Flóra: tímarit um íslenzka grasafræði - 01.03.1965, Síða 43
BELTASKIPTING.
Hugtakið gróðurbelti mun hafa verið fyrst mótað af grasafræðing-
um í Mið-Evrópu, enda eru hin skýru hæðarbelti gróðursins í Alpa-
fjöllum fyrir löngu þekkt og kunn orðin.
í Skandinavíu hefur einnig verið reynt að skipta gróðrinum í hæð-
arbelti. Þar er talað um barrskógarbelti, birkiskógarbelti og þar fyrir
ofan belti fjallaplantnanna (regio alpina).
Engar teljandi tilraunir hafa verið gerðar til beltaskiptingar á
íslandi, enda hæðarbelti yfirleitt mjög óskýr. Það er þó augljóst, að
óvíða á landinu muni hæðarbeltin eins skýr, eins og við innanverðan
Eyjafjörð. Hæðarmörkin geta verið ágætt hjálpargagn við skiptinguna
í gróðurbelti, enda þótt fleira þurfi þar að koma til. Hæðarmörkin
gefa aðeins til kynna efstu og neðstu vaxtarstaði tegundanna, en segja
lúns vegar lítið um magn hennar í viðkomandi hæð. Til að komast
að raun um gróðurbeltaskiptinguna, þyrfti því að framkvæma gróður-
greiningar (analýsur) jafnframt.
Hér skal þetta mál ekki rætt nánar, en aðeins bent á hugsanlega
skiptingu.
Ef miðað er við upprunalegan gróður landsins, er eðlilegast og
einnig í beztu samræmi við erlendar nafngiftir, að kalla láglendi
landsins, birkibelti, eða birkiskógarbelti. Hæð skógarmarkanna hefur
lítið verið könnuð í landinu, enda óhægt um vik við ákvörðun henn-
ar, sökum þess hve upprunalegir skógar eru fáir og smáir.
Samkvæmt lauslegum athugunum í Fnjóskadal og Dalsmynni eru
skógarmörkin víðast hvar í um það bil 350 m h. Einstakar birkikræklur
vaxa þó ofar eða allt upp í 450 m h. Ofan við skóginn má búast við
að landið hafi verið alvaxið fjalldrapa, víði og lyngi. Þetta belti má
því kalla runnabelti, og kenna sérstaklega við Jrá runna, sem eru ríkj-
andi á hverjum stað, en það mun vera allmismunandi eftir landshlut-
um og fjarlægð frá úthafinu. Efri mörk þessa beltis má setja í 650—
750 m h., en um það bil hverfa allar hinar stórvaxnari runnategundir.
Þar fyrir ofan er svo jafnan belti með smárunnum, grasvíði, sauða-
merg og jafnvel krækilyngi, en stinnastararmór og stinnastararmýri
eru þó víða fullt eins áberandi. Þetta belti mætti kalla dvergrunna-
belti eða grasvíðibelti, og nær það víða upp í um 1000 m h., sem er
um leið efstu mörk fyrir samfelldar gróðurtorfur.
Fyrir ofan 1000 m er svo belti háfjallaplantnanna, sem kenna má
við einhverja Jieirra, t. d. jöklasóley.
TÍMARIT UM ÍSLENZKA GRASAFRÆÐI - FlÓra 39