Tímarit Máls og menningar - 01.12.1959, Page 41
SKERPLA
næstum kátur, þessa stuttu nöpru
frostdaga og þessi löngu, dimmu,
þögulu kvöld, sem öll voru eins. Og
næturnar, með sínu ógnandi myrkri,
þegar bylurinn lamdi þekjuna og
norðangjósturinn kembdi visnuð
sinustráin áveggjunum.
Það var bara eitt, sem hafði stælt
í honum kjarkinn, hresst hann og
glatt, það var vonin um endalok vetr-
arins, tilhlökkunin eftir vorinu, —
birtunni, hlýjunni, grængresinu og
fuglasöngnum.
Og nú var vorið komið — og farið
aftur. Þessvegna var kuldinn miklu
bitrari, stormurinn naprari og frostið
sárara.
Hann tvísteig enn hjá hófblaða-
brúskinum og hugsaði sárhryggur til
allra gulu kollanna, sem biðu saman-
hnipraðir þarna innan í, — biðu eftir
þey, sól og sunnanátt, árangurslaust.
Þarna höfðu þær fyrstu rétt ætlað að
fara að opna sig og breiða út gulu
blöðin sín------
Drengnum kólnaði innan og það
hljóp illt í hann, — hann setti á sig
stút og spýtti í vindinn. Nístingsköld
hviða sletti því framan í hann aftur.
Hann þurrkaði framanúr sér á úlpu-
erminni og fannst hann ætla að
guggna.
Hverskonar veður var þetta eigin-
lega? Hann stappaði niður fætinum
og óð svo rakleitt út í sóleyjastóðið
og braut niður hrímaðar hófblöðk-
urnar, tróð og sparkaði, þangað til
ekkert varð eftir nema hrúga lemstr-
aðra stilka og marinna blaða, ólögu-
leg beðja af svívirtum líkum sóleyja-
barnanna.
Drengurinn gekk spölkorn aftur á
bak og virti fyrir sér spjöllin.
Hvað var hann eiginlega að
hangsa? Sóleyjar, ekki nema það þó,
— einskisvert hismi — og hann, full-
orðinn maðurinn! Hann, sem átti að
ganga til kinda.
*
Drengurinn labbaði hægt niður
túnið, setti bakið í storminn og spark-
aði í hrossagaddana, sem urðu á leið
hans eins og pabbi var vanur að gera.
Þeir voru harðfrosnir, og taðköggl-
arnir skoppuðu glettnislega á undan
honum rétt eins og hann væri að leika
sér að þeim. Honum þykknaði í skapi
og hann steinhætti að sparka. Honum
var enginn leikur í hug, — hann var
ekkert barn lengur.
Hann grillti til lofts og hafði hönd-
ina fyrir skyggni, eins og hann hafði
séð fullorðna fólkið gera, þegar það
var að spá veðri.
Svo mundi hann, að þetta gerði
fólkið bara í miklu sólskini, og hann
fyrirvarð sig. Gott að enginn sá hann.
Fólkið var svo útsetið með að stríða
honum þegar hann reyndi að vera
fullorðinn.
Nú var engin ofbirta í lofti.
Það var svo auðséð að veturinn var
kominn aftur. Pabbi sagði reyndar
231