SunnudagsMogginn - 16.09.2012, Blaðsíða 29

SunnudagsMogginn - 16.09.2012, Blaðsíða 29
16. september 2012 29 ég var meira og minna alin upp af þeim. Þótt afi hafi ekki verið blóðafi minn vorum við afar náin og ég var föst utan um hálsinn á honum. Það fékk enginn að komast upp á milli okkar, hvorki leyfði hann það eða ég. Hann reiddist mér aldrei. Um helgar þegar hann var á vakt á fréttastofu Útvarpsins fór ég oft með honum í vinnuna og þá keypti afi alltaf flösku af maltöli handa mér. Ég fékk svo að sitja inni hjá honum í hljóðstofunni þegar hann las fréttirnar og varð að passa upp á að hreyfa hvorki legg né lið á meðan. Hann var einkar heiðarlegur maður og góður í sér. Hann hafði sterkar skoðanir en fór vel með þær. Hjónaband þeirra ömmu var einstaklega farsælt, ég man ekki eftir að hafa séð betra hjónaband. Afi sagði alltaf við ömmu þegar hann talaði til hennar „missis mín“ en að mestu leyti ræddu þau saman á þýsku. Amma var afskaplega hænd að mér og ég að henni. Hún talaði stöku sinnum um fortíð sína, sérstaklega eftir að hún eltist. Það hvíldi á henni að vita ekki hvað varð af Siegbert, bróður sínum. Á sínum tíma kom amma nánast allslaus til Ís- lands. Fyrir þann tíma hafði hún flust til Medellin í Colombiu ásamt Robert Goldstein eiginmanni sín- um. Þar sem þau tóku við rekstri glæsilegs hótels í Medellin. Eftir nokkurra ára veru þar skildu hjónin og amma fór aftur til Berlínar ásamt drengnum litla. Eftir einhvern tíma við störf í Berlín hafði hún tilfinningu fyrir því að allt væri að stefna í óefni og ákvað að reyna að koma sér og sínum í burtu. Mér hafði hún einhvern tíma sagt að þegar hún kom hingað til Reykjavíkur með Gullfossi og upplifði staðinn í fyrsta skipti hafi hún fengið menning- arsjokk. Amma var vel menntuð og heimskona og lét sér yfirleitt ekki allt fyrir brjósti brenna. Hún gerði það sem þurfti til að lifa af, en það gerði hana líka dálít- ið harða, en oft brotnaði skelin og þá fann maður ljúfmennskuna sem hún bjó yfir. Ég ólst upp við mikið knús frá afa og líka frá ömmu. Ég held að allt þetta knús hafi gert mér heilmikið gott og ég yfirfæri það ásamt manninum mínum á börnin og barnabörnin. Við erum knús- fjölskylda og það er bara gott. Pabbi gat verið mikill knúsari, elskaði mig en hann var gríðarlega mikill skapmaður og beitti mig járnaga. Hann gat líka refsað ansi harkalega.“ Heimsókn í fangabúðir Pétur faðir þinn missti föður sinn á stríðsárunum í fangabúðunum í Auschwitz. Leit hann á Hendrik Ottósson fösturföður sinn sem pabba? „Pabba þótti mjög vænt um Hendrik. Hann var hins vegar ekki mjög hændur að ömmu sinni Minnu sem var einkar ströng kona og að auki strangtrúuð. Hendrik afi var límið í fjölskyldunni og var óskaplega góður við okkur öll. Hann var mikill tungumálamaður og hann fann fljótt að ég átti frekar létt með að læra tungumál og hann kenndi mér hebresku. Síðar lærði ég hebreskuna betur en hef því miður ekki haldið henni við. Afi hafði ríka samúð með gyðingum og var í forsvari fyrir því að þeir kæmu saman hér á landi sem söfn- uður. Fyrsta bar mitzvah athöfnin, gyðingleg ferming, hérlendis var þegar pabbi fékk sína bar mitzvah. Ég held að afi hafi fundið það strax þegar ég var lítil að ég væri gyðingur í mér og honum fannst að ég ætti að fara í heimsókn til Ísrael og kynnast fólkinu mínu þar. Ég er reyndar þannig að þegar ég fer í samkomuhús gyðinga erlendis þá líð- ur mér alltaf eins og ég sé komin heim. Ég fór til Ísraels kringum tvítugsaldur og var þar í eins konar lýðháskóla í rúm tvö ár. Ég kynntist fólki sem hafði setið í fangabúðum nasista og mín niðurstaða er sú að þetta fólk hafi verið mikið skemmt. Það var hörkulegt í framkomu, hafði reist múr milli sín og annarra og sýndi ekki tilfinningar. Það hafði lifað skelfilegar raunir sem hafði markað það og vildi ekki tala um það sem hafði gerst.“ Þú hefur skoðað fangabúðirnar þar sem Sieg- bert var myrtur. Hvernig reynsla var að koma þangað? „Við hjónin skoðuðum fangabúðirnar og það var yfirþyrmandi reynsla. Það er ekki fyrir hvern sem er að skoða svona safn. Svona staður sýnir að mannvonskunni eru engin takmörk sett. Ég fór inn í gasklefann þar sem Siegbert var myrtur en þar er búið að koma upp minnismerki með nöfnum þeirra sem létu þar lífið. Ég fór út og grét. Þegar ég kom heim sendi ég fullorðinni frænku minni í Tel Aviv myndir sem ég hafði tekið í fanga- búðunum og gasklefanum. Hún var búin að biðja mig um myndir úr ferðinni áður en við fórum. Hún svaraði mér afar reiðilega og sagði: Þú skalt aldrei aftur sýna mér neitt svona. Ég vil ekki vita af þessu, ekki sjá neitt af þessu. Ég er orðin gömul kona og vil ekki vera minnt á þetta.“ Þú átt í fórum þínum ýmis skjöl og bréf sem varða fjölskylduna. Hvað ætlarðu að gera við þessa pappíra? „Þetta eru sendibréf, myndir og ýmis önnur skjöl. Í mörgum bréfanna er gamla konan, Minna, að skrifa Siegbert syni sínum sem svarar og segir frá því sem er að gerast á þessum tímum í Þýskalandi og þau hjónin vilja ekki trúa því að slæmir hlutir séu í aðsigi, samt var búið að reka þau úr húsnæð- inu og koma þeim fyrir í einu herbergi sem var staðsett í einhverju þvottahúsi þar sem þau voru látin vinna. Launin voru að mér hefur skilist, að fá að vera í herbergiskytrunni ásamt smávegis vasa- peningum. Mikið af þessum bréfum er skrifað á gamalli þýsku sem ég skil ekki nægilega vel. Síðustu árin var amma byrjuð að lesa minningar sínar inn á segulband og þær spólur eiga að vera til einhvers staðar, þótt ég hafi ekki fundið þær. Ég er nú samt ekki viss um að þar hafi hún náð að koma miklu frá sér þar sem hún var byrjuð að veikjast, og á síðustu spólunum var orðið mjög erfitt að skilja hana, íslenskan og þýskan blönduðust þar saman og það var eins og hún væri búin að skapa sitt eigið tungumál. Þetta er mikið safn sendibréfa og ann- arra pappíra. Amma henti aldrei neinu, það er ósk mín að þetta efni fari á góðan stað og unnið verði úr því. Þetta er heilmikið safn heimilda um líf fjöl- skyldunnar og endurspeglar líka líf fólks á síðustu öld, þar er ekki bara sorg heldur ýmislegt sem get- ur orðið að góðri sögu.“ gyðinga erlendis þá líður mér alltaf eins og ég sé komin heim. Morgunblaðið/Kristinn Hendrik með Magneu Henný. Hendrik Ottósson, Pétur Goldstein, Hildegard Rosenthal, Henný Ott- ósson, Minna og Harry Rosenthal Systkinin, Harry, Henný og Siegbert.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.