Morgunblaðið - 16.05.2014, Síða 30
30 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. MAÍ 2014
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Þetta var alger ævintýraferð frá A
til Ö,“ sagði Eiður Jónsson, sem rek-
ur Vélaverkstæðið í Árteigi í Kalda-
kinn. Hann er nýkominn úr ferðalagi
upp í fjöllin í Kamtsjatka, austast í
Rússlandi. Þar er áhugi á að setja
upp þingeyska heimarafstöð. Eiður
hefur smíðað fjölda lítilla vatnsafls-
virkjana sem framleiða rafmagn hér
á landi, í Grænlandi og Færeyjum.
Jarðhiti en ekkert rafmagn
Upphaf ferðalagsins yfir hálfan
hnöttinn var að rússneskur ferða-
maður kom hingað í vetur. Hann
hafði einhverja vitneskju um að hér á
landi væru smíðaðar heima-
rafstöðvar. Rússnesk kona í Reykja-
vík, sem var leiðsögumaður ferða-
mannsins, vissi af Trausta Bergland
Traustasyni, rússneskumælandi leið-
sögumanni, á Akureyri. Hann þekkti
til Vélaverkstæðisins í Árteigi. Rúss-
inn kom norður og skoðaði verk-
stæðið. Þá var ákveðið að þeir Eiður
og Trausti færu austur til Kamtsj-
atka nú í maí til að skoða aðstæður.
„Þessi maður býr í Moskvu en
stjórnar veiðihóteli inni á miðjum
Kamtsjatka-skaganum,“ sagði Eiður.
„Þarna er jarðhiti sem er virkjaður
til að hita húsin og þrjú baðhús,
heilsulindir með mismunandi vatni.
En þarna er ekkert rafmagn enda
hótelið langt frá allri byggð. Það er
langt inni í skógi og uppi í fjöllum, í
700 metra hæð yfir sjávarmáli.“
Hugmyndin er að byggja þarna
litla vatnsaflsstöð, 15-25 kW, sem
mun sjá hótelinu fyrir rafmagni. Eið-
ur sagði að þar væri góður lækur sem
mætti virkja. Rennslið í honum
minnkar yfir veturinn, en það kemur
ekki að sök því engin starfsemi er í
hótelinu yfir háveturinn.
Á skriðdrekum síðasta spölinn
Þeir Eiður og Trausti flugu fyrst
til Moskvu. Þaðan tók við níu klukku-
stunda viðstöðulaust flug austur til
hafnarborgarinnar Petropavlovsk á
Kamtsjatka. Svo var ekið á bíl í sex
og hálfan tíma til þorpsins Esso. Til
að komast að hótelinu var farið um
vegleysur á skriðdrekum og tók það
ferðalag fimm klukkustundir. Hót-
elið á tvo skriðdreka sem aka milli
þorpsins og hótelsins. Skriðdrek-
arnir eru notaðir til flutninga og eins
til að fara í veiðiferðir en þeir ösla yf-
ir árnar eins og ekkert sé. Þeir Eiður
og Trausti fengu far til baka á flug-
völlinn með þyrlu.
Þarna eru mjög gjöfular veiðislóð-
ir. Árnar eru fullar af nokkrum lax-
tegundum. Veiðimenn lenda oft í því
að fá fisk í hverju kasti. Einnig eru
stundaðar skotveiðar. Þarna eru
skógarbirnir, hreindýr, úlfar, villifé
og fleiri dýrategundir sem eru veidd-
ar. Skógarbirnirnir eru mjög stórir
og mátti aldrei fara neitt utan dyra
nema vopnaður maður væri með í
för. Björn banaði manni þarna í
fyrra.
„Það eru nánast eingöngu auð-
menn sem veiða þarna,“ sagði Eiður.
Langflestir veiðimennirnir eru Rúss-
ar. Þeir Eiður og Trausti eru í hópi
örfárra útlendinga sem þarna hafa
komið. Hinir eru prinsinn af Mónakó
og einn olíufursti.
Eiður telur nánast ákveðið að sett
verði upp heimarafstöð við hótelið á
næsta ári. Vélarnar verða þá sendar í
vetur til Finnlands og þaðan til St.
Pétursborgar. Svo verður búnaður-
inn fluttur með járnbrautalest til
Vladivostok og þaðan með skipi til
Petropavlovsk og svo á bílum og loks
skriðdrekum eða þyrlum upp í fjöllin.
Eiður setti upp heimarafstöð í
Grænlandi í hitteðfyrra og gerði til-
boð í aðra sem setja á upp í sumar.
Hann hefur líka sett upp virkjun í
Færeyjum. Hér innanlands er nokk-
uð jöfn eftirspurn eftir heima-
rafstöðvum. „Við erum alltaf að
smíða fyrir einhverja og vinnum við
þetta tveir til fjórir,“ sagði Eiður.
Þingeyskt hugvit í austurveg
Eiður Jónsson í Árteigi fór til Kamtsjatka að kanna aðstæður fyrir uppsetningu heimarafstöðvar
Stöðin á að þjóna afskekktu veiðihóteli sem er hátt uppi í fjöllum og fjarri öllum mannabyggðum
Ljósmyndir/Eiður Jónsson
Kamtsjatka Eiður Jónsson, rafstöðvasmiður í Árteigi, og Trausti Bergland Traustason, leiðsögumaður, við skriðdrekann sem flutti þá upp í fjallahótelið
sem hýsir einkum auðuga veiðimenn. Hótelið er fjarri mannabyggðum og tekur fimm klukkustundir að aka þangað á skriðdreka frá næsta þorpi.
Vatnsaflið virkjað Eiður Jónsson í Árteigi stendur í læknum sem hug-
myndin er að virkja. Afla á rafmagns fyrir afskekkt veiðihótel.
Veiðihótelið Hótelið er hitað með jarðhita. Þar eru einnig þrjú baðhús með
heitum heilsulindum. Í skógunum er fjöldi dýra og árnar fullar af laxi.
Skriðdrekarnir Tveir skriðdrekar eru notaðir til flutninga til og frá veiði-
hótelinu. Trjábolina átti að nota til að byggja nýtt gufubaðhús við hótelið.