SunnudagsMogginn - 16.09.2012, Blaðsíða 10

SunnudagsMogginn - 16.09.2012, Blaðsíða 10
10 16. september 2012 Ella Ö, eða Ellu eyju, er að finna á um það bil miðri aust-urströnd Grænlands austur af Stauning Ölpunum.Thorvald Stauning var forsætisráðherra í Danmörku ísamtals hálfan annan áratug á fyrri hluta síðustu aldar og segir það sína sögu frá fyrri tíð að nær allt Grænland er heitið í höfuð á dönskum forsætisráðherrum, kóngum, drottningum, prinsum og prinsessum. Á þessu er hins vegar smám saman að verða breyting með tilkomu staðarheita á grænlensku. En það er önnur saga. Á Ellu eyju var ég staddur ásamt Þórunni Hafstein, skrif- stofustjóra í innanríkisráðuneytinu, síðastliðinn miðvikudag ásamt fulltrúum frá Danmörku, Kanada, Noregi og Rússlandi að fylgjast með fjölþjóðlegri björgunaræfingu. Í æfingunni tóku þátt áhafnir á dönskum og íslenskum varðskipum, þarna var hið glæsilega varðskip okkar Þór og flugvél Landhelgisgæslunnar, Sif, kom einnig við sögu. Kanadískum fallhlífarmönnum var varpað niður á svæðið úr flugvél og íslenskar hjálparsveitir fjölmenntu. Ég heimsótti búðir þeirra í Meistaravík, sem er í tæplega hundrað kílómetra fjarlægð frá Ellu eyju þar sem slysið var sviðsett um borð í „farþegaskipi“. Íslenska hjálparfólkið var úr alþjóðasveit- um Slysavarnafélagsins Landsbjargar og var eftirtektarvert hve fagmannlega það bar sig að. Látið var sem mannskæð sprenging hefði orðið á skipinu og voru hinir slösuðu fluttir úr því og yfir til Meistaravíkur og síðan áfram til Íslands. Hér á landi hafði al- mannavarnakerfið allt verið virkjað til þátttöku. Og er þá komið að kjarna máls: Hlutdeild Íslands í hjálparstarfi á norðurslóðum. Um það er rætt hvort á Íslandi eigi að verða mið- stöð – ein af mörgum – fyrir björgunarstarf í þessum heimshluta. Í mínum huga er augljóst að svo þarf að vera. Fjarlægðir segja allt sem segja þarf. Þótt slysstaðurinn sé fyrir miðri austurströnd Grænlands er hann 200 kílómetrum norðar en nyrsti oddi fasta- lands Noregs. Frá Ellu eyju er 3.700 kílómetra loftlína til Halifax í Kanada sem er næsta borg í vestri utan Grænlands sem tekið gæti við fjölda slasaðra. Til Nuuk, höfuðstaðar Grænlands, er loftlínan 1.500 kílómetrar en siglingaleiðin 3.000 kílómetrar. Til Bodö í Noregi eru 1.600 kílómetrar, 1.300 kílómetrar til Þórshafnar í Færeyjum en aðeins 900 kílómetrar til Reykjavíkur og enn styttra til Akureyrar. Á norðurslóðum eru miklar víðáttur – stærsta sveitarfélag Grænlands er stærra en Frakkland! Það gefur auga leið að þegar staðsetning björgunarstöðva verður ákvörðuð verður spurt um minnstu fjarlægðir til að sækja hjálp og á þessum slóðum er það augljóslega Ísland. Ef ef við færum okkur austar, á Jan Mayen- svæðið og síðan yfir til Svalbarða yrðu aðrir staðir fyrir valinu og enn austar tæki síðan Rússland við og svo koll af kolli. Þessu gera allar norðurskautsþjóðirnar sér grein fyrir enda undirrituðu þær samning á síðasta ári um samstarf í björgunar- málaum. Þessi æfing var hluti af slíkum áformum. Það er ekki seinna vænna því eftir því sem ísinn hopar færast siglingar í aukana. Á þeim slóðum sem æfingin var, munu engar siglingar hafa verið fyrir aðeins örfáum árum. Ég heyrði því fleygt að nú allara síðustu ár hafi um 60 til 70 skip árlega farið um þetta svæði. En tilhneigingin er öllum augljós: Siglingar eru að aukast og þar með verður að gera ráð fyrir því að eitthvað fari úrskeiðis þannig að kalla þurfi á hjálp. Verulega traustvekjandi var að fylgjast með æfingunni. Að því marki sem hægt var að koma tækninni við þá var hún nýtt til hins ýtrasta. Dæmi um það var að Kanadamenn létu ekki sitja við það eitt að senda björgunarfólk úr háloftunum heldur vörpuðu þeir einnig mælingatækjum í sjóinn þar sem hið laskaða fley var. Frá þessum mælingatækjum voru send boð upp í gervihnött og þaðan til höfuðstöðva bandarísku strandgæslunnar í Boston sem vann úr merkjasendingunum og kom þeim að því búnu á framfæri við björgunarfólkið á vettvangi. Þetta voru m.a. upplýsingar um strauma í sjónum þannig að björgunarfólk gæti áttað sig á hvert fleyið kæmi til með að reka ef hafstraumarnir hrifu það með sér. Hópnum sem hafði verið boðið að fylgjast með æfingunni var farsællega skilað til Akureyrar af flugmönnum Nordlandair klukkan 11 að kvöldi eftir um það bil 18 tíma ferðalag. Þessi ferð var afar lærdómsrík. Bæði var fróðlegt að koma á þessar norðlægu slóðir í Grænlandi og síðan sannfærast að fullu um mikilvægi þess að Íslendingar taki af alefli þátt í uppbyggingu björgunarstarfs á norðurslóðum. Björgunarstarf og víðáttur norðursins Úr ólíkum áttum Ögmundur Jónasson ogmundur@althingi.is 5.00 Vekjaraklukkan hringir og ég dríf mig fram úr rúminu. Fæ mér strax lýsi á fastandi maga. Blíða, heimiliskötturinn, fer þá út að viðra sig á meðan ég tek mig til fyrir daginn. Síðan fæ ég mér Herbalife hristing í morgunmat með frosnum jarðarberjum, bláberjum og banana, blandað saman við hrísmjólk og All bran. Ég geri tvo hristinga í einu, fer með einn með mér í vinnuna. Ég les blöðin á meðan ég borða morg- unmatinn og skola vítamínunum niður með vatnsglasi. Tek svo til gott nesti fyrir daginn. 5.45 Kalla ég í Blíðu kisuna mína, hleypi henni inn og gef henni matarskammtinn fyrir daginn. Dríf mig svo út á stoppistöð, þar sem strætó sækir mig klukkan 5.50 Ég nenni ekki að standa í því að fara á bílnum í vinnuna, það er allt of mikið vesen. Fer bara á bílnum ef ég þarf að útrétta. Ég byrja á því að spjalla við vinnufélagana, það er oft hlegið mikið og fíflast eldsnemma að morgni. 6.20 Byrjar vinnan. Ég keyri þá leið sem mér er ætlað þann daginn. Mikil umferð er á morgnana og seinnipart dags, þegar fólk er á leiðinni í skólann og vinnuna. Það er mikill munur eftir að forgangsakreinarnar og forgangsljósin komu fyrir strætó. Mér tekst nán- ast alltaf að halda áætlun í umferðinni, (nema þegar vagn bilar eða umferðaróhapp verður). Þá er ekkert hægt að gera annað en að vera róleg, keyra sig inn á rétta leið og á réttan tíma. Ég kann vel við að aka strætisvagni, ég er á ferð- inni allan daginn. Í vagninn kemur öll flóra fólks. Farþegarnir eru oftast mjög kurteisir og elskulegir. Flestum finnst yndislegt að fá kvenmannsvagn- stjóra. Ég reyni að veita öllum farþegunum bestu þjónustu sem völ er á, þátt fyrir miklar annir. 15.00 Vinnudeginum lýkur. Ég fer beint í rækt- ina eftir vinnu, sund eða geng á fjöll. Fer síðan heim og elda góðan mat fyrir börnin mín, Ívar 18 ára, Karen 19 ára, og Aron, kærasta Karenar 19 ára. Svo slakar ég á á kvöldin, fæ mér gott lesefni eða horfi á sjónvarpið. 22.00 Svefntími. Dagur í lífi Ingu Hildar Þórðardóttur strætisvagnastýru Inga Hildur greiðir leið borgarbúa um höfuðborgarfrumskóginn. Morgunblaðið/Ómar Í vagninn kemur öll flóra fólks Ég benti á það í öðru bindiævisögu Halldórs Kiljans Laxness 2004, að sögulok í Heimsljósi eru mjög lík og í einni kunnustu smásögu Einars H. Kvarans, „Vonum“. Ólafur Kárason Ljósvíkingur hverfur upp í íslenska jökulinn, eftir að hann lendir í ástarsorg, eins og Ólafur Jónsson vinnumaður hverfur á sléttuna í Kanada, þeg- ar hann fær ekki stúlkunnar, sem hann ætlaði að hitta þar vestra. „Sléttan ómælilega, endalausa, sem er full af friði og minnir á hvíldina eilífu.“ Í báðum sögum er gefið í skyn, að söguhetjan hafi stytt sér aldur. En sögulok í annarri íslenskri skáldsögu minna á erlent verk. Hinni miklu skáldsögu Önnu Karenínu eftir rússneska skáld- jöfurinn Lev Tolstoj lýkur svo (8. hluti, 19. k.): „En líf mitt hefur nú, hvað sem mun bera mér að höndum, öðlast tilgang, sem það var áður án. Ekki aðeins líf mitt sem heild, heldur einnig sérhver stund þess, hefur nú öðlast ótví- ræðan tilgang, — tilgang í þjón- ustu hins góða. Og nú á ég það undir sjálfum mér, ætíð og alls staðar, að gefa lífi mínu þennan tilgang.“ Gunnar Gunnarsson lýkur svo Aðventu, sem er ein kunnasta saga hans (Fimm fræknisögur, bls. 12): „Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin þjónusta sem helgaðist af bið eft- ir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.“ Í Heimsljósi og Vonum bíður söguhetjan ósigur og hrökklast inn í sjálfa sig, verður að engu. Önnu Karenínu og Aðventu lýk- ur hins vegar báðum á því, að brýnt er fyrir lesendum, að til- gangur lífsins sé að láta gott af sér leiða, þótt ekki hafi allir skilning á því og þurfi oft að öðlast hann með sárri lífsreynslu. Þetta kem- ur ekki á óvart. Tolstoj var mjög áhrifamikill höfundur, þá er Gunnar Gunnarsson var að stíga fyrstu skref sín út á skáldskap- arbrautina, og margt er líkt með skoðunum þeirra á eðli og til- gangi lífsins. Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar Hannes H. Gissurarson hannesgi@hi.is Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð Tolstoj og Gunnar Gunnarsson

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.