SunnudagsMogginn - 16.09.2012, Blaðsíða 14

SunnudagsMogginn - 16.09.2012, Blaðsíða 14
14 16. september 2012 Þetta er meira veðrið,“ segirBaltasar Kormákur og sest íhornsófann á 101 Reykjavík.Nýkominn frá kvikmyndahá- tíðinni í Toronto þar sem Djúpið var frumsýnt. Þar áður var hann sex mánuði í New Orleans og Nýju-Mexíkó að leik- stýra stórmyndinni 2 Guns. Úr sólinni í fréttir af bændum að grafa upp kindur úr snjónum norður í landi. – Hvernig hefurðu það? „Bara fínt,“ svarar hann afslappaður og brosir í gegnum skeggið. Erfiðar tökur á hafi En fyrst að Djúpinu. Það kom fram í lof- samlegri gagnrýni Screen Daily í Toronto að mynd Baltasars Kormáks hefði fengið firnagóð viðbrögð hjá áhorfendum – jafnt hjá almennum sýningargestum sem al- varlega þenkjandi fagurkerum – og því mætti spá henni velgengni. Hún verður forsýnd hér á landi á hátíðarsýningu í dag og frumsýnd um næstu helgi. „Svo er ég farinn aftur út til að klippa 2 Guns,“ segir Baltasar. Í gagnrýni Hollywood Reporter kom fram að í fyrri hluta myndarinnar væru nokkur sláandi raunsæ atriði sem gerðust á sjó og jöfnuðust á við það besta úr smiðju James Cameron og Wolfgang Pet- ersen. „Það var virkilega erfitt að taka úti á hafi,“ segir Baltasar. „Ég athugaði með tanka, því myndir eru yfirleitt teknar í þeim, en þá verða öldurnar svo tilgerð- arlegar. Ég held að Íslendingar myndu ekki falla fyrir slíku bulli hér í Norður- Atlantshafi. Og svo fór að við tókum allt upp á sjó. Við vorum í fleiri vikur með tökuvélarnar úti á hafi og Ólaf Darra [Ólafsson] syndandi. Ég þurfti að synda með honum í nokkrum tökum til að halda honum inni í rammanum.“ – Hvað segirðu? „Það er ekki auðvelt að hreyfa tökuvél úti á sjó. Það er allt á svo mikilli hreyf- ingu. En þegar hann hóf einræðurnar og talaði við fuglana, þá var hann jafnan lengst í burtu til að byrja með en fyrr en varði var hann kominn alltof nálægt tökuvélinni. Ég var því í miklum vand- ræðum með að stilla fjarlægðir og svo fór að ég batt mig aftan í fótinn á honum og synti baksund í gagnstæða átt til þess að halda honum inni í rammanum. Við vor- um með risaskjá uppi á dekki og svona liðu heilu dagarnir, ég í baksundi og hann að synda áfram.“ Synti á móti Ólafi Darra Og það reyndist líka erfitt að hvolfa bátnum. „Við keyptum bát sem við sökktum tvisvar,“ segir Baltasar. „Og hann sökk næstum því á leið til Vest- mannaeyja. Það kom í fréttum þegar við vorum næstum farnir niður og það varð að kalla út björgunarsveitir. Þá vorum við að sigla honum í fyrsta skipti. Þegar bátar hafa staðið lengi við bryggju, þá þornar hampurinn á milli þiljanna og það losnar um hann. Fyrir vikið smýgur vatn inn í ölduganginum þegar sjórinn rís hærra en við bryggjuna. Það þurfti því að dæla úr honum. En síðar meir, þegar við þurftum að sökkva honum, þá vildi hann alls ekki fara niður.“ Baltasar brosir. „Þá endaði ég meira að segja á því að vera ofan í bátnum í tökunum. Ég og Björn Thors ákváðum að gera áhættu- atriðið sjálfir, við erum ekki með færa áhættuleikara á Íslandi – þeir hafa alltaf verið til vandræða. Það var magnað að vera í bátnum þegar hann fór loks á hlið- ina, hvílíkt magn af sjó og hvílíkt afl. Þá gerir maður sér grein fyrir þeirri von- lausu stöðu sem menn eru í við slíkar að- stæður.“ – Ég er enn að reyna að sjá þetta fyrir mér. Hvernig er að synda baksund og reyna að halda aftur af Ólafi Darra? „Það tók á, en ég er ágætis sundmaður, þess vegna féll þetta í minn hlut. Það hafðist. Þetta voru langar tökur með honum þar sem ramminn heldur. Og það er mun erfiðara en fólk áttar sig á. Við tókum líka við Reykjanes. Þá synti hann inn í klettakverk, sem erfitt er að komast að, og ætlaði aldrei að komast út. Það var mikið sog inn og engin leið að komast að þessu. Ég þurfti á endanum að synda til að ná í hann og draga hann út. Þá var hann alveg að gefast upp karlgreyið. Svo komu augnablik þar sem hann var alveg að bugast. En hann stóð sig eins og hetja og kláraði sig af þessu.“ – Var hann í sjógalla í öllum tökum? „Þegar hægt var að koma því við, en það getur verið erfitt að synda fyrir því og berjast í ölduganginum og brjálæðinu marga klukkutíma á dag í ísköldum sjón- um. Þó var þetta gert um sumar. Það hefði ekki verið hægt um vetur.“ – Það var þó gert! „Sem er náttúrlega ótrúlegt afrek [hjá Guðlaugi Friðþórssyni]. Við vorum í 10 til 12 stiga heitum sjó, en hann var 1 til 2 stiga heitum. Kaldasta vatnið úr kran- anum er átta gráður og þá verður höndin dofin eftir eina mínútu. Ef maður fer ofan í átta gráða heitt vatn í sundskýlu, þá er það eins og tyrkneskt bað. Við vorum með vatn í sundlaug sem var átta stiga heitt og kafararnir gátu ekki einu sinni verið ofan í því. Þetta hljómar kalt þegar maður segir það, en í raun og veru er kuldinn miklu miklu meiri.“ Gagnrýni Guðlaugs Djúpið er byggt á hörmungaratburði sem varð að kvöldi sunnudagsins 11. mars 1984 um kl. 23 þegar vélbáturinn Hellisey VE 503 sökk og fjórir menn fórust. Guð- laugur Friðþórsson stýrimaður, sem var 22 ára gamall, komst einn lífs af. Guðlaugur hefur sagt frá því í viðtali að líklega hefði hann verið um klukkustund á kili áður en hann lagðist til sunds sem tók um fimm tíma. Hann synti í átt að vitaljósinu á Stórhöfða og talaði við múkkana sem fylgdust með honum á sundinu. Í gegnum brimgarð var að fara til að ná landi og síðan tók við tveggja kílómetra gangur í þrjá klukkutíma yfir úfið hraun og vikurbrekkur til byggða. Á leiðinni rakst hann á baðkar sem notað var til að brynna fé, braut þumlungs- þykkan ísinn með bylmingshöggi og gat svalað þorsta sínum. Hann bankaði upp á í Suðurgerði 2 um kl. 6.55 að morgni mánudagsins 12. mars. Það kom fram í fjölmiðlum á sínum tíma að Guðlaugur væri ósáttur við gerð myndarinnar. „Ég ber fulla virðingu fyrir hans afstöðu,“ segir Baltasar. „En eins og þetta snýr að mér, þá var búið að gera leikrit sem byggðist á atburðinum og sýnt hefur verið heima og erlendis, Djúp- ið eftir Jón Atla Jónasson. Einnig var gerð heimildarmynd sem hann lék sjálfur í ári eftir að þetta gerðist. Það hafði enginn heyrt neitt frá honum um það, og þó vissi ég að Jón Atli sendi honum leikritið. Síð- an ákvað ég að fara af stað með myndina, Stærsti mar- bletturinn á þjóðinni Baltasar Kormákur klífur Everest kvikmynda- heimsins með stórmyndinni 2 Guns. Sýningar hefjast á Djúpinu í lok vikunnar um hörmulegt sjóslys við Vestmannaeyjar og ótrúlegt afrek ungs manns sem komst lífs af. Þetta er fyrsta ís- lenska myndin um sjóslys, sem Baltasar segir þó stærsta marblettinn á þjóðinni. Svo getur farið að næsta stórmynd verði Everest – á Vatnajökli. Pétur Blöndal pebl@mbl.is Baltasar Kormákur segist vart komast nær Hollywood en með 2 Guns, enda Denzel Washington og Mark Wa- hlberg á meðal leikara.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.