var gef-
in opinberlega með miklum og stórum yfirlýs-
ingum og þiggjandinn þáði. Er ekki dómsmál í
gangi á Íslandi þar sem Reykjavíkurborg þyk-
ist hafa þegið munnlega gjöf af Kjarval í leyni
og sú meinta munnlega gjöf staðfest í héraðs-
dómi, hvað sem verður í Hæstarétti! Í ævisögu
um Kjarval listmálara, skrifaðri af Indriða G.
Þorsteinssyni rithöfundi, einskonar opinberri
sögu Kjarvals vegna þess að Indriði var á laun-
um hjá ríkinu í fleiri ár við verkið, stendur skrif-
að á bls. 305, öðru hefti:
„Þótt menntamálaráðherra (Gylfi Þ. Gylfa-
son) hefði fengið samþykki Kjarvals til
að byggja húsið fyrir hann í Lambastaða-
túni fór svo að hann vildi ekki taka við því
þegar til kom. En í einu af mörgum viðtöl-
um þeirra dr. Gylfa og meistarans tókst dr.
Gylfa að lauma húslyklunum í hægri vas-
ann á jakka hans. Kjarval vissi vel af þessu
laumuspili ráðherrans en lét kyrrt liggja. Og
ekki skilaði hann þessum lykli í ráðherratíð
dr. Gylfa. Þótt Kjarval flytti aldrei í Kjarvals-
húsið á Lambastaðatúni kom hann þangað
margoft. Má vera að nokkru hafi ráðið um
að hann flutti ekki að hann fór að kenna las-
leika um það bil sem húsið var tilbúið. En
húsið var byggt með samþykki Kjarvals, og
voru helstu ástæðurnar fyrir samþykki hans
þær að þegar hann félli frá átti að gera þarna
bústað handa erlendum listamönnum sem
kæmu hingað til dvalar í skemmri tíma.
Þetta fyrirkomulag var þekkt annars stað-
ar. Bjóst dr. Gylfi Þ. Gíslason við því í sam-
tali að eflaust hefði Kjarval aldrei samþykkt
bygginguna hefði húsið einungis verið ætlað
honum.“
Sem sagt húsið gefið og þegið. Þar með hlýt-
ur það að hafa verið í eigu Kjarvals þegar hann
lést og í dánarbúi hans. Sú er mín skoðun og
ætlunin að láta reyna á það þegar ég hef rétt til
þess.
Eina fasteignin sem afi minn Jóhannes Kjarval
listmálari keypti um ævina var jörðin Einarslón
á Snæfellsnesi, keypt rétt eftir seinni heimsstyrj-
öldina með lögformlegu afsali. Kjarval borgaði
síðan öll gjöld af jörðinni þangað til fyrri eig-
endur jarðarinnar sögðust hafa eignast hana
aftur þegar afi minn var orðinn gamalmenni og
bjó á Hótel Borg. Eina skjalið hjá sýslumannin-
um í Stykkishólmi er sundurlaust óundirskrif-
að bréf, vélritað á bréfsefni Hótel Borgar, um að
afi minn (sem skrifandi bréfsins í 1. persónu)
sé kannski að hugsa um að gefa jörðina. Ég veit
ekki til þess að afi minn hafi skrifað á ritvél.
Í mínum huga er jörðin Einarslón á Snæfells-
nesi ennþá í dánarbúi afa míns þótt hún sé
komin undir ríkið og sé hluti af þjóðgarði í dag.
Dánarbú föður míns er óskipt í umsjá móður
minnar, tengdadóttur Kjarvals, og hún komin
á tíræðisaldur, lögfræðingar ráða þar en ekki
ég. Þrátt fyrir margra ára þrýsting frá mér hefur
ekki verið lagt út í málaferli, hvorki vegna Kjar-
valshússins né jarðarinnar Einarslóns, talið að
málaferlin við Reykjavíkurborg gangi fyrir.
Koma tímar og koma ráð, ef íslenska ríkið get-
ur gengið á jarðareigendur samkvæmt ýtrustu
kröfum, vitnað í Landnámu og stuðst við skjöl
langt aftur í aldir, ætti eitt ár til eða frá ekki að
skipta öllu máli í erfðamálum Jóhannesar Kjar-
val listmálara, mannsins sem fórnaði sér fyrir
Ísland og færði því stærri gjafir en flestir Íslend-
ingar fyrr eða síðar, list sína.
Fleiri heimildir eru til um afhendingu Kjar-
valshúss, meðal annars segulbandsspóla af
blaðamannafundi haustið 1975. Á þessum
fundi kvartaði faðir minn stórum yfir meðferð
yfirvalda á afkomendum Kjarvals. Um Kjar-
valshúsið segir hann þetta meðal annars (fað-
ir minn var alinn upp í Danmörku sem kemur
fram í máli hans), orðrétt af spólunni:
„Ég bjó þarna skammt frá og svo einn dag sé
ég heljarmikla bílahersingu svartra bíla og
fjöldi manna sem eru að koma þarna. Og ég
auðvitað gat ekki annað en athugað það en
ég vildi ekki trufla neinum. Ég fór þá eins og
oftar niður í eftirmiðdagskaffi niður í Hót-
el Borg og þá eru þeir búnir að drekka kaffi
við þessa athöfn sem hafði farið fram sem ég
ekki vissi um. Og faðir minn segir, ja má ég
ekki kynna þér fyrir menn sem hafa verið að
afhenda lykil af húsið...“
Þessi atburður gerðist sumarið 1968 og voru
meginástæða þess að foreldrar mínir flúðu
land og settust að í Danmörku ári seinna. Sam-
kvæmt móður minni var þetta dropinn sem
fyllti mælinn, faðir minn brotnaði þennan dag.
Þessi húsbygging og hvernig staðið var að henni
var föður mínum óendanlegur sársauki, vald-
níðslan af hendi ráðamanna gagnvart honum
með ólíkindum og í beinu hlutfalli við hversu
dáður listamaður faðir hans var og hvað þess-
um mönum var not í að vera nálægt Kjarval. Og
þá er kannski við hæfi að drepa kjaftasögu sem
ég kemst stundum í snertingu við, faðir minn
var reglumaður en reykti þó, vinnuþjarkur.
Hugmyndin að þessu húsi var nefnilega for-
eldra minna, að byggja einfalt timburhús í
fljótheitum þar sem hægt yrði að hjúkra afa,
á lóðinni næst við hús þeirra. Faðir minn sem
var innanhúsarkitekt teiknaði húsið og fór
með teikningarnar til menntamálaráðherra,
þá Gylfa Þ. Gylfasonar. Þar með var málið úr
höndum föður míns. Þorvaldur S. Þorvaldsson
arkitekt var fenginn til að teikna annað hús. Það
undarlega að húsið sem var byggt eftir teikn-
ingum Þorvalds var lítið annað en litla timbur-
húsið á tröllamjöli. Ég vil ekki trúa því að þess-
ar teikningar föður míns hafi verið eyðilagðar,
einn daginn munu þær skjóta upp kollinum og
sanna mitt mál.
Ég bar þetta undir Þorvald en hann neitaði að
hafa notast við teikningar föður míns. Í dag er
til veiðikofi við Hrútafjarðará sem faðir minn
teiknaði og smíðaði á þessum árum, auðsjá-
anlega upphaflega hugmyndin að þessu húsi.
Ég man að Grétar Þorsteinsson núverandi for-
seti ASÍ kom að smíði veiðihússins en hann
var lærlingur pabba í húsgagnasmíði. Ég skil
ekki hvernig Þorvaldur getur hagað sér svona,
ekkert að því að notast við hugmyndir annarra
eins lengi og menn gangast við því, listamenn
gera það alla daga. Alnafni minn Ingimund-
ur Sveinsson arkitekt er ekkert að fela að hug-
mynd hans að Perlunni í Öskjuhlíð, sem hann
teiknaði, komi frá afa mínum Jóhannesi Kjar-
val, sagði það við mig í eina skiptið sem við
hittumst. Ég er ekki að segja að þessi hugmynd
föður míns að húsinu sé svo merkileg, jafnvel
úr bandarísku veiðitímariti. Minnir á „leanto“-
skýli sem voru byggð í brekkum mót suðri til
þess að fanga sólina og fá skjólið af brekkunni
fyrir aftan, gluggarnir að framan með hallandi
þakinu aftur. Hvað heldur Þorvaldur að hann
sé, hér er einn mesti listamaður íslensku þjóð-
arinnar og sonur hans teiknar honum hús.
Séra Bragi Friðriksson sagði í ræðu sinni við út-
för Kjarvals:
„Jóhannes Kjarval hafði á orði að hann vildi
byggja höll uppi í Öskjuhlíð. Hún átti að
verða stór, því stórt skyldi byggja eða alls
ekki, sagði hann. Í þessari höll áttu að búa
dóttir hans og sonur og hann sjálfur og vin-
um sínum vildi hann sæti skipa veglega í
hallarsölum sínum. Allir vita, að Kjarval
byggði enga slíka höll og aldrei bjó hann í
háum sölum. Góðu heilli verða verk hans
senn í slíkum salarkynnum. Eitt sinn bauð
hann son sinn velkominn til Íslands og gaf
honum myndina Morgunroðann. Sú mynd
sýnir þessa draumahöll. Hún birtir hans
stóra, hreina hjarta. Allar hallir hans eru í
myndum.“
Þetta málverk Morgunroðinn var svo hluti af
uppeldi mínu, á stofuveggnum á ótal stöð-
um vegna þess að fjölskyldan var í húsnæðis-
hrakningum. Þegar ég leitaði að heimildum í
fjölmiðlum frá árinu 1968 rakst ég á ljósmynd
af pabba fyrir framan málverkið á sýningunni
í Listamannaskálanum það sumar. Þegar ég sé
Perluna í fjarska minnist ég alltaf myndarinnar
vegna þess að kúlan er í henni. Foreldrar mínir
neyddust til að selja málverkið áður en að þeir
fluttu til Danmerkur. Hún sést í fjölskylduljós-
mynd á jólunum 1968 en var líklega seld stuttu
seinna. Í dag er hún með ótal öðrum myndum
eftir afa á Hótel Holti. Faðir minn segir í viðtali
5. júlí 1968 í Morgunblaðinu um þessa mynd:
„Hún var máluð 1939, segir Sveinn, sama ár
og ég fluttist alkominn heim til Íslands. Ég
er fæddur og uppalinn í Danmörku, ég hafði
lítil kynni af föður mínum til tvítugsaldurs.
En 25. janúar 1939 sendi ég pabba skeyti þar
sem ég sagði honum að þann dag legði ég
af stað til Íslands til að setjast hér að. Þann
sama dag mun hann hafa byrjað á þessari
mynd, og þegar ég kom heim, færði hann
mér hana að gjöf og kallaði Morgunroða. Ég
á ekki ýkja margar myndir eftir pabba, þó
talsvert af fallegum teikningum og skissum.
En af öllum myndunum er þessi mér kær-
ust, því mér fannst bæði myndin og nafn-
giftin bera þess vitni að honum væri koma
mín til Íslands kær. Þótt myndin sé ekki
máluð fyrr en 1939, þá er mótívið ekki með
öllu nýtt. Ég á litla vatnslitamynd frá 1918-
20, þar sem sama stemmingin birtist, enda
þótt uppbyggingin sé önnur. Mér hefur skil-
izt að fígúrurnar í myndinni séu táknrænar
fyrir ættina, en byggingin á myndinni miðri
með kúptu þakinu sé draumhöll pabba.
Hana vildi hann reisa í Öskjuhlíð, að því er
mér var sagt, og klæða kúpuna með ljós-
rauðu postulíni að innan.“
Sumum finnst að ég fari offari ef ekki græðgi, en
á óréttlætið og valdaníðslan að standa, aðeins
svo ekki sé hægt að bera slíkt upp á mig? Hvað ef
að afi minn sem íslenska þjóðin kallar meistara
Kjarval var skipulega rændur í ellinni og afkom-
endur hans troðnir undir? Ég býst ekki við að
Kjarvalshúsinu eða Einarslóni verði skilað, vil
bara að níðingsverkin verði opinberuð og sýnt
hverjir stóðu að þeim. Alveg eins og Fréttablað-
inu er mikið mál að skálda um Kjarval virðast
aðrir hafa skáldað upp gjafir til sín frá honum.
Ef ekki annað þá vil ég að sannleikurinn verði
opinberaður, ef að ríkið gaf aldrei Kjarvalshúsið
og Kjarval gaf jörðina Einarslón er löngu kom-
inn tími til þess að fá það á hreint.
Ég byrjaði ekki málaferlin gegn Reykjavíkurborg
vegna þess að ég héldi að einhver verðmæti
væru í þessari meintu gjöf, komst að því seinna.
Ég hafði aldrei sett mig inn í það enda var þetta
falið uppi á Korpúlfsstöðum í 17 ár eða til ársins
1985 en pabbi lést árið1981. Eina ástæðan að ég
lagði af stað var að hreinsa orðstír föður míns,
sem af einhverjum ástæðum er mér mikið mál.
Og svo eitt sé á hreinu, Hilmar Einarsson og
Kristín G. Guðnadóttir, þið hafið ekki hugmynd
um hvað var í þessari „meintu gjöf“ þó að þið
hafið unnið í henni í áratugi, þið vissuð aldrei
hvað fór hvert eða hvenær. Það var hvorki rétt
af ykkur né vel gert að gera lítið úr henni í fjöl-
miðlum daginn sem dómurinn féll. Við vitum
að meira en 600 bókatitlar eru ekki í seinni list-
anum sem voru í þeim fyrri, vitum að málverk
eftir listmálarann Eirík Smith var í þeim fyrri en
ekki seinni, að kassar af olíumálverkum eftir
Kjarval voru skráðir í fyrri listann (ekkert lista-
verk eftir Kjarval er sérstaklega skráð) en eru í
seinni listanum orðnir að meira en 5.000 teikn-
ingum en engu olíumálverki. Trúi því hver sem
vill! Ég minni á fréttina í Morgunblaðinu frá ár-
inu 1971. Ekki nóg með að afi væri rændur með
því að segja að hann hefði gefið, líka gert sem
minnst úr því með hjálp ykkar, Kristín og Hilm-
ar. Eru engin takmörk?
Ingimundur Kjarval.
auglýsing