Sagnir - 01.10.1983, Síða 28
Sagnfræði og félagsvísindi
í 1. árgangi Sagna (1980) varð nokkur
umræða um tilgang sagnfræðinnar og stöðu
hennar og meðal annars voru þrír menn
spurðir að því hvort tengsl sagnfræði og fél-
agsfræði væru svo mikil að réttara væri að
kenna sagnfræði í félagsvísindadeild.
Sagnir 1983 spurðu Sveinbjörn Rafnsson
og Gísla Gunnarsson að því hvort sagnfræð-
in hefði einhverja sérstöðu meðal félagsvís-
indagreina. Sveinbjörn svaraði því þannig
að sagnfræði væri ekki félagsvísindagrein.
Svar Gísla fer hér á eftir:
Sagnfræðin er vísindin um samfélagsbreyt-
ingar, hvernig aðstæður voru og hvernig þær
urðu. Áherslan á tímavíddina, breyting-
arnar og margbreytileikann í samfélagsgerð
skapar sérstöðu sagnfræðinnar innan félags-
vísinda.
En það er ekki erfitt að afmá þessi sérkenni
úr sagnfræðinni með slælegum vinnubrögð-
um. Stundum hafa sagnfræðingar forðast
alhæfingar og skýringar og litið á sig fyrst og
fremst sem heimildasafnara; þá verða þeir í
besta tilfelli gagnrýnir sagnritarar og yfirgefa
sagnfræðina. Þessi tilhneiging er á vissu
undanhaldi vegna áhrifa frá öðrum greinum
félagsvísinda en þá hefur komið upp önnur
tegund afneitunar á sagnfræðivísindum: Sem
svar við goðsögninni um litla „nytsemi" sagn-
fræðinnar hafa margir stúdentar/fræðimenn
aðeins viljað fjalla um svonefnd „nærtæk"
viðfangsefni, t.d. þá stjórnmálasögu nútím-
ans, sem ótvírætt tengist atburðum líðandi
stundar. Sögu fyrri alda er afneitað og yfir-
leitt er reynt að leiða hjá sér vandamál, sem
ekki tengjast beint „hagnýtri" ákvarðanatekt
samkvæmt ríkjandi skilgreiningu á hagnýtu
gildi. Árangur þessarar „nytsemishyggju“ er
framleiðsla annars flokks stjórnmálafræð-
inga, félagsfræðinga, hagfræðinga o.s.frv.,
sem lítið hafa með sagnfræði að gera.
Til að hindra þessa þróun og viðhalda sér-
kennum sagnfræðinnar innan félagsvísind-
anna ber að leggja áherslu á eftirtalin grund-
vallaratriði.
1. Sagnfræðin þarf að fjalla um sem víð-
tækast svið bæði í tíma og rúmi til að fjöl-
breytileikinn í mannlegum samskiptum komi
sem skýrast í Ijós.
2. Sagnfræðingar mega ekki láta gildismat
líðandi stundar, og/eða þess samfélags sem
þeir lifa í, móta mjög mikið dóma sína um lið-
inn tíma. Samfélög fyrri alda á sem mest að
dæma út frá forsendum viðkomandi tíma.
3. Af reglum 1 og 2 leiðir sú þriðja: Sagn-
fræðingurinn verður að vera vel meðvitaður
um afstæðni fyrirbæra og hve hæpnar „algild-
ar reglur“ eru. Hann verður að vera umburð-
arlyndur ogopinn fyrir nýjungum og fús til að
endurskoða stöðugt fyrri hugmyndir.
4. Sagnfræðingur þarf að fá sem besta
heildarsýn yfir það samfélag sem hann er að
lýsa og getur ekki leyft sér eins mikla sérhæf-
ingu og hagfræðingur/félagsfræðingur/stjórn-
málafræðingur gerir. Samtímis þarf hann
helst að öðlast þekkingu á vinnubrögðum í
öðrum greinum félagsvísinda.
5. Sagnfræðingur verður að sýna fyllstu
nákvæmni í meðferð sinni á heimildum og
getur ekki leyft sér svipaða lausung í þeim
efnum og tíðkast í sumum félagsvísindagrein-
um. En þar hafa margir kenninga-og líkana-
smiðir komist upp með að meðhöndla aðeins
þau brot af heimildum sem falla inn í fyrir-
fram ákveðið mynstur. (Þetta á þó alls ekki
við allar félagsvísindagreinar, t. d. er lögfræð-
in mjög ströng í kröfum um réttmæta heim-
ildanotkun.)
Þessar grundvallarreglur eru sem sagt um
það hvernig styrkja megi sérkenni sagnfræð-
innar sem rannsóknagreinar samfélagslegs
breytileika innan félagsvísinda. Það liggur í
augum uppi að með þær að leiðarljósi verður
sagnfræðin erfiðust allra greina félagsvísinda,
en um leið sú sem er notadrýgst (og skemmti-
legustl). Þótt erfitt sé fyrir hvern einstakan
sagnfræðing að fylgja hverri reglu til hlítar,
breytir það engu um réttmæti þeirra við
stefnumótun greinarinnar.
26