Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.06.2014, Blaðsíða 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.6. 2014
Menning
Þ
eir eru dauðir. Dregnir á land
og hengdir upp til þurrkunar.
Samt stara þeir, brostnum og
jafnvel reiðilegum augum. Tár
sést á hvarmi.
„Ég er fyrst að sjá myndirnar allar sam-
an núna. Þetta verður eins og miðils-
fundur,“ segir Rúnar Gunnarsson og brosir
í kampinn. Við erum staddir í Gallery Bak-
aríi á Skólavörðustígnum og ljósmyndarinn
er að hengja upp sýningu sína, Framliðnir
fiskar, sem nú er opin almenningi. Á sýn-
ingunni eru 22 myndir og verða aðeins
gerð þrjú eintök af hverri.
Augun er mörg hver allsvakaleg og
greinilegt að Rúnar hefur hugsað út fyrir
rammann. „Sennilega er það einhver klikk-
un að tengjast þessum augum. Hver veit?“
segir hann hlæjandi.
Rúnar trúir mér fyrir því að hann sé að
brjóta reglur. „Maður á ekki að manngera
dýr. Hvað þá framliðin dýr. Samt læt ég
mig hafa það að þessu sinni. Þetta eru
bara portrett – eins og af hverjum öðrum
góðborgara.“
Í því gengur ókunnugur maður gegnum
rýmið. „Hér er allt fullt af fiski,“ hefur
hann á orði.
Já, það er sannarlega mokveiði. Og það á
miðjum Skólavörðustígnum.
Er þetta sannur heimur?
Rúnar segir verkin vekja spurningar um
eðli ljósmyndarinnar. „Hversu raunveruleg-
ur leikur er ljósmyndin? Er þetta sannur
heimur? Hver er trúverðugleiki sýnarinnar
og mörk þessarar skynjunar?“ spyr hann.
Svari nú hver fyrir sig!
Spurður hvort hann búi sjálfur að svari
hristir Rúnar höfuðið. „Því meira sem ég
velti þessu fyrir mér þeim mun ruglaðri
verð ég. En gildir það svo sem ekki einu?
Er ekki nóg að einhver stoppi við ljósmynd
og upplifi hana? Á sinn hátt. Er þá ekki
tilganginum náð?“
Hann heldur áfram með pælinguna. „Ég
hef ekki formúluna enda væri það örugg-
lega ekkert gaman. Þá þyrfti maður ekki
að leita lengur. Ljósmyndin stöðvar heim-
inn – sem annars færi á hraðferð framhjá
eins og strætisvagn. Stundum eru ein-
hverjir töfrar án þess að maður viti af
hverju. Og þarf ekkert endilega að vita
það.“
Rúnar hefur myndað fiskitrönur um langt
árabil, ekki síst á Ægisíðunni meðan þær
var þar að finna. Heillaðist af forminu. Í
seinni tíð hefur hann mest myndað mótífið
í Hafnarfirði. Lengst af snerust þessar
myndatökur um trönurnar. Þar til dag
einn. „Allt í einu fannst mér fiskarnir stara
á mig,“ útskýrir hann. „Þá fór ég að
mynda út frá augunum og úr varð þetta
konsept. Framliðnir fiskar. Ætli ég hafi
ekki verið um þrjá mánuði að safna þessu
myndefni.“
Fjórða sýningin á 45 árum
Spurður um tengingu sína við fiskinn og
hafið viðurkennir Rúnar að hann hafi aldrei
verið til sjós. „Ég er hins vegar ættaður úr
Aðalvík, þar sem lífið snerist um sjóinn, og
alinn upp við að borða þorskhausa. Pabbi
byggði gamla hjallinn á Nesinu, sem löngu
er orðinn víðfrægur, ásamt tveimur öðrum.
Það er synd að trönurnar séu horfnar það-
an og af Ægisíðunni.“
Þetta er fjórða sýning Rúnars og teygja
þær sig yfir hálfan fimmta áratug. Fyrstu
sýninguna hélt hann í Unuhúsi 1969, þá
næstu í Galleríi Sólon Íslandus við Aðal-
stræti 1977 og þá þriðju á Mokka snemma
á þessari öld. Á fyrri sýningunum tveimur
var mannlíf ljósmyndaranum hugleikið en á
Mokka hverfðust myndirnar um girðingar
og hindranir.
Rúnar lærði ljósmyndun hjá Guðmundi
Erlendssyni og síðar í Brooks Institute of
Photography í Kaliforníu. Aðeins nítján ára
var hann ráðinn til starfa sem frétta-
ljósmyndari á Alþýðublaðinu og eftir það
varð ekki aftur snúið. Rúnar hóf störf hjá
Ríkissjónvarpinu við stofnun þess 1966 og
vann þar í rúma fjóra áratugi sem kvik-
myndatökumaður, upptökustjóri, fram-
kvæmdastjóri og dagskrárstjóri. Lagði samt
aldrei ljósmyndavélina frá sér.
„Það var helst að ég gerði hlé þegar
stafræna tæknin kom fram á sjónarsviðið.
Mér leist ekkert á þá tækni til að byrja
með. Það breyttist þó fljótt, stafrænu
tækninni fleygði fram og í dag er hún al-
gjör draumur. Að vísu hélt ég fyrst um
sinn áfram að spara „filmuna“ en eins og
gefur að skilja hefur það enga þýðingu,“
segir hann hlæjandi.
„Núna ýtir maður bara á einn takka og
allt sem maður kærir sig ekki um að halda
upp á er farið. Það er ágæt regla að gera
það vikulega.“
Allt í einu
störðu fisk-
arnir á mig
FRAMLIÐNIR FISKAR ER YFIRSKRIFT LJÓSMYNDASÝNINGAR SEM RÚNAR
GUNNARSSON HEFUR OPNAÐ Í GALLERY BAKARÍI Á SKÓLAVÖRÐUSTÍG
40. ÞAR BRÝTUR RÚNAR ÓSKRÁÐA REGLU, MANNGERIR DÝR. MEIRA AÐ
SEGJA DAUÐ DÝR. „ÞETTA ERU BARA PORTRETT – EINS OG AF HVERJUM
ÖÐRUM GÓÐBORGARA,“ SEGIR LJÓSMYNDARINN UM VERK SÍN.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
„Sennilega er það einhver
klikkun að tengjast þessum
augum,“ segir Rúnar Gunn-
arsson ljósmyndari um fiska-
myndirnar.
Götuljósmyndun hefur lengi verið áhugamál hjá Rúnari. Þessi mynd var á sýningu sem hann hélt í
Galleríi Sólon Íslandus 1977. „Í blaðaljósmyndun er óhjákvæmilegt að mynda fólk,“ segir hann.