Tímarit Máls og menningar - 01.10.1975, Qupperneq 45
Þrotabú mannlegrar reynslu
sinfóníu. Samt er hér ekki nema hálfur sannleikur sagður. Maðurinn er
ekki einn um gæðamat tilveru sinnar eða þeirra tóna, sem hann framleiðir
í góðri trú, sér og öðrum til yndisauka. Eins yndi er annars óyndi. Þetta
er sú hindrun, sem alltaf er fyrir hendi, og því meira verður hennar vart
sem lífsskynjun og tjáningarviðleitni mannsins fellur lengra frá tízku síns
tíma. Gæðamat einstaklingsins er komið undir manngildis- og lífshugsjón-
um ríkjandi stétta samfélagsins á hverjum tíma, svo sem mýmörg manna-
verk sanna, sem ekki hafa fengið neinn hljómgrunn í samtíma sínum, en
eru hafin til öndvegis á öðrum skeiðum sögunnar.
Maðurinn fæðist sem einstaklingur inn í samfélagsheild, sem hverju
sinni er borin uppi af þeirri andlegu og veraldlegu tízku, sem hún hefur
mótað eða tileinkað sér. Hver verðandi þegn samfélagsins verður fyrir
áhrifum og mótast af „normum“ félagsheildarinnar, sumir algerlega og
áreynslulaust, aðrir tregðast við og viðurkenna þau aðeins að hluta og enn
aðrir hafna þeim. Þar með er lagður grundvöllur að röskun þess jafnvægis
milli einstaklings og samfélags, sem talið er nauðsynlegt til þess að maður-
inn geti notið sín sem félagsvera. Hann finnur sig ekki móttækilegan fyrir
þeim mætum, sem samfélagið keppir eftir.
Sjaldan er nokkurt þjóðfélag svo farsælt að geta keppt eftir einhverju
því, sem höfðar nokkuð jafnt til eðlisþátta og þurfta mannsins. En alla
jafna keppir það eftir einhverju, sem höfðar til einhverra þátta á kostnað
annarra, og reynir um leið að undirstrika mikilvægi og gildi þeirrar eftir-
sóknar, sem alla daga á að veita manninum hina einu, sönnu og varan-
legu hamingju. — Sum skeið sögunnar eru tröllriðin harmagráti og tilveru-
hatri, þar sem hverjum var gæfan ráðin, sem fann til megnustu andúðar
á öllu sem lífsanda dró. Onnur af dynjandi hundakæti, og enn önnur af
óseðjandi ágirnd á öllu og öllum, þar sem hver kostar kapps um að komast
yfir sem flest til að éta eða höndum þreifa. Sá einstaklingur sem ekki
sýnir sóknarhug eftir þessum samfélagsákvörðuðu verðmætum, flokkast
óðar utangátta undirmálsvera, sem hvorki á sér þegnskap né lífshugsjónir.
Hinn þekkti lærdómsmaður Erich Fromm telur að vestræn nútíma iðn-
þjóðfélög hafi getið af sér nokkra nýja manngervinga, þ. á m. þá, sem
hann kallar homo mechanicus (vélmennið), og homo consumens (neyzlu-
veruna). Homo mechanicus er sá maður, sem hefur samsamað sál sína
vélum og hvers kyns vélvæðingu, en hefur ímugust á lífrænum samskipmm
við umheiminn. Homo consumens er hins vegar sá manngervingur, sem legg-
155