Læknablaðið : fylgirit - 31.07.1995, Qupperneq 17
LÆKNABLAÐIÐ 1995; 81
17
nema við tveir viðstaddir, það nennti enginn að
hlusta á svona labbakúta. Svo segir Brynleifur:
nah, nah ..., kann hann nokkuð í Fornaldar-
sögunni?... nah, nah ... kann hann nokkuð í
grískri goðsögu?“ — Pá fór í verra hjá Jóni, hann
vissi þar lítið, svo ég hugsa, þetta hefi ég lesið.
Síðan er ég tekinn upp, og ég stóð mig sæmilega,
og eftir það sagði ég við Jón: „Huh, ég marka ekki
mikið, hvað þú kannt í sögu, ég sló þig rækilega
út.“ Og þetta lét ég hann hafa alla æfi.
Þarna var hann strax allur í annálunum, við
vorum þá 16 ára gamlir. Jón var kurteis og lítillát-
ur svo af bar, og ekki flíkaði hann kunnáttu sinni.
Ég fann strax, að hann var líklega sá snarpgáfað-
asti í hópnum. Hann var sá, sem las minnst af
öllum, og hefði hann viljað, hefði hann getað
verið hæstur. Peir þrír voru svipaðir í einkunn og
hæstir, Halldór, Steingrímur og Jón, en Jón var
ekkert að hugsa um það, þurfti þess ekki. Hann
var jafnvígur á allar greinar, líka stærðfræðina.
Hann hafði breiðar og skemmtilegar gáfur, en var
líka ljúfur, glettinn og gamansamur, var alltaf til í
að tuskast við okkur. Þá var móðins í skóla svo-
kallaður „hanaslagur.“ Þar hlaut ég mikla niður-
læging vegna líkamslengdar, en sextán ára gamall
hafði ég náð fullri hæð, 188 cm, og þar með var ég
hæstur nemenda skólans — að líkamshæð!
Föðurbróðir Jóns Jóhannessonar var Stefán
Jónsson, eldri, dósent við læknadeildina frá 1917-
1922. Jón var frá Hrísakoti á Vatnsnesi, og þar var
Stefán einnig fæddur. Sigurður Guðmundsson
skólameistari vissi ábyggilega um ættir Jóns.
„Jón, þú ert af Vatnsnesinu, faðir þinn var þaðan,
en móðir þín, var hún ekki að sunnan?“
„Jú,“ — segir Jón, „frá Hlaðgerðarkoti í Mos-
fellssveit.“
„Já“ — segir skólameistari „... vinnukona að
sunnan, það er gott að blanda blóðinu svona.“ En
ég hugsaði eftir á, að skólameistari var ekki síður
að hugsa um sjálfan sig, hann var að norðan og
hans ágæta frú að sunnan.
Björn Jóhannsson var frá Flateyri í Önundar-
firði. Faðir hans hét Jóhann Sveinbjörnsson, pró-
fastur, sem dó frá ungum börnum. Ekkjan fluttist
þá í heimahaga og ól börnin upp. Bjössi bjó aldrei
í heimavistinni, hann vildi alltaf búa í bænum eins
og Karl ísfeld. Hann hafði alla burði til námsins,
en sinnti því lítið. Hann var ljúfur og góður, hafði
mjög kurteislega framkomu, fór vel með vín og
mætti vel í kennslustundum. Hann og Karl ísfeld
höfðu á sér heimsborgarasnið. Eftir stúdentspróf
stofnaði hann fyrirtæki og stjórnaði þeim, og eitt
þeirra lifir enn góðu lífi. Það er Sælgætisgerðin
Ópal. Góður drengur, og það var gott að vera
með honum.
Rafn Jónsson var nánasti vinur minn meðal
bekkjarbræðranna, og við vorum saman öll stríðs-
árin. Hann var mjög geðþekkur, en var svolítið
þungur í byrjun, en alltaf léttur, þegar maður fór að
tala við hann. Hann var hálfbróðir Guðmundar,
óðalsbónda, Jónssonar á Hvítárbakka, og Jóhanns
skipherra á Varðskipinu Ægi. Faðir Rafns var ráðs-
maður á Vífilsstöðum, Jón Guðmundsson, einnig
um tíma bóndi á Reykjum í Lundareykjadal.
Rafn var hógvær og prúður. Mér fannst hann
aldrei fá eins mikið út úr prófum eins og honum bar,
en hann blómstraði, þegar hann kom í tannlækna-
deildina í Kaupmannahöfn. Það nám tók hann á
stuttum tíma og útskrifaðist 1936. Eftir námið ytra
kom hann heim og gerðist tannlæknir við barna-
skólana í Reykjavík. En árið 1938 fór hann út aftur
til Kaupmannahafnar með Huldu Olgeirsson konu
sinni, og þegar ég kom út aftur, nýkvæntur 1939,
hittumst við á ný og vorum þar öll stnðsárin í sömu
götu.
Sveinn Bergsveinsson var eldri en við og vel gef-
inn. Eins og Benedikt Tómasson var hann aðeins
með okkur í sjötta bekk. Fyrir bragðið hafði að
minnsta kosti ég lítið samneyti við hann og hann var
löngum með sínum gömlu sambekkingum, Sig-
tryggi Klemenzsyni og Benedikt. Sveinn var mikill
gleðimaður og oft að setja saman vísur, en alltaf
fannst mér hann stirðkveðinn, blessaður. Hann
lauk norrænunámi frá H. I. 1936 og doktorsprófi
1941 við Hafnarháskóla. Síðan nam hann hljóðfræði
í Þýskalandi í fjögur ár. Það, sem virðist hafa bund-
ið enda á hans langa nám, var, að hann fékk berkla
1944 og kom heim í stríðslok. Þegar hann náði sér,
gerðist hann kennari í Reykjavík. En 1951 fór hann
alfarinn og sat í Austur-Berlín og varð prófessor við
Humboldt Universitat.
Sveinn var vinstrisinnaður og í hópi með Ásgeiri
Blöndal, þegar Ásgeir var rekinn úr skóla og tafðist
í námi. Við Ásgeir vorum félagar frá Bíldudal, þótt
hann væri nú eldri. Allt þetta olli mér áhyggjum, en
Páll Ólafsson (f. 1911),
1994), tannlæknir. verkfræðingur.
Rafn Jónsson (1911-