Stígandi - 01.04.1944, Page 71
STÍGANDI
EINAR GUTTORMSSON:
SUMAR í VÆNDUM
Býst ég við að brátt sig tygi
brottu jöfur af norðurhveli,
yfirgefur öll sín vígi
öðru festir bú í seli.
Detta enn úr dimmu skýi
dropar líkir hríðaréli.
Bendir margt til brottfaranna:
birta sólar, daginn lengir,
nemur burtu nálín fanna,
nístingshjúp af fljóti sprengir,
færa líf í limi manna
lóukvaksins hörpustrengir.
Fagna sumri fleygir gestir
fylla loft með þyt og kliði;
undir borð hjá Sóley setztir
svelgja teyg af lífsins miði,
um óravegu, endurhresstir,
aftur komnir fylktu liði.
Oft til vona bregður beggja,
þótt boði drottning komu sína.
Sköp þau allir skilja seggja,
er skyndibyljir hríðar hvína.
Svona á Island innan veggja
ægimyndir til að sýna.
Ef ægilegar ógnir blaka
yfir þér og þínu kynni
og sorgarflókar svartir þjaka
sigri lífs í hugsuninni,
láttu sól og sumar vaka
sameinað í vitund þinni.