Flóra: tímarit um íslenzka grasafræði - 01.03.1965, Blaðsíða 51
ar gæti einnig í vestur og austurátt, enda kemur það vel í'ram hjá
jöklasóleyjunni (Ranunculus glacialis), en lágmörk hennar eru kunn
frá allmörgum stöðum á Eyjafjarðarsvæðinu. Liggur nærri að draga
megi jafnhæðarlínur fyrir útbreiðslu hennar niður á við. (Mynd 7.)
Slíkar jafnhæðarlínur verða meira eða minna reglulegir hringar, jafn-
rniðja um Kerlingu—Bónda. Hér virðist því gæta þess fyrirbæris, sem
af fræðimönnum í Mið-Evrópu hefur verið nefnt Massenerhebung,
þ. e. hlutfallsleg fylgni markanna við meðalhæð landsins.
Yfirleitt fer ekki að gæta verulegrar lækkunar á neðri mörkum
fjallaplantnanna fyrr en yzt á skögunum beggja megin fjarðarins, en
þar lækka þau líka oft mikið á stuttri vegalengd (sbr. jöklasóley o. fl.).
Það er athyglisvert að þessarar lækkunar gætir því meira og því
innar, sem neðri mörkin liggja neðar. Lágmörk þeirra fjallaplantna,
senr fara lægst, nálgast því mjög lágmörk snódældaplantnanna, sem
áður var getið, og líkjast þeim, og fara eins og þau niður að sjávarmáli
einlivers staðar við utanverðan fjörðinn.
Þetta er ekki óeðlilegt, þegar þess er gætt, að fjallaplönturnar eru
flestar lagaðar að talsverðum snjóþunga, og raunar oft erfitt að draga
skilin milli þeirra og snjódældaplantnanna.
Fáar fjallaplöntur hafa eins skýr og greinileg mörk og fjallhæran
(Luzula arcuata). í innsveitum má það kallast nær undantekningar-
laus regla, að hún verði algeng í 600—650 m h. og tekur þar við af
vallhærunni (Luz. mnltiflora), sem er láglendistegund. í Möðruvalla-
fjalli verður hins vegar strax vart nokkurrar lækkunar á neðri mörk-
um hennar (500 m), sem síðan eykst verulega og á yztu athugunarstöð-
unum er hún aðeins um 130 m yfir sjávarmáli.
Svipaða lækkun sýnir rjúpustörin (Carex lachenali), en mörk henn-
ar eru heldur neðar.
Láglendisplöntur.
Hér eru teknar saman þær plöntur, sem vaxa á láglendi án tillits
til þess hversu hátt þær fara, þ. e. plöntur sem hafa engin neðri mörk.
Þessar plöntur sýna yfirleitt mjög óverulega lækkun efri markanna
til hafsins. Þær sem hæst fara, takmarkast eðlilega af hæð fjallanna,
eins og sumar fjallaplönturnar, sem áður getur.
Hjá þeim tegundum, sem hafa raunveruleg efri mörk, verður þess
einnig vart, að þau fylgja eftir hæð fjallanna í innhéraðinu, líkt og
neðri mörk fjallaplantnanna ('Massenerhebung). Nokkrar þessara teg-
TÍMARIT UM ÍSLENZKA GRASAFRÆÐI - FlÓra 47