Morgunblaðið - 30.05.2012, Side 38
38 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. MAÍ 2012
Jón Agnar Ólason
jonagnar@mbl.is
Tónleikar Yanns Tiersens eru á dag-
skrá Listahátíðar og víst er að marg-
ir bíða þess með óþreyju að hann
stígi á svið. Tiersen á fjölmarga
aðdáendur hér á landi, líkt og annars
staðar, og flestir komust þeir á
bragðið við hlustun á tónlist hans við
kvikmynd Jean-Pierre Jeunet frá
árinu 2001, Le Fabuleux Destin d’
Amélie Poulain, eða bara Amélie.
Aðspurður segir Tiersen að vel-
gengni Amélie, tónlistarinnar sem
og kvikmyndarinnar sjálfrar, hafi
komið sér í opna skjöldu. „Eiginlega
botnaði ég ekki mikið í því hvaða at-
hygli platan sú fékk því þetta var
ekki einu sinni frumsamin músík
heldur mestanpartinn samtíningur
af eldri plötum mínum. Með aðstoð
hljóðsarps var hægt að laga lögin að
stemningu myndarinnar og það
gekk upp, ef marka má viðtök-
urnar.“
Lítt spenntur fyrir
kvikmyndatónlist
Tiersen lætur sér annars fátt um
finnast og segist engar áhyggjur
hafa haft af því að festast í kvik-
myndatónlist með kaffihúsaívafi, í
kjölfar vinsælda Amélie. „Ég er al-
mennt ekkert sérstaklega spenntur
fyrir því að semja sérstaklega fyrir
kvikmyndir. Það kallar á að binda
tónlistina efnislega við eitthvað
fyrirfram ákveðið, á meðan ég sé
tónlist almennt fyrir mér sem eitt-
hvað abstrakt og algerlega óhlut-
bundið - tónlistin mín er bara til
sjálfrar sín vegna, ekki af því að hún
þurfi að styðja við eitthvað annað
eða undirstrika það. Mér líður ekk-
ert sérstaklega vel með tilhugsunina
um tónlist við kvikmyndir, þegar
tónlistin er bundin við fyrirfram
tilbúið myndmál og sleppur ekki frá
því.“ Tiersen segir að þó að honum
hafi þótt ágætlega takast til við að
fanga stemningu myndarinnar hafi
hann verið því fegnastur að geta í
kjölfarið snúið sér aftur að því að
búa til tónlist á sínum forsendum, að
sinna sköpun eins og honum finnst
hún eiga að vera.
- Varstu þá ekki beðinn um að
gera meira af svo góðu, þar eð tón-
listin seldist svo gríðarvel?
„Nei, fólk hafði vit á því að vera
ekki að biðja mig um slíkt. Enda
hefði ég kýlt viðkomandi kaldan!“
Enga París fyrir mig, takk
Tiersen er hress í bragði og það
kjaftar á honum hver tuska. Þó
þykknar lítir eitt í honum við Amé-
lie-umræðuna. Hann tekur skýrt
fram að það hafi verið honum kapps-
mál að fá ekki varanlegan Amélie-
stimpil á sig. „Ég meina, ég er ekki
einu sinni frá París svo það er ekkert
vit í að tengja mig við einhverja
kaffihúsastemningu þar í borg. Ég
er bara venjulegur gaur frá Bre-
tagne-skaga og einhver klisjukennd,
glamúrslegin kaffihúsastemning frá
París er mér gersamlega óviðkom-
andi. Hún fer hreinlega í taugarnar
á mér. Mér þykir ekkert sérstaklega
til franskrar menningar koma, ef ég
á að vera hreinskilinn, og síst af öllu
kann ég að meta París í því sam-
bandi.“
Ken Thomas er maðurinn
Á nýjustu plötu Tiersens, Skyline,
sem og á undanförnum plötum hans,
sér Ken nokkur Thomas um hljóð-
blöndunina, sá hinn sami og einatt
hefur vélað um plötur Sigur Rósar.
Hvers vegna var hann rétti mað-
urinn fyrir tónlist Yanns Tiersens?
„Það er eiginlega hið eina rökrétta í
stöðunni. Ég hef alltaf dáðst að því
hvernig hann hljóðblandar raddir,
og finnst andrúmsloftið sem hann
skapar einfaldlega óviðjafnanlegt.
Tónlistin verður lagskipt, áferðin
margbreytileg og þannig vil ég hafa
það. Ken er bara fullkominn maður í
djobbið.“ Þá má geta þess að meðal
gesta á nýju plötunni er sveitin
Efterklang, sem meðal annars tekur
okkar eigin Hildi Ársælsdóttur. „Við
vorum búin að vera í sambandi um
hríð, ég og hljómsveitin. Mér fannst
hljómurinn þeirra flottur og langaði
að reyna að gera eitthvað svipað
með textum.“
Óvissuferð í sköpun
Tiersen er þegar byrjaður að
hugsa upp og vinna efni fyrir næstu
plötu. Hvaðan kemur honum inn-
blásturinn í næsta verkefni? „Ég
skal ekki segja, ég vinn þetta bara
eins og venjulega. Oft stilli ég bara
upp hljóðnema, byrja að impróvísera
og sé hvert það leiðir mig. Stundum
fæðist lítil hugmynd sem getur orðið
að lykkju í undirspil - stundum opn-
ast eitthvað og heilt lag sprettur
fram. Eins og ég nefndi er tónlistin
óhlutbundin fyrir mér, öfugt við
tungumál, og mér finnst best að vita
ekkert um það hvað gerist næst.“
„Tónlist mín er abstrakt og á að
vera án allra myndrænna tenginga“
Venjulegur „Ég er bara venjulegur gaur frá Bretagne-skaga og einhver klisjukennd, glamúrslegin kaffihúsastemn-
ing frá París er mér gersamlega óviðkomandi. Hún fer hreinlega í taugarnar á mér,“ segir Tiersen.
Franski tónlistarmaðurinn Yann Tiersen með tónleika á morgun í Norðurljósasal Hörpu
Arna Valsdóttir leiðir gesti um sýn-
ingu sína sem nefnist …brotabrot-
…oggolítill óður til kviksjárinnar í
Gerðubergi í dag kl. 17.30.
Arna nam myndlist við MHÍ og
Jan van Eyck academie í Hollandi
þaðan sem hún lauk námi 1989. Frá
þeim tíma hefur Arna unnið marg-
vísleg rýmisverk og gjörninga, gert
tilraunir með eigin söngrödd sem
hluta af innsetningum, unnið víd-
eóverk og um tíma vann hún radd-
teikningar fyrir útvarp. Á árunum
2004-2009 ferðaðist hún um með
gagnvirkt verk sem hún nefndi Ég
er ögn í lífrænni kviksjá og setti
það upp í margvíslegum rýmum,
m.a. í Garðskagavita, á Nýlistasafn-
inu og í Hafnarfjarðarleikhúsinu,
en einnig í skólum og á ráðstefnum.
Sýning Örnu í Gerðubergi er
myndbands- og hljóðinnsetning
sem er hluti af sýningaröðinni Stað-
reynd og er þetta fimmta verkið í
þeirri röð. Heiti sýninganna vísa í
að Arna vinnur með tiltekið rými
eða hús, reynir að hlusta eftir eig-
inleikum þess og þeim áhrifum sem
hún verður fyrir. Í Gerðubergi vís-
ar Arna í gamlar minningar sem
leituðu hana uppi frá þeim tíma
þegar hún vann þar með Kviksjána.
Hún endurbyggði verkið í spegla-
salnum og vann þar þau tvö mynd-
bandsverk sem hún nú sýnir í saln-
um á efri hæðinni.
Leiðsögn Örnu Valsdóttur í Gerðubergi
Brotabrot Hluti af verki Örnu.
Frímann Sveinsson, matreiðslumeistari
frá Húsavík, opnar myndlistasýningu í
kaffihúsinu Nesbæ í Neskaupstað laug-
ardaginn 2. júní. Sýndar verða 25
vatnslitamyndir sem flestar eru mál-
aðar á þessu ári. Frímann hefur sótt
nokkur námskeið í vatnslitamálun og
haldið þó nokkrar einkasýningar á
undanförnum árum. Sýningin verður
opin í júní á opnunartíma kaffihússins.
Frímann Sveinsson sýnir í Nesbæ
Málar Frímann Sveinsson.
VORUM AÐ FÁ LOFTNET FYRIR
FERÐABÍLA, HJÓLHÝSI
OG FELLIHÝSI.
Þar sem að gervihnattabúnaðurinn fæst
Auðbrekku 3 ~ 200 Kópavogur ~ Sími: 564 1660 ~ oreind.is