Sagnir - 01.10.1983, Side 27
Hvernig á að kenna sögu?
Það er ekkert einhlítt svar til við því
hvernig á að kenna sögu. Vænlegra er að
spyrja: við hvað er hægt að miða þegar efni
og aðferðir eru ákveðnar í sögukennslu? Ég
tel að hægt sé að nota þrjár viðmiðanir og að
þær gildi hvort sem um er að ræða sögu eða
annað sem kennt er í skólum.
í fyrsta lagi verður að taka mið af nem-
endanum. Ekki aðeins aldri hans og þroska,
fyrra námi og hæfileikum heldur líka vænt-
ingum hans, tilfinningum og líðan. Áhugi
og námshvöt skiptir hér miklu máli.
Takist það að vekja áhuga nemenda á
viðfangsefni, er ekki víst að kennari þurfi
að gera mikið meira. Enda þótt einstakl-
ingar séu mismunandi og hafi mismunandi
áhugasvið, virðist sú meginregla gilda að
því fjölbreytilegra sem efni og aðferðir eru
og því virkari og ábyrgari sem nemendur
eru í glímu sinni við viðfangsefni, því meiri
líkur eru á því að vekja og viðhalda náms-
áhuga.
í öðru lagi verður að taka tillit til samfé-
lagsins. Spyrja verður: hvaða þjóðfélagsleg
rök mæla með því að tiltekið efni sé valið
eða tiltekinni aðferð sé beitt til að koma því
á framfæri eða láta nemendur fást við það?
Það gæti t.d. verið mikilvægt að fólk
almennt skilji mun á lýðræði og einræði. í
lýðræðisþjóðfélagi gæti verið við hæfi að
fást við slíkt efni í hópvinnu.
Þriðja viðmiðunin er þekkingin. Hefð-
bundnar námsgreinar í skólum eru gjarnan
eins konar smækkuð mynd af fræðigrein-
um. Það má deila um hversu heppilegt það
er en hvort sem ofaná verða afmörkuð
þekkingarsvið eða samþætt efni, verður að
taka mið af því sem best er vitað á hverjum
tíma. Það verður að líta svo á að þekking er
ekki endanleg heldur fljótandi og tíma-
bundin. Það kemur í hlut þeirra sem eru
nemendur núna að bæta við, leiðrétta og
þróa nýja þekkingu, nýjan skilning á
sjálfum okkur og umhverfinu. Gagnrýnin
hugsun, glíma við vandamál líðandi stundar
og valfrelsi gætu verið vænlegar ieiðir.
3. desember 1982
Hrólfur Kjartansson
25