Læknablaðið - 15.02.2012, Blaðsíða 58
Ritstjórn er sífellt á höttunum eftir því að halda Læknablaðinu lifandi og láta það ekki
festast í farinu. Liður í því er að fá fleiri raddir kolleganna til að hljóma. í þessu skyni
hefur blaðið kallað eftir pistlum frá formönnum sérgreinafélaga og undirdeilda Lækna-
félags íslands og Reykjavíkur þar sem þeir reifi það sem efst er á baugi í þeirra félagi.
Er gott að vera almennur
læknir á íslandi?
Félagsmenn í Félagi almennra lækna
(FAL) eru nú um 200 og jafngildir það um
20% starfandi lækna hérlendis. Almennir
læknar sinna mikilvægum störfum. Þeir
halda utan um flest er tengist sjúkra-
húsvinnu, frá innlögn til útskriftar og
vinna einnig á heilsugæslustöðvum. Þeir
eru í miklum samskiptum við sjúklinga
og aðstandendur, og sinna oft umfangs-
miklum vísindastörfum. Almennum
læknum er mjög umhugað um að leggja
sitt af mörkum og sinna starfi sínu af alúð
og fagmennsku, með öryggi sjúklinga að
leiðarljósi. Það getur verið gott að vera
almennur læknir á Islandi, en ýmislegt má
betur fara.
Launin eru of lág
Læknar hafa dregist aftur úr öðrum
stéttum hvað varðar launaþróun og eru
almennir læknar í dag með lægstu laun
háskólastétta, miðað við fjölda námsára.
Grunnlaun nýútskrifaðs læknakandídats
eru 319.000 krónur, sem gera 235.000 krón-
um til ráðstöfunar. Til glöggvunar er gert
ráð fyrir að einstaklingur í eigin húsnæði
þurfi 200-300.000 í grunnframfærslu og
sambúðarfólk með eitt barn 380-540.000!
Það er ljóst að grunnlaunin þyrftu að
verða umtalsvert hærri.
Kjarasamningsbrot og önnur
réttindabrot eru algeng
í lögum frá 1938 er fjallað um kjarasamn-
inga og kjarasamningsbrot.2 Alltof algengt
er að brotið sé gegn kjarasamningsákvæð-
um, meðal annars hvað varðar frítökurétt
og námsferðir. FAL er að skoða umfang
þessara brota.
Sú aðstaða sem almennir læknar fá er
ekki boðleg, búningsherbergi fyrir 10-15
manns eru gjarnan gamlar skrifstofur eða
risherbergi sem ekki eru hugsuð til þess-
ara nota og í engu samræmi við lög um
aðbúnað á vinnustað.3
í fyrra hóf FAL átakið „Virðum vinnu-
tímann" og hefur það vakið nokkra
athygli. Bentum við þá á tölur sem sýna
að almennir læknar vinna mikla ólaunaða
yfirvinnu. Slíkt tengist skipulagi stofnan-
anna, þar sem algengt er að vaktaskipti og
rapporttími sé utan skilgreinds vinnutíma
og því mætti breyta.
Álagið er of mikið
Nauðsynlegt er að reikna út mönnunar-
þörf lækna á íslandi og má benda á að
hjúkrunarþyngd er reiknuð út á hverjum
tímapunkti.
Við verðum að vita hvenær álag verður
of mikið en algengt er að almennir læknar
séu með fullskipað teymi ásamt öðrum
verkefnum, til dæmis á göngudeild og
skurðstofu. Starfssvið lækna er ekki
afmarkað með starfslýsingum, líkt og hjá
öðrum stéttum, og því er tilhneigingin sú
að allt sem ekki tilheyrir starfslýsingum
annarra samstarfsstétta falli sjálfkrafa á
almenna lækna.
í nýlegri könnun á Landspítala kemur
fram að allt að 75% almennra lækna sýna
streitueinkenni, 90% þreytueinkenni, 50%
þjást af andlegri vanlíðan og 85% þeirra
telja ólíklegt að þeir verði þar í vinnu eftir
tvö ár.4 Mikilvægt er að taka á þessum
málum og tryggja að mönnun sé í sam-
ræmi við álag í vinnu.
Aðlögun og samráð skortir
Almennir læknar viðhafa öguð vinnu-
brögð og fagmennsku í starfi. Það er þó
erfitt að stunda slíkt við þær aðstæður
sem boðið er upp á hérlendis. Aðlögun í
starfi er oft engin og skýtur það skökku
við í jafn ábyrgðarfullu starfi. Sífellt er
gert ráð fyrir að almennir læknir „finni út
úr hlutunum sjálfir". Slíkt á ekki við um
aðrar stéttir innan heilbrigðiskerfisins og
veldur minni framleiðni, auk þess sem það
dregur úr öryggi og eykur líkur á mis-
tökum.
Almennir læknar hafa oft góða hug-
mynd um hvernig bæta mætti skilvirkni
og auka öryggi á vinnustaðnum, til dæmis
með gerð verklagsreglna fyrir algenga
hluti eins og innskriftir og útskriftir
sjúklinga. Staðreyndin er samt sú að
verklagsreglur eru oft ekki sýnilegar, ekki
uppfærðar eða ekki til staðar og séu þær
gerðar eru almennir læknar sjaldan hafðir
með í ráðum við þá framkvæmd.
Mikilvægar breytingar er varða vakta-
fyrirkomulag eru oft gerðar einhliða og
án samráðs við almenna lækna. Víða á
Norðurlöndum eru slíkar breytingar ein-
ungis mögulegar með samþykki almennra
lækna5 og hefur slíkt fyrirkomulag ekki
neitt nema jákvætt í för með sér.
Lokaorð
Almennir læknar vilja leggja sitt af mörk-
um og sinna starfi sínu vel. Tækifærin á
Islandi eru mörg og mjög oft gott að vinna
hér. En þegar saman fara mikið álag, lág
laun, kjarasamningsbrot og óviðunandi
vinnuaðstaða er ekki skrítið að margir
kjósi að fara sem fyrst utan til starfa og
náms. Þetta er einnig ein af ástæðunum
fyrir því að að ungir sérfræðingar telja
ekki fýsilegt að flytjast heim aftur. Yfir-
völd og stjórnendur verða að horfast í
augu við vandann og reyna allt sem í
þeirra valdi stendur til að bæta starfskjör
og aðstæður lækna á íslandi.
Heimildir
1. Reiknivél fyrir neysluviðmið. 2011. velferdarraduneyti.is/
neysluvidmid/- janúar 2012.
2. Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. althingi.
is/lagas/nuna/ 1938080.html - janúar 2012.
3. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
nr. 46/1980. althingi.is/lagas/137/1980046.html - janúar
2012.
4. Mannauðssvið. Könnun á starfsumhverfi starfsmanna
Landspítala 2010. Landspítali, Reykjavík 2010.
5. Yngre læger - fællesvagt. laeger.dk/portal/page/portal/
L AEG E R DK / Laegerd k / Y_L / FAQ / KORT_FORTA LT_
OM_FAELLESVAGT - janúar 2012.
Ómar Sigurvin
Gunnarsson
formaður Félags
almennra lækna
omarsg@landspitali. is
130 LÆKNAblaðið 2012/98