Morgunblaðið - 30.05.2012, Side 21

Morgunblaðið - 30.05.2012, Side 21
21 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. MAÍ 2012 Lömb Sumir segja að skila eigi landinu í ekki verra ásigkomulagi en þegar tekið var við því, en lömbin á Álftanesi láta sér fátt um finnast. Ómar Glöggur maður benti mér á að Þorvaldur Gylfa- son prófessor við Háskóla Íslands hefði skrifað grein, sem hann mun hafa birt í mars síðastliðnum í ritröð háskólans í München í Þýskalandi og er aðgengi- leg á internetinu. Grein þessi ber heitið From Col- lapse to Constitution – The Case of Iceland. Í henni víkur prófessorinn meðal annars að ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 í kærumáli þar sem framkvæmd kosningar til svonefnds stjórnlagaþings 2010 var skotið til rétt- arins svo sem lög heimila. Var kosn- ingin ógilt þar sem á framkvæmd henn- ar höfðu verið verulegir annmarkar. Í grein sinni segir Þorvaldur prófess- or meðal annars: „Further, it is rumo- red among lawyers expert at analyzing the legal writings of one another that one of the Supreme Court justices, a staunch party man before being ap- pointed to the bench in favor of three more qualified candidates according to the review committee assessing the candidates, drafted one of the com- plaints that the Supreme Court, with the same judge leading the charge, used as pretext for invalidating the election. But this has not been proven.“ Í lauslegri þýðingu hljóðar þetta svo: „Þá gengur sá orðrómur meðal lög- fræðinga, sem teljast til sérfræðinga í greiningu á lögfræðitextum hvers ann- ars, að einn af dómurum Hæstaréttar, staðfastur flokksmaður áður en hann var skipaður dómari og þá tekinn fram fyrir þrjá hæfari umsækjendur sam- kvæmt áliti nefndar sem mat umsækj- endur, hafi lagt drög að einni af kær- unum sem Hæstiréttur, undir forystu sama dómara, nýtti sem átyllu til að ógilda kosningarnar. Ekki hafa þó verið færðar sönnur á þetta.“ Það er ljóst af text- anum að þessu skeyti prófessorsins er beint að mér. Í því felst aðdróttun um að ég hafi gróflega misfarið með vald mitt sem dómari við Hæsta- rétt Íslands með því að semja fyrst með leynd kæruskjal til réttarins og stjórna síðan afgreiðslu þess. Framferðið sem dylgjað er um að ég hafi viðhaft er áreiðanlega refsivert og hlyti ef satt reyndist að varða embættismissi. Hér má raunar einnig greina dylgjur sem beinast að hinum dómurunum því þeir eru sagðir hafa notað „átyllu“ (pretext) til að komast að niðurstöðu. Í vorhefti Skírnis, sem nýlega kom út, birtist svo grein prófessorsins á ís- lensku í styttri útgáfu. Þá víkur svo við að höfundurinn fellir úr henni fram- angreindar dylgjur um mig. Svo er að sjá sem hann hafi brostið kjark til að hafa þær uppi svo nálægt augum al- mennings á Íslandi. Hann birtir sem sagt opinberlega ærumeiðingar en heldur að sá sem fyrir verður muni lík- lega ekki sjá þær eða að minnsta kosti láta framferðið óátalið þar sem ummæl- in eru ekki birt á hefðbundnum vett- vangi fyrir umræður um þjóðfélagsmál á Íslandi. Þessi höfundur verður líklega seint sakaður um hugrekki. Það er auðvitað álitamál hvort ástæða sé til að eltast við þá lágkúru sem þessi skrif eru. Framhjá því verður hins vegar ekki litið að hér heldur á penna prófessor við Háskóla Íslands, sem hlýtur að teljast vísindamaður, því aðrir fá varla slík embætti eða ættu að minnsta kosti ekki að fá þau. Sjálfur gerir hann kröfu um að vera tekinn al- varlega í umræðum um þjóðfélagsmál, mætir í umræðuþætti og skrifar blaða- greinar. Er meira að segja svo að sjá að ýmsir taki orðræður hans alvarlega. Kannski treystir hann á að ég geti ekki stöðu minnar vegna borið hönd fyrir höfuð mér? Sé það rétt verð ég að valda honum vonbrigðum. Maður sem starfar sem dómari við Hæstarétt hefur ekki afsalað sér rétti til að bregðast við köp- uryrðum og meiðingum sem beint er að persónu hans. Skárra væri það nú. Það standa að mínu mati sterk rök til þess að láta ekki svona skrifum ósvar- að. Sé það gert er hætt við að skrifarar muni fyllast sjálfumgleði og telja að þeir muni framvegis komast óáreittir upp með ærumeiðingar sínar og þá meðal annars brigsl um að dómarar misbeiti valdi sínu vísvitandi til að skaða menn. Slíkt gæti líka haft þau áhrif að almennar umræður um lands- málin færu meira en áður að einkennast af lágkúru sem þessari, þó að þegar sé af ýmsu að taka á þeim vettvangi. Ég lít því svo á að þeim, sem verða fyrir barðinu á rakalausum áburði af því tagi sem prófessorinn reiðir fram, beri skylda til að bregðast við. Sú skylda hvílir nú á mér. Henni má ég ekki bregðast. Ég hef því ákveðið að stefna honum fyrir dómstóla í því skyni að draga hann til ábyrgðar á orðum sínum. Hef ég þá í hyggju að gera á hendur honum fyllstu kröfur sem lög leyfa, bæði um refsingu, miskabætur og máls- kostnað. Kannski kunna svona djarf- hugar ekki að meta annað betur en að fá að bera fulla ábyrgð á gjörðum sínum og orðum eftir þeim lagareglum sem gilda í landinu. Ef allt væri með felldu ættu ummælin hreinlega að hafa verið borin fram á þeirri forsendu. Hug- rakkur höfundurinn ætti því að fagna þessum tíðindum. Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson »Ég hef því ákveðið að stefna honum fyrir dómstóla í því skyni að draga hann til ábyrgðar á orðum sínum. Jón Steinar Gunnlaugsson Höfundur er dómari við Hæstarétt Íslands. Úr heimi vísindanna Á Alþingi fer nú fram umræða um Vaðlaheiðargöng. Í seinni tíð hef ég gerst gagnrýninn á þá framkvæmd vegna þess að áhöld eru um að forsendur hennar standist og síðan hitt að tillögur eru um að flýta Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum og óheppi- legt er að vinna að tvennum göng- um í einu. Aðkoma mín að þessum málum hefur fléttast inn í umræð- urnar á þingi og hafa söguskýr- ingar sumra þingmanna verið harla misvísandi. Vil ég því gera grein fyrir mál- inu eins og það blasir við frá mínum bæjar- dyrum. Sagan rakin Vaðlaheiðargöng hafa mikið komið við sögu á Alþingi, bæði í umræðu auk þess sem fjár- munum hefur verið varið í undirbúning. Það eitt og sér markar Vaðlaheiðargöngum enga sér- stöðu því þannig er háttað um allar meiriháttar framkvæmdir. Í aðdraganda þeirra er ráðist í rannsóknir sem oft eru kostnaðarsamar, gerðir samningar við landeigendur, búið í haginn fyrir útboð og svo framvegis. Vorið 2008, nánar til- tekið 29. maí, var samþykkt á Alþingi þings- ályktun um viðauka við fjögurra ára samgöngu- áætlun fyrir árin 2007-2010. Þar segir: „Gert er ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði byggð í einkaframkvæmd með veggjöldum. Göngin verði þó fjármögnuð að hálfu úr ríkissjóði með jöfnum árlegum greiðslum eftir að fram- kvæmdatíma lýkur árið 2011 í 25 ár.“ Þetta var fyrir hrun. Eftir hrun kemur annað hljóð í strokkinn. Framkvæmdafé til samgöngumála skreppur saman um helming og fyrri fram- kvæmdaáætlanir verða að engu. Var nú farið að leita nýrra leiða vegna Vaðlaheiðarganga. Þær gengu út á að láta notendur veganna borga beint fyrir framkvæmdir sem menn voru áfjáðir í að koma í framkvæmd með hraði. Vildu menn komast fram fyrir í framkvæmdaröð samgöngu- áætlunar þá yrðu notendur viðkomandi fram- kvæmdar að borga brúsann að fullu. Hinn 15. júní 2010 er samþykkt á Alþingi þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012 þar sem byggt var á þessu. Í greinargerðinni seg- ir: „Vegna stöðu efnahagsmála og alvarlegrar stöðu ríkissjóðs hefur að undanförnu verið rætt um að- komu lífeyrissjóðanna eða annarra fjárfesta að fjármögnun vegafram- kvæmda auk annarra fram- kvæmda í landinu. Forsendur að- komu lífeyrissjóðanna eru einkum þær að sjóðirnir fái viðunandi arð af fjárfestingum sínum og fjárfest- ingarnar séu þjóðhagslega arð- bærar. Jafnframt liggur fyrir að ríkissjóður hefur takmarkað svigrúm til að auka fjárfestingar sínar. Þetta þýðir að auknar fram- kvæmdir verður að framkvæma með veg- gjöldum. Eftirtaldar framkvæmdir hafa verið skoðaðar í tengslum við aðkomu lífeyrissjóð- anna.“ Síðan eru talin upp verkefni sem tengj- ast tvöföldun vega á suðvesturhorninu og svo Vaðlaheiðargöng. Arðsemisrýnar að verki Frá því er skemmst að segja að samn- inganefnd lífeyrissjóðanna komst fljótlega að því að aðgreina bæri Vaðlaheiðargöng frá fram- kvæmdum á suðvesturhorninu því göngin væru að þeirra mati ólíkleg til að vera arðvænleg fjár- festing. Öðru máli gegndi um suðvesturhornið. Þannig var málum háttað þegar ég tók við sem samgöngumálaráðherra haustið 2010. Ég hafði aldrei verið í hópi þeirra sem hrifnir voru af einkaframkvæmd og vegatollum. En ég var hins vegar í hópi þeirra sem höfðu samþykkt þetta ráðslag og því ekki um annað að ræða en fylgja málinu eftir. En þá yrði það líka gert á þeim for- sendum sem ákveðnar höfðu verið. Í janúar 2011 sat ég fund á Akureyri þar sem allir, sem aðkomu eiga að Vaðlaheiðargöngum, lýstu því yfir að þeir vildu ótrauðir halda áfram með fyr- irtækið sem einkaframkvæmd, sem kæmi til með að verða sjálfsfjármagnandi. Ég tók vel í það. Einnig sunnan heiða var nú fljótlega farið að efna til funda um framkvæmdir þar. Að mínu frumkvæði var boðað til funda með sveit- arstjórnarmönnum og þingmönnum um fram- kvæmdir sem fjármagna skyldi með vegatoll- um. En nú var afstaðan breytt. Menn kváðust ekki reiðubúnir að fjármagna framkvæmdirnar að fullu með vegatollum en hugsanlega að hluta til. Ég sagði að ef svo væri þyrftum við að skoða málin á nýjan leik. Forsenda þess að taka þess- ar framkvæmdir út úr samgönguáætlun væri sú að þær yrðu að fullu fjármagnaðar með veg- gjöldum. Á endanum stóð ég nánast einn og varði vegatolla en aðrir töluðu fyrir alls kyns blöndum, til dæmis að lögð yrðu veggjöld á öll jarðgöng í landinu. Þeir sem þannig mæltu fengu síðar góðan liðsauka í talsmönnum vinnu- markaðar sem vildu ólmir framkvæma á kostn- að notenda – en eins og svo oft áður – að þeim forspurðum. Félag íslenskra bifreiðaeigenda af- henti mér í þessu umræðuferli, í janúar 2011, undirskriftalista 43 þúsund einstaklinga sem mótmæltu að framkvæmdirnar yrðu fjármagn- aðar með vegatollum. Atvinnurekendur á Suð- urlandi höfðu samband við mig til að árétta að Samtök atvinnulífsins töluðu ekki fyrir þeirra hönd þegar þeir vildu framkvæmdir sem kost- aðar yrðu með sérstökum gjöldum, það er nóg komið af álögum á umferðina, sögðu þeir. Á endanum var þetta slegið af en allar þessar framkvæmdir eru hins vegar inni í samgöngu- áætlun og nú hillir undir að hægt verði að hraða þeim – en á réttum og faglegum forsendum! Varnaðarorð Víkur nú aftur sögunni að Vaðlaheið- argöngum. Þar heldur undirbúningur áfram en nú kemur að því að umhverfis- og samgöngu- nefnd Alþingis vill fá að kynna sér málið og er efnt til opins fundar 25. mars 2011 og síðar aftur 7. nóvember. Ég sat báða þessa fundi. En strax á fyrri fundinum kom fram alvarleg og vel rök- studd gagnrýni á forsendur verkefnisins. Bæði þá og í framhaldinu áréttaði ég við alla hlut- aðeigendur að framkvæmdin væri skilyrt. Í bréfi sem ég skrifaði til Vegagerðarinnar og fjármálaráðuneytis 8. júní 2011 segir að afstaða ráðuneytisins til Vaðlaheiðarganga sé óbreytt, jákvæð en „að því grundvallarskilyrði sé full- nægt að ætla megi að framkvæmdin verði rekstrarlega sjálfbær“. Í tillögu til þingsálykt- unar um samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022, sem lögð var fram á Alþingi í desember 2011 og ég mælti síðan fyrir í byrjun þessa árs, segir að gert sé ráð fyrir að jarðgöng verði fjármögnuð af ríkissjóði utan markaðra tekjustofna til Vegagerðar, „…að undanskildum Vaðlaheið- argöngum sem eiga að öllu leyti að fjármagnast af veggjöldum … Vaðlaheiðargöng eru ekki inni í þessari forgangsröðun en stofnað hefur verið um þau sérstakt félag sem annast framkvæmd- irnar og innheimta á veggjöld til að standa straum af framkvæmdakostnaði ef af verður“. Í umræðunni um Vaðlaheiðargöng hafa menn komið víða við. Þeir sem vilja forðast þessa um- ræðu vísa gjarnan í þjóðhagslegan ávinninng og hve góð samgöngubót göngin yrðu og margt annað er tínt til. Þetta er hins vegar óskyld um- ræða. Hún á vissulega rétt á sér en þá í sam- hengi samgönguáætlunar þar sem fram- kvæmdir eru vegnar og metnar með tilliti til þessara þátta í samanburði við aðrar sam- göngubætur sem einng hafa jákvæð áhrif. Enn er að nefna varnaðarorð sérfræðinga sem segja að óhyggilegt sé að hafa tvenn göng í fram- kvæmd í einu, betra sé að láta ein jarðgöng fylgja fast á eftir öðrum. Hitt kalli á meira er- lent vinnuafl og torveldi stjórnun og eftirlit en það geti haft töluverð áhrif á endanlegan kostn- að. Nú hefur verið ákveðið að freista þess að flýta Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum. Það hlýtur að skipta máli þegar menn tímasetja Vaðlaheiðargöng sem annars hefðu verið ein í framkvæmd meðan beðið væri eftir fjármagni af samgönguáætlun í hin göngin. Nú ræðir eng- inn lengur um að setja Vaðlaheiðargöng í einka- framkvæmd – því eftir því er ekki eftirspurn á markaði – heldur sem ríkisframkvæmd. Gert er ráð fyrir að afla framkvæmdafjár með lántökum ríkissjóðs þar til göngin verða að fullu komin í rekstur en þá verður „leitað leiða“ til að afla lánsfjár á markaði. Um allt þetta vil ég að lokum segja eftirfarandi: Allar forsendur taka breyt- ingum og okkur ber að horfa til þess. Það á við um ráðherra, ríkisstjórn og Alþingi sem hefur fjárveitingarvaldið á hendi. En þessa fram- kvæmd sem og aðrar fjárfrekar framkvæmdir ber að ræða á réttum forsendum. Eftir Ögmund Jónasson »Nú ræðir enginn lengur um að setja Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd – því eftir því er ekki eftirspurn á markaði – heldur sem ríkisframkvæmd. Ögmundur Jónasson Höfundur er innanríkisráðherra. Forsendur Vaðlaheiðarganga

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.