Læknablaðið - 01.03.2015, Blaðsíða 28
148 LÆKNAblaðið 2015/101
R A N N S Ó K N
Samtals 271 (28%) viðmælandi taldi sig eingöngu hafa reynslu
af andlegu ofbeldi en 202 (21%) hvorki af líkamlegu né andlegu
ofbeldi eða vanrækslu. Ekki var tölfræðilega marktækur munur
á mati uppeldis þessara tveggja hópa viðmælenda (p=0,6416). Þeir
sem gáfu upp að hafa eingöngu reynslu af andlegu ofbeldi voru
1,2 sinnum líklegri til að meta uppeldi sitt ásættanlegt eða slæmt
borið saman við þá sem sögðu ekki frá slíkri reynslu, en munurinn
var ekki tölfræðilega marktækur (95% CI 0,6-2,4).
Við aðhvarfsgreiningu án leiðréttingar voru 3,6 (95% CI 2,2-
6,0) sinnum meiri líkindi til að þeir sem höfðu orðið fyrir andlegu
ofbeldi mætu uppeldi sitt sem ásættanlegt eða slæmt borið saman
við þá sem sögðu ekki frá slíkri reynslu. Með leiðréttingu fyrir
aldri, kyni og svörum um reynslu af líkamlegu ofbeldi sáust þessi
tengsl áfram (OR 3,8; 95% CI 2,2-6,4).
Umræða
Hér eru kynntar niðurstöður rannsóknar um svör fullorðinna Ís-
lendinga um reynslu sína af andlegu ofbeldi og vanrækslu í æsku
og mat þeirra á gæðum uppeldis síns. Tæplega 70% allra viðmæl-
enda sögðu frá reynslu af einu eða fleiri af 8 tilgreindum formum
andlegs ofbeldis. Eftir því sem reynslan var sögð fjölbreyttari
jukust líkur á því að viðmælandinn mæti gæði uppeldis síns sem
slæmt eða ásættanlegt fremur en gott. Upplýsingar um aukið
umfang reynslu af slíku ofbeldi leiddi einnig til sömu niðurstöðu,
að kyrrsetningu undanskilinni. Rúmlega einn af hverjum 10 við-
mælendum taldi sig hafa upplifað vanrækslu í æsku og voru þeir
marktækt líklegri til að segja frá reynslu af andlegu og líkamlegu
ofbeldi borið saman við þá sem ekki töldu sig hafa verið vanrækta
í æsku.
Viðmælendur voru beðnir um að rifja upp liðna atburði og
því er hætta á gleymsku eða misminni. Rannsóknir sýna þó að
upplýsingar sem fást með slíkum hætti eru nokkuð áreiðanlegar
og endurspegla reynslu viðkomandi, nema hvað minningar eru
stundum vantaldar.17,26 Því er ekki útilokað að algengi andlegs
ofbeldis sé hærra í raun en niðurstöður okkar benda til. Hafa ber
þó í huga að spurt var um hvort foreldrar eða aðrir forsjáraðilar
hefðu beitt viðkomandi einu eða fleiri af 8 tilgreindum formum
andlegs ofbeldis en ætla má að það hafi minnt viðmælendur á til-
tekin atvik í æsku.
Hvað telst gott uppeldi er breytilegt og það sama á við um rétt-
mæta ögun. Því geta skilin á milli refsinga og ofbeldis stundum
verið óljós í hugum fólks. Í þessari rannsókn var stuðst við alþjóð-
legar skilgreiningar á andlegu ofbeldi20 og niðurstöður eigind-
legrar rannsóknar hér á landi25 og leitað upplýsinga um reynslu
viðmælenda af mismunandi birtingarmyndum þess. Huglægt mat
þeirra hefur því áhrif á svörin. Það vekur þó athygli að eftir því
sem viðmælendur gefa upp fjölbreyttari og umfangsmeiri reynslu,
þeim mun verr meta þeir uppeldi sitt og er það í samræmi við aðr-
ar rannsóknir.14,15 Algengi vanrækslu í þessari rannsókn er svipað
og áætlað hefur verið fyrir hátekjuríki16 og lýsingar viðmælenda
á henni eru í góðu samræmi við skilgreiningu WHO á hugtak-
inu.20 Þetta bendir til þess að þær niðurstöður sem hér eru kynntar
endurspegli algengi og umfang andlegs ofbeldis gegn börnum og
vanrækslu hér á landi.
Það er umhugsunarefni að þeir sem voru yngri en 30 ára voru
nær þrisvar sinnum líklegri til að segja frá reynslu af andlegu of-
beldi en þeir sem voru eldri. Yngri viðmælendur sögðu frá meiri
reynslu af því að vera hræddir, kyrrsettir, sviptir fríðindum eða
verið hótað að fjarverandi foreldri yrði sagt frá ósæmilegri hegðun
borið saman við eldri viðmælendur. Enginn marktækur munur
var aftur á móti á aldri og svörum viðmælenda um reynslu af háði,
hótun, höfnun eða mismunun. Þetta má skýra með breyttum hug-
myndum um hvað sé ofbeldi og hvað sé refsing en einnig gleymsku
þeirra sem eldri eru. Eins er mögulegt að yngri viðmælendur hafi í
reynd oftar verið beittir uppeldisaðferðum sem falla undir andlegt
ofbeldi en þeir sem eldri eru, sem er andstætt þróun líkamlegs
ofbeldis gegn börnum.24 Hugsanlega endurspegla þessar niður-
stöður einnig breyttar áherslur í uppeldi. Eftir að efasemdir um
ágæti líkamlegra refsinga breiddust út um og eftir 1970 urðu upp-
eldisaðferðir sem fela í sér kyrrsetningu barns og sviptingu fríð-
inda vinsælar,27 en hafa ber í huga að þær geta falið í sér andlegt
ofbeldi gagnvart barni.
Rannsóknir sýna venjulega ekki kynjamun hvað varðar reynslu
af andlegu ofbeldi en einstaka rannsóknir hafa sýnt að stúlkur
verða frekar fyrir slíku ofbeldi.22 Í þessari rannsókn reyndust
karlar marktækt líklegri til að segja frá andlegu ofbeldi í æsku en
uppgefin reynsla kynjanna af mismunandi formum var ekki sú
sama (mynd 1). Engar rannsóknir fundust sem skoða kynjamun
gerenda andlegs ofbeldis en í þessari rannsókn var ekki tölfræði-
Mynd 2. Líkindahlutfall (95% CI) þess að þátttakandi meti uppeldi sitt ásættanlegt eða slæmt fremur en gott eftir uppgefinni reynslu hans/hennar af fjölda forma andlegs ofbeldis
(2a) og umfangi þess (2b).
a b