Læknablaðið - 01.03.2015, Blaðsíða 12
132 LÆKNAblaðið 2015/101
með bakflæði. Í áðurnefndri norski rannsókn á 99 börnum, 7-16
ára, sem fóru í 24-tíma sýrustigsmælingu í vélinda vegna gruns
um bakflæði, voru einungis 37% þeirra með jákvæða sýrustigs-
mælingu. Uppgangur og ælur voru þau einkenni sem oftast fylgdu
jákvæðri sýrustigsmælingu. Fjórðungur barnanna sem höfðu já-
kvæða sýrustigsmælingu voru ekki með afgerandi einkenni um
magavélindabakflæði.13 Í nýlegri rannsókn á börnum með lang-
vinnan hósta sem höfðu magavélindabakflæði staðfest með við-
námsmælingu í vélinda, voru 19 af 21 barnanna án dæmigerðra
bakflæðiseinkenna.11 Þó að allmargar rannsóknir bendi á tengsl
milli öndunarfæraeinkenna og bakflæðis, er orsakasambandið
ekki þekkt með vissu. Menn hafa ályktað að magavélindabakflæði
geti valdið öndunarfæraeinkennum, eins og astma, með tvennum
hætti. Annars vegar með ásvelgingu af magainnihaldi niður í
berkjur sem orsakar ertingu og bólgu í kjölfarið og hins vegar
með súru magainnihaldi neðst í vélinda sem veldur samdrætti á
berkjum í gegnum taugaboð um Vagus-taugina.19 Á hinn bóginn er
astmi talinn geta valdið magavélindabakflæði vegna undirþrýst-
ings í brjóstholi við kröftuga innöndun.20
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tengsl bakflæð-
iseinkenna og öndunarfæraeinkenna hjá 7-10 ára skólabörnum í
Reykjavík.
Efniviður og aðferðir
Á árunum 2008-2009 voru sendir út 2895 stuttir spurningalistar til
7-10 ára barna í grunnskólum Reykjavíkur til að skima fyrir fæðu-
ofnæmi. Valdir voru allir grunnskólar í Reykjavík sem voru með
100 börn eða fleiri í þessum aldurshópi. Rannsóknin var hluti af
stórri evrópskri rannsókn (Europrevall) og gerð samtímis í 8 lönd-
um.21 Svör bárust frá 2346 börnum (81%). Úr þeim hópi mættu 176
(7,4%) af 251 börnum til frekari rannsókna á göngudeild í lungna-
og ofnæmissjúkdómum á Landspítala. Hlutfall stúlkna var 59%.
Þau höfðu svarað játandi spurningunni: „Hefur barn þitt nokkurn
tímann veikst eða orðið illt af að borða einhverja sérstaka fæðu
eða mat?“ Einnig komu 317 börn sem valin voru af handahófi úr
þeim sem svöruðu spurningunni neitandi, sem viðmiðunarhópur.
Samtals voru því börnin 493 sem tóku þátt í þessum hluta rann-
sóknarinnar. Börnin svöruðu ásamt foreldrum sínum ítarlegum
spurningalista um ýmsa heilsufarsþætti. Þarna voru meðal annars
spurningar um öndunar- og meltingarfæraeinkenni, sem notaðar
voru í þessari rannsókn (fylgiskjal 1). Leyfi fyrir rannsókninni
voru fengin hjá vísindasiðanefnd 28.8.2007 (07-076-S1) og Persónu-
vernd 11.6.2007 (S3473/2007).
Tölfræði
Svörin voru skráð jafnóðum í gagnagrunn sem var notaður til að
skoða ofangreinda þætti og bera saman í tölfræðiforritinu SPSS.
Notuð voru kí-kvaðrat og óháð t-próf til að reikna út marktækan
mun. Tengsl milli flokkaðra breyta voru metin með gagnlíkinda-
hlutfalli (odds ratio) ásamt 95% öryggisbili.
Niðurstöður
Alls tóku 493 börn þátt í rannsókninni, 262 (53%) stúlkur og 231
(47%) drengir. Meðalaldur stúlkna var 8,5 ár og drengja 8,4 ár.
Stúlkur voru líklegri en drengir til að svara því játandi að hafa
orðið illt af einhverri fæðu eða mat (p<0,05) í fyrrihluta rannsókn-
arinnar. Þær voru ekki líklegri en drengir að hafa fengið einhver
meltingarfæraeinkenni (p=0,17), sem sérstaklega var spurt um í
seinni hluta rannsóknarinnar, né heldur nefeinkenni (p=0,54) eða
astmakast á síðastliðnum 12 mánuðum (p=0,54).
Lungnaeinkenni
Þau börn sem höfðu einhvern tímann fengið astma voru 186 (37,8%)
og af þeim voru 39 (7,9%) sem höfðu fengið astmakast á síðustu 12
mánuðum (tafla I). Flest börnin, eða 142 (76%), voru tveggja ára eða
yngri þegar þau fengu sitt fyrsta astmakast. Aðeins 21 barn (4,2%)
var sagt hafa vaknað upp vegna astma á síðustu 12 mánuðum. Af
svarendum sögðust 77 (15,6%) hafa haft hvæs eða píp í lungum síð-
ustu 12 mánuði og 82 (16,6%) höfðu haft einhver lungnaeinkenni
síðustu 12 mánuði.
Nefeinkenni
Alls höfðu 137 börn (27,8%) haft einhver nefeinkenni og 77 börn
(15,6%) einkenni um ofnæmi í nefi, þar með talið frjókvef. Sam-
tals 119 börn (24,1%) höfðu einhvern tímann átt í vandræðum með
hnerra, nefrennsli eða nefstíflur án þess að vera með kvef eða með
flensu, en 103 börn (20,9%) höfðu haft slík einkenni á síðustu 12
mánuðum og 56 börn (11,4%) höfðu haft nefvandamál með kláða
og rennsli úr augum (tafla II).
Meltingarfæraeinkenni
Alls höfðu 225 börn (45,6%) haft einhver einkenni frá meltingar-
færum á síðustu 6 mánuðum. Börnin voru ýmist með eitt eða
fleiri einkenni og skiptust þau þannig að 85 börn (17,2%) höfðu
haft uppköst án þess að vera með gubbupest eða matareitrun, 148
R A N N S Ó K N
Tafla I. Taflan sýnir hlutfall þeirra barna sem svöruðu játandi spurningum um
öndunarfæraeinkenni, n=493.
Spurningar Hlutfall sem svaraði
spurningunni játandi
Hefur barnið verið með surg eða píp í brjósti einhvern
tímann á síðustu 12 mánuðum?
15,6%
Hefur barnið fundið fyrir mæði þegar surg/píp
óhljóðið var til staðar?
9,9%
Hefur barnið haft surg eða píp í brjósti þegar það var
ekki kvefað?
7,7%
Hefur barnið einhvern tímann haft astma? 37,7%
Hefur barnið fengið astmakast á síðustu 12
mánuðum?
7,9%
Tafla II. Taflan sýnir hlutfall þeirra barna sem svöruðu játandi spurningum um
nef- og augneinkenni, n=493.
Spurningar Hlutfall sem svaraði
spurningunni játandi
Hefur barnið haft ofnæmi í nefi, þar með talið
frjókvef?
15,6%
Hefur barnið einhvern tímann átt í vandræðum
með hnerra, nefrennsli eða nefstíflur án þess að
það væri með kvef eða með flensu?
24,1%
Hefur barnið átt í vandræðum með hnerra,
nefrennsli eða nefstíflur án þess að það væri
kvefað eða með flensu síðustu 12 mánuði?
20,9%
Hefur barnið haft nefvandamál með augnkláða eða
vökvafyllt augu?
11,4%